138. löggjafarþing — 123. fundur,  14. maí 2010.

utanríkis- og alþjóðamál.

611. mál
[15:35]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil nú byrja á því að þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir góða yfirferð yfir stöðu í utanríkismálum okkar. Mig langar að gera hér að umtalsefni, og fagna því sem hann talaði um, að það þyrfti að vinna að nýrri öryggisstefnu fyrir Ísland. Ég held að það sé alveg hárrétt og ég er algjörlega sammála hæstv. ráðherra í því að tímabært sé að við förum yfir öryggismálin. Það hafa orðið hér gríðarmiklar breytingar frá því að varnarliðið fór af landinu og við njótum ekki nærveru þess lengur. Við gerðum varnarsamning við Bandaríkin en eftir það hafa orðið vatnaskil í þessum málum.

Fyrir ekki löngu var unnin áhættumatsskýrsla af faghópi fyrir utanríkisráðuneytið sem hefur verið birt og hún er í raun góður grundvöllur til þess að hefja slíka vinnu. Í henni kemur fram sú staðhæfing, sem ég held að sé alveg rétt, að engin hernaðarleg ógn í nútímanum eða nærtímanum steðji að okkur þó að það geti auðvitað breyst í áranna rás og það verði að vera grundvöllur þess hvernig við horfum til framtíðar. Það er mín skoðun að slík stefna í öryggismálum eigi að fara fram í samvinnu við vinaþjóðir okkar innan NATO. Ég tel enga ástæða til að endurskoða veru okkar í NATO eins og kom fram hjá hv. þm. Þór Saari áðan heldur eigi þetta að fara fram á þeim vettvangi.

Það er alveg ljóst að bandalagsþjóðir okkar hafa m.a. horft til þess að öryggishugtakið er miklu víðtækara en það var. Það fjallar um öryggismál í víðara samhengi og tekur ekki lengur eingöngu til hernaðarlegra ógna. Við eigum samleið á miklu breiðari vettvangi innan NATO eftir að farið er að horfa á málin frá þeim vinkli.

Áherslur innan NATO á borgaralegum verkefnum hafa aukist, sérstaklega í öryggismálum. Þess er skemmst að minnast að fyrir nokkrum árum komu hingað meira að segja hermenn úr fastaliði NATO til þess að þjálfa og læra grundvallaratriði í rústabjörgun hér á landi. Á þeim tíma sem Persaflóastríðið var í aðsigi stóð fyrir dyrum að einn af fastaflotum NATO kæmi hingað og flytti hermenn í land á ákveðnu tímabili til þess að hljóta ákveðna grunnþjálfun í rústabjörgun og björgun fólks við slíkar aðstæður. Við höfum mikið fram að færa eins og hæstv. ráðherra kom inn á í ræðu sinni og höfum sýnt það á alþjóðavettvangi að við eigum fullt erindi í slíka vinnu.

Ég held að þegar stefnan var mótuð með vinaþjóðum okkar eftir að varnarliðið fór, sem fólst í að taka yfir rekstur íslenska ratsjárkerfisins og stofnun Varnarmálastofnunar og loftrýmiseftirlitið, hafi í raun verið of skammur tími liðinn til þess að við gætum mótað okkur einhverja stefnu til framtíðar á þeim tíma. Ég hef talað gegn þessum áherslum eins og lagt var upp með. Loftrýmiseftirlitið kostar hundruð milljóna ef ekki milljarða. Hvort sem þeir peningar eru nú greiddir úr vasa okkar Íslendinga að hluta til eða ekki þá kostar þetta klárlega heilmikið fjármagn og mætti verja því fé miklu betur. Það þarf að fara að nýju yfir áhersluþættina með vinaþjóðum okkar. Við þurfum að meta hvort þeir geti komið til aðstoðar á þessu svæði í víðtækara öryggishlutverki en þetta loftrýmiseftirlit tekur til. Þá vitna ég til þess að það gæti komið sér betur fyrir öryggismál á svæðinu, bæði hernaðarleg og borgaraleg, að hér væru t.d. herskip á ákveðnum tímum eða varðskip á einhverjum hafsvæðum sem væru búin þyrlum og gætu þannig átt gott samspil við þyrlusveit okkar og Landhelgisgæslu okkar, alveg eins og Landhelgisgæslan á gott samstarf um slíkt við Dani.

