138. löggjafarþing — 123. fundur,  14. maí 2010.

utanríkis- og alþjóðamál.

611. mál
[16:04]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (Vg):

Frú forseti. Við ræðum hér skýrslu utanríkisráðherra um utanríkis- og alþjóðamál sem er á margan hátt nokkuð ítarleg og því erfitt að stikla á öllu sem í henni er á einungis tíu mínútum. Mig langar í upphafi að fjalla aðeins um það sem sagt er um samstarf á norðurslóðum og ég tek undir margt af því sem kemur fram í skýrslunni um möguleika Íslands á því svæði og þá möguleika sem þar liggja til frambúðar. Einnig er komið inn á Stoltenberg-skýrsluna og marga jákvæða punkta sem þar eru um samstarf þjóða á norðurslóðum og fleira í þeim dúr. Ég vil hins vegar eyða mestum hluta ræðu minnar í Evrópusambandsumsóknina sem eðlilega er fjallað mikið um í skýrslunni.

Alþingi komst að þeirri niðurstöðu, með mjög naumum meiri hluta, fyrir rétt tæpu ári að sækja um aðild að Evrópusambandinu eftir að hafa fellt breytingartillögu sem fól það í sér að fram færi þjóðaratkvæðagreiðsla um hvort sótt yrði um aðild. Utanríkisráðherra fór yfir helstu rök sín áðan fyrir því að Íslendingar sæktu um aðild og nefndi hann m.a. atvinnuleysi, verðbólgu, aukna fjárfestingu, það væru svona helstu rökin fyrir því af hverju hann teldi að við ættum að sækja um aðild að Evrópusambandinu. En við nánari skoðun væri auðvitað gott að fá frekari rökstuðning fyrir ýmsu af því sem þarna var sagt. Atvinnuleysi — að þetta væri fyrst og fremst gert til að byggja upp atvinnu á Íslandi? Hefur ekki reynslan einmitt verið sú að atvinnuleysi á Íslandi hefur alla jafna verið töluvert lægri en gerist og gengur í Evrópusambandinu? Hefur reynslan ekki líka verið sú eða sjáum við það ekki núna að atvinnuleysi er töluvert lægra en gert var ráð fyrir í öllum áætlunum, til að mynda Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, og staðan ekki eins slæm og margir áttu von á?

Hvað varðar verðbólguna er það mjög fróðlegt sem kemur fram í nýrri skýrslu um verðbólgu sem m.a. var til umræðu á opnum fundi í viðskiptanefnd fyrr í þessari viku. Í þeirri skýrslu kemur fram að það sé ekki útséð með það að við inngönguna í Evrópusambandið séum við að kasta verðtryggingunni til hliðar, af því að það var eitt af því sem hæstv. utanríkisráðherra nefndi, því að til að mynda í Þýskalandi eru verðtryggð skuldabréf og annað. Ákvörðun um þetta liggur því alfarið hjá okkur og við þurfum að vinna í þeim málum sjálf heima fyrir.

Aukin fjárfesting — ég velti fyrir mér hvort hæstv. utanríkisráðherra er að velta fyrir sér sjávarútvegi þar. En eitt af því sem Evrópusambandið talar um að verði að opna á er erlend fjárfesting í sjávarútvegi á Íslandi og við vitum öll að sjávarútvegurinn gefur okkur 40% af útflutningstekjum þjóðarinnar í dag.

Þetta eru auðvitað rök sem hafa verið notuð en sterkustu rökin sem hafa verið notuð fyrir því að Ísland ætti að sækja um aðild að Evrópusambandinu hafa verið evran og umræðan hefur verið um evruna eins og hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson kom inn á áðan og hæstv. utanríkisráðherra átti við hann orðastað um. Fyrir kosningar var sagt að við yrðum að sækja um aðild að Evrópusambandinu og fá flýtimeðferð til að geta tekið upp evruna en nú er evrusamstarfið í miklum vanda og menn eru þar í miklu slökkvistarfi og sér raunar ekki fyrir endann á því enn þá. Margir spá því að evran geti fallið töluvert meira, hún gæti jafnvel farið í það sama og dollari og verið einn á móti einum. (Gripið fram í: Hún var það.) Hún gæti farið í það aftur og þá sjáum við að evran getur fallið líka. Margir eru farnir að ræða um þetta og ekki einungis þeir sem eru mótfallnir ESB-aðild. Ég nefni til að mynda að fræðimenn bæði í Evrópu og eins vestan hafs hafa fjallað um þetta og sagt að eina leiðin til að bjarga evrunni sé annaðhvort sú að kasta ríkjum sem eru í vanda út úr evrusamstarfinu eða að færa aukið vald til Evrópusambandsins, bera fjárlög undir Evrópusambandið, skattstefnu, jafnvel sameiginlega hernaðarstefnu eins og Angela Merkel kom inn á núna í vikunni.

