138. löggjafarþing — 123. fundur,  14. maí 2010.

utanríkis- og alþjóðamál.

611. mál
[15:59]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég geri alls ekki lítið úr þeim vandamálum sem Grikkir standa frammi fyrir. Ég veit að þeir þurfa blóð, svita og tár til þess að komast í gegnum þau. Það sama gildir um okkur. Við munum þurfa að leggja gríðarlega mikið á okkur til þess að komast í gegnum þá kreppu og þann skuldavanda sem við okkur glíma.

Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að ef Ísland hefði t.d. gengið í Evrópusambandið fyrir tíu árum og verið komið inn í myntbandalagið hefðum við í fyrsta lagi ekki lent í þessari gríðarlegu kreppu sem við lentum í. Fram á síðustu daga, og þá er ég að vísa til fregna um hvernig bankarnir hafa hagað sér, var ég þeirrar skoðunar og leyfi mér kannski enn að halda í þá skoðun að hefðum við verið í myntbandalaginu hefðum við haft bakhjarl sem hefði hjálpað okkur í þessum lausafjárkreppum sem riðu yfir okkur slag í slag.

Ég vek eftirtekt hv. þingmanns á því, af því að hann vísar til Íra, að írski forsætisráðherrann taldi að evran hefði verið stöðugleikaakkeri fyrir 2008 þegar fjármálaofviðrið geisaði og það hefði verið evrusamstarfið sem veitti ríkjum skjól þegar sú kreppa reið yfir. Maður getur velt því fyrir sér hvað hefði gerst með Grikki ef þeir hefðu ekki haft þetta.

Hv. þingmaður sagði, og veit þetta miklu betur en ég af því að hann er vel að sér í þessum fræðum, að Grikkir og reyndar allar Suður-Evrópuþjóðir hafi síðustu tíu ár verið að hækka hjá sér laun umfram framleiðsluaukningu, þau hafi verið að skuldsetja sig alveg gríðarlega. Kreppa þeirra er öðruvísi en okkar. Það er ríkisskuldakreppa hjá þeim. Ef þeir hefðu ekki haft þennan bakhjarl, ef þeir hefðu verið með gömlu drökmuna sína, hefðu þeir farið miklu verr út úr því. Það er rétt hjá hv. þingmanni að þá hefðu þeir getað gripið til skammtímaaðgerða með gengisfellingum en að lokum hefði það orðið miklu verra fyrir grískan almenning en staðan er í dag og geri ég ekki þá lítið úr því sem ég veit að grískur almenningur þarf að láta yfir sig ganga á næstu árum.