138. löggjafarþing — 123. fundur,  14. maí 2010.

utanríkis- og alþjóðamál.

611. mál
[15:57]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það tekur mig sárt að hv. utanríkisráðherra skuli ekki vera sammála neinu sem ég segi. (Utanrrh.: Ja, nema þessu síðasta, það var rétt …) Hæstv. utanríkisráðherra sagði „ekki neinu“. Ég talaði hér um ágæta skýrslu og hann er ekki einu sinni sammála því vegna þess að hann sagðist vera ósammála öllu. (Utanrrh.: Þessu með evruna, þessu með evruna.)

Varðandi það að engin ríki séu að spá í að fara út úr sambandinu skulum við bara horfa til Írlands og allrar þeirrar umræðu sem var um að það hefðu verið mistök að taka upp evruna vegna þess að Írar hefðu ekki getað aðlagað sig því. Við skulum muna eftir því sem Pólverjar sögðu. Þeir sögðu: Það var okkar happ í þessari fjármálakreppu að vera utan evrunnar, við gátum aðlagað hagkerfið okkar eigin gjaldmiðli. Við skulum tala um það sem hefur verið að gerast í Suður-Evrópu, ekki bara í Grikklandi heldur í öðrum Suður-Evrópulöndum, þar er sagt að evran hafi reynst þeim dýrkeypt í þessari fjármálakreppu vegna þess að þau hafa ekki getað aðlagað sig.

Það er eitt sem hæstv. utanríkisráðherra verður að skilja — þið verðið að afsaka hagfræðina: Það verður alltaf að vera eitthvert eitt verð í hagkerfinu sem sveigist að aðstæðunum og aðlagar hagkerfið. Hér á Íslandi er það gjaldmiðillinn. Það eru mjög snöggar breytingar sem verða til aðlögunar í gegnum gjaldmiðil og sú aðlögun er mjög hröð. Það er okkar happ, þess vegna höfum við ekki farið verr út úr þessari fjármálakreppu.

Á Grikklandi er annað verð sem verður að huga að, það eru launin. Og vegna þess að laun eru tregbreytileg kemur það fram í atvinnuleysi.

Hæstv. utanríkisráðherra skal ekki gera lítið úr þeim vandamálum sem Grikkir standa frammi fyrir, vandamálum sem munu ríkja (Forseti hringir.) miklu lengur en þessi fjandans kreppa hér á Íslandi.