Maður veltir þess vegna fyrir sér hvort þetta sé það sem við viljum. Er þetta það sem við sækjumst eftir? Nei, ég held ekki. Auk þess sem margir Evrópusinnar, ESB-sinnar eins og Auðunn Arnórsson, sem hefur skrifað bók um aðildarviðræðuferlið, hefur sagt í viðtölum að við fáum jú engan afslátt af Maastricht-skilyrðunum eftir það sem á undan er gengið í Evrópu. Við munum ekki fá undanþágur frá þeim og samkvæmt skýrslum sem hafa komið út, m.a. hjá fjármálaráðuneytinu, eru áratugir þangað til við uppfyllum Maastricht-skilyrðin. Öll helstu og stærstu rökin fyrir aðild eru því þegar fallin, svo ekki sé vikið að stærstu málunum sem tengjast landbúnaði og sjávarútvegi.

Annað sem mig langar að ræða í þessu og ég hef aðeins komið inn á í dag varðar þá aðlögun sem er að hefjast á regluverki Íslands að Evrópusambandinu. Það hefur nefnilega komið fram í gögnum frá utanríkisráðuneytinu sjálfu og kemur fram í skýrslunni þó að orðalagið sé loðið — gögn sem utanríkisráðuneytið sjálft hefur lagt fram og ég hef m.a. fengið staðfestingu á þessu frá fleiri aðilum — að viðræðuferlinu við Evrópusambandið hefur verið breytt og Króatía og Tyrkland eru m.a. að ganga í gegnum annað ferli en var þegar ríkin sem gengu inn á undan þeim gengu í gegnum. Í þessu felst að aðildarríkin þurfa að hafa uppfyllt ákveðin skilyrði hvað snertir lagasetningu áður en kaflar eru opnaðir og einnig áður en þeim er lokað. Þá hlýtur maður að spyrja að því, þeir sem samþykktu að sækja um aðild að Evrópusambandinu á þeirri forsendu að þjóðin yrði sjálf að fá samning á borðið, hún yrði að kveða upp sinn dóm í þjóðaratkvæðagreiðslu og að því loknu færi af stað aðlögunarvinna á lagaumhverfi Íslands: Er svo mikið lýðræði fólgið í þessu? Þetta eru æ fleiri farnir að sjá og ég held að það sé m.a. þess vegna sem 60–70% þjóðarinnar, eins og kemur fram í skoðanakönnunum, eru nú mótfallin því að sækja um aðild og ganga í Evrópusambandið. Menn eru orðnir skeptískari á það ferli sem þarna er í gangi. Maður finnur það núna og hefur fundið það að sívaxandi andstaða er í samfélaginu við aðild að Evrópusambandinu. Ég held að skynsamlegast væri að spyrja þjóðina einfaldlega að því hvort við viljum halda þessu ferli áfram.

Mig langar aðeins að fara í það sem kemur fram í skýrslunni og lýtur að því ferli sem nú er í gangi. Í kafla 4.4 er sagt frá því að íslenskri greiningarvinnu eigi að vera lokið áður en greining með framkvæmdastjórninni hefst, þ.e. íslenska utanríkisþjónustan er nú að greina regluverkið og hún á að skila af sér á haustdögum, og í framhaldinu verði mótuð einhvers konar samningsmarkmið Íslands. Jafnframt er því haldið fram að hin sameiginlega umræða við framkvæmdastjórnina muni byrja í haust.

Maður hlýtur að velta fyrir sér hverjir muni koma að því að móta þessa samningsafstöðu Íslendinga og samningsskilyrði, hvort þetta verði ekki tekið til umræðu á þinginu þegar greiningarvinnunni er lokið, ekki einungis í utanríkismálanefnd heldur verði fjallað á þinginu um þau samningsskilyrði sem Ísland setur í veigamiklum þáttum eins og sjávarútvegi og landbúnaði, sett verði stíf samningsskilyrði um það til að mynda að ekki verði vikið frá því að í landbúnaðarmálum geti Ísland hagað stuðningskerfi eins og það vill, að ekki verði vikið frá því að Ísland geti varið íslenskan landbúnað, íslensk byggðarlög og landsbyggðina alla og matvælaöryggið með tollvernd, eins og við höfum gert, en þurfum ekki að fara inn í tollverndarkerfi Evrópusambandsins, að við þurfum ekki að fórna íslenskum búfjárstofnum, íslenska hestinum, íslensku sauðkindinni. Og hvað varðar sjávarútveginn þurfum við ekki að fórna deilistofnunum, sem gefa um 30–35% af tekjum Íslands í sjávarútvegi, og við þurfum ekki að fórna því að geta tryggt það að Íslendingar fari sjálfir með forræðið í sjávarútvegsmálunum og þurfum ekki að opna landið fyrir erlendri fjárfestingu í sjávarútvegi.

Þetta hlýtur að vera eitthvað sem þingið þarf að taka ákvörðun um þegar greiningarvinnunni er lokið, því að þarna er klárlega mismunur á regluverki Íslands annars vegar og Evrópusambandsins hins vegar. Það hlýtur að vera skýr krafa Alþingis að þetta verði tekið til umfjöllunar og sett verði skýr samningsskilyrði áður en aðildarviðræður hefjast, þ.e. línur sem ekki verður gengið yfir og ekki verður vikið frá.