138. löggjafarþing — 123. fundur,  14. maí 2010.

utanríkis- og alþjóðamál.

611. mál
[15:45]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir þessa skýrslu um utanríkis- og alþjóðamál. Ég ætla að einbeita mér hér að einum fleti sem skýrslan tekur á, nefnilega myntbandalagi Evrópu og samhenginu við umsóknaraðildina sem samþykkt var með svipuhöggum og járnaglamri í herbúðum stjórnarsinna, eins og hv. þm. Birgir Ármannsson benti svo hnyttilega á í fyrrasumar.

Í aðdraganda atkvæðagreiðslu um aðildarumsókn að ESB síðasta sumar sagði ég að eitthvað vantaði upp á rök fyrir umsókninni. Ég benti á að sumir þingmenn blekktu sjálfa sig til stuðnings ályktuninni með því að telja sér trú um að ESB mundi sópa undir teppi sitt þeim kostnaði sem leiddi af því að samþykkja ómögulega, risavaxna Icesave-skuldbindingu. Jafnframt benti ég á að það væri ranghugmynd að halda því fram að Íslandi væri betur borgið innan ESB við þær aðstæður sem sköpuðust um mitt ár 2007 á fjármálamörkuðum heimsins. Þá hafa margir talið sér trú um að myntsamstarfið mundi leiða til langþráðs stöðugleika í íslensku efnahagslífi og því ætti að ganga til aðildarviðræðna og í kjölfarið að samþykkja samninginn og fá aðild að myntsamstarfinu.

Hæstv. utanríkisráðherra sagði í ræðu hér fyrr í dag að við inngöngu mundi vaxtakostnaður lækka sem næmi tugum milljarða á ári og nefndi einhverja útreikninga í því sambandi, verðtrygging yrði aflögð og erlendar fjárfestingar mundu aukast til muna, og horfði sérstaklega til Möltu í því sambandi. Allar þessar röksemdir standast því miður mjög illa skoðun. Förum nú yfir þessar röksemdafærslur lið fyrir lið og byrjum á því að ESB muni sjá um Icesave-skuldbindinguna. (Utanrrh.: Ég sagði það aldrei.)

Hæstv. utanríkisráðherra sagði það aldrei, það er gott að vita það enda gaf ég það engan veginn í skyn. Ég vil halda því fram að þetta sé villuljós. Það sést best á meðferð ESB á Grikkjum. Það er ljóst að Grikkir höguðu fjármálastjórninni hjá sér á þann hátt að þeir lentu í stórkostlegum vandræðum sem ekki sér fyrir endann á. Margir voru þeirrar skoðunar að Evrópusambandið mundi koma þeim til hjálpar nær fyrirvaralaust og skilyrðislaust en það var mikill misskilningur. Við höfum séð núna undanfarnar vikur og jafnvel mánuði þann farsa sem átt hefur sér stað innan Evrópusambandsins þar sem ríki ESB með Þýskaland í fararbroddi hafa neyðst inn í einhvers konar björgunaráætlun sem alls óvíst er að muni duga. Við höfum séð blóðsúthellingar, ég vil kalla það jafnvel aftökur, í Grikklandi út af þessu. Svo illa fellur almenningi í Grikklandi við þá afarkosti sem Grikkjum eru settir. Á þennan mælikvarða er Ísland margfalt betur sett með sína krónu en nokkurn tímann Grikkir með sína evru.

Þá hefur röksemdafærslan um að ESB sé gott skjól fyrir óvænta hnykki í fjármálakerfinu. Við höfum séð reynslu Grikkja eins og ég nefndi áðan. Við höfum séð reynslu Íra. Það sem er að gerast í Portúgal, það sem er að gerast á Spáni, Ítalíu og annars staðar bendir allt í þá átt að þetta sé ekki rétt. Það er ljóst að Þjóðverjar eru þeir sem bera mesta kostnaðinn af öllum ríkjum Evrópusambandsins á alls konar samræmdum björgunaraðgerðum og það er ljóst að almenningur í Þýskalandi er mjög mótfallinn því að bera þennan kostnað.

Við sáum núna úrslitin í kosningum í Nordrhein-Westfalen í Þýskalandi, hvernig þetta mál, þ.e. björgunaraðgerðirnar fyrir Grikki, hafði áhrif á innanríkismálin í Þýskalandi. Það eru hugaðir stjórnmálamenn sem standa fyrir slíkum björgunaraðgerðum í framtíðinni. Það er ljóst að Evrópusambandið hefur að nokkru leyti brugðist við þessu með því að stofna björgunarsjóð. Þessi björgunarsjóður er nákvæmlega sama marki brenndur og einskiptisaðgerðir eins og björgunaraðgerðin gagnvart Grikklandi, kjósendur munu ekki vera sáttir við þetta til lengdar.

Varðandi stöðugleika í kjölfar aðildar er það vissulega rétt að það fylgir stöðugleiki í kjölfar fastgengis en sá stöðugleiki getur orðið svo mikill að hann ríði ríkjum að fullu eins og við sjáum núna t.d. í Grikklandi. Það er mun sársaukaminni aðgerð að lækka gengi gjaldmiðla eins og íslensku krónunnar á sínum tíma en að fara út í innri gengisfellingar sem fela í sér niðurskurð, samdrátt í launum og annað slíkt sem þarf til þess að takast á við hnykki. Vissulega er stöðugleiki í gjaldmiðlinum en hann kemur fram sem óstöðugleiki annars staðar, t.d. á vinnumarkaði.

Þá er nefnt betra fjármálaumhverfi, að erlendar fjárfestingar muni aukast, eins og hæstv. utanríkisráðherra benti hér á áðan og tók Möltu sem dæmi. En eins og hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir benti á var Malta utan Evrópska efnahagssvæðisins, utan fjórfrelsisins þegar hún gekk í ESB. Fyrirstaðan við erlendar fjárfestingar á Íslandi er ekki nein önnur en sú sem samstarfsflokkur Samfylkingarinnar í ríkisstjórn stendur fyrir, fyrirstaðan er innan stjórnmálanna hér.

Vextir lækka. Það er gaman að upplýsa um að orkufyrirtækin fengu lán sem eru með langt innan við 100 punkta álag. Til samanburðar fær Grikkland nú lán með 300–700 punkta álagi. Sú röksemdafærsla að vextir lækki stenst ekki. Vextir taka mið af þeirri áhættu sem er í einstökum ríkjum.

Varðandi það að verðtryggingin hverfi getur hún haldið hér áfram þrátt fyrir að við göngum í myntsamstarfið. Það er líka rétt að benda á að verðtrygging er ekki vandamál í sjálfu sér. Hækkun lána vegna verðtryggingar er afleiðing af hagstjórn þannig að það er einfaldur popúlismi að segja að verðtrygging verði afnumin.

En hver er hin raunverulega framtíð myntbandalagsins? Nú eru uppi háværar raddir um að til að halda lífinu í bandalaginu þurfi að samræma fjármálastjórnina innan Evrópusambandsins og um leið pólitíkina því að skattar og útgjöld eru jú ákvörðuð á vettvangi stjórnmálanna. Í gær benti Paul Volcker, fyrrum seðlabankastjóri Bandaríkjanna, á þetta og í fyrradag Mervyn King, seðlabankastjóri Breta. Er þetta vegferð sem við erum tilbúin til þess að leggja í? Eða er þetta draumurinn um samfylkingu sósíaldemókrata í sambandsríkinu Evrópu? Það minnir óneitanlega á „Öreigar allra landa sameinist , ekki satt, hæstv. utanríkisráðherra?