Ég er einnig hlynntur því að starfsemi Varnarmálastofnunar verði endurskoðuð. Ég held að hægt sé að gera þetta með öðrum hætti. Það er ljóst að í þeim efnum er eftirlit og ákvarðanataka um allt viðbragð annars staðar en hér á landi. Greiningar á boðum sem koma fara fram hér en allar ákvarðanir eru teknar annars staðar. Skýrslur sem taka á þessu hafa verið lagðar fram og sýna að hægt sé að gera þetta með einfaldari og ódýrari hætti og sjálfsagt að skoða hvort þetta eigi ekki samleið með rekstri annarra stofnana okkar á þessu sviði eins og Landhelgisgæslu og jafnvel ríkislögreglustjóra.

Annað sem komið er inn á er það skipulag sem við höfum komið á í málum innan lands varðandi öryggismál og hefur Björgunarmiðstöðin í Skógarhlíð verið til mikillar gæfu í þeim málum. Hugmyndirnar sem koma fram í nýlegri skýrslu vinnuhóps um að leggja niður Varnarmálastofnun fela í sér ákveðna hættu á því að samstarfið sem þar er molni ef hugmyndirnar verða að veruleika. Til þessa þarf að horfa sérstaklega vegna þess að það má ekki verða. Björgunarmiðstöðin í Skógarhlíð hefur sannað gildi sitt og alveg sérstaklega á þeim erfiðu tímum sem verið hafa í vetur þar sem miklar náttúruhamfarir hafa dunið á okkur og fyrirkomulag í raun reynst ágætlega. Auðvitað erum við að vinna úr þeirri reynslu sem fæst og verður sú reynsla okkur mikilvæg í framtíðinni. Hún treystir enn þá skoðun að þetta eigi að vera með þessu fyrirkomulagi þar sem allir viðbragðsaðilar sameinast um eina stjórnstöð og eina samræmingarstöð með yfirsýn yfir alla hluti.

Mig langar aðeins í lokin að koma inn á atvinnumálin sem hæstv. ráðherra ræddi aðeins um í skýrslu sinni og tækifærin sem þar liggja. Undanfarið höfum við í hv. iðnaðarnefnd þingsins átt fundi með opinberum aðilum um hvaða tækifæri liggja á borðinu og það er ótrúlegur fjöldi fyrirtækja sem maður heyrir af í viðræðum við þessa aðila sem líta hingað varðandi atvinnuuppbyggingu. Höftin gagnvart því liggja fyrst og fremst á ríkisstjórnarborðinu. Það er auðvitað óþolandi hvernig staðið er að þessum málum í okkar samfélagi. Tækifærin eru fyrir framan okkur en við vinnum ekki úr þeim. Því verður að breyta. Ég notaði hér, virðulegi forseti, orðið „skemmdarverk“ í þessari viku í því sambandi og ég stend við að þeim aðgerðum sem gripið hefur verið til eða aðgerðaleysinu sem ríkir sé ekki hægt að líkja við neitt annað.

Það sama er búið að gerast í sjávarútvegsmálunum þó að ég geri mér nú vonir um að það sé að leysast. Menn eru farnir að átta sig á því að þessi svokallaða fyrningarstefna sé leið sem gangi ekki upp. Ég held að þetta verði stóra málið sem muni ráða ferð þegar við tökum ákvörðun um hvort við göngum til aðildar við Evrópusambandið eða ekki. Það hefði verið gott að fá nánari skýringu frá Samfylkingunni á því hvaða markmið þeir mundu vilja setja í slíkum viðræðum gagnvart sjávarútvegsmálum, hvort t.d. við ættum að fara algjörlega að skilmálum alþjóðahafréttarsáttmálans sem væri út af fyrir sig ásættanlegt fyrir okkur ef við næðum slíkri niðurstöðu. En sjávarútvegsstefna Evrópusambandsins eins og hún er nú er algjörlega óviðunandi og við munum aldrei geta gengið inn og gerst aðilar að Evrópusambandinu meðan sú stefna er þar við lýði. (Forseti hringir.)