138. löggjafarþing — 123. fundur,  14. maí 2010.

utanríkis- og alþjóðamál.

611. mál
[16:01]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eitt er hárrétt í máli hæstv. utanríkisráðherra og það er að ef við hefðum verið með evruna og lánasamsetninguna sem er innan lands hjá íslenskum heimilum og fyrirtækjum hefði þetta orðið léttara fyrir íslensk heimili og fyrirtæki. En það er ekki vandamálið, vandamálið er það að íslenskum heimilum og fyrirtækjum, sem eru með tekjur í innlendri mynt, var hleypt inn í þessar lántökur. Seðlabankinn varaði við því. Hann varaði við því að hér væri að myndast stórkostlegt ójafnvægi sem gæti endað með skelfingu, sem reyndist rétt. Og það hefur ekkert með gjaldmiðilinn að gera heldur það að íslensk stjórnvöld sváfu á verðinum gagnvart þessu.

Það er líka hárrétt hjá hæstv. utanríkisráðherra að vandamál Grikkja og Suður-Evrópuþjóðanna er af allt öðrum toga en vandamál okkar á Íslandi. Það er alveg hárrétt en ég held að það sé ekki rétt hjá hæstv. utanríkisráðherra og ég er sannfærður um að það er ekki rétt hjá hæstv. ráðherra að kreppan á Íslandi sé verri eða sé eitthvað nálægt því að vera jafnalvarleg og t.d. á Grikklandi. Ég er ekki sammála því. Hver er ástæðan fyrir því? Ástæðan fyrir því er sú að íslenska ríkið skuldaði ekki neitt nettó við upphaf þessarar kreppu vegna þeirrar fjármálastefnu sem hafði verið rekin hér á landi í mörg ár þar á undan. Vandamálið með skuldirnar er ekki gjaldmiðillinn, vandamálið með skuldirnar er sú flónska okkar Íslendinga að hafa hvatt lántakendur til að taka lán í öðrum gjaldmiðli en tekjur þeirra voru í.