138. löggjafarþing — 123. fundur,  14. maí 2010.

utanríkis- og alþjóðamál.

611. mál
[16:15]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Í þessu ferli öllu er stuðst við mjög skilmerkilegan vegvísi sem Alþingi Íslendinga lagði sem grundvöll að samþykkt sinni á síðasta ári. Þar kemur skýrt fram hvernig sá meiri hluti sem stóð að þeirri samþykkt lagði fram grunn að samningsmarkmiðum. Ég ber hina stjórnskipulegu ábyrgð á því að koma þeim fram og það er ég sem ber ábyrgð á því að koma síðan heim með samning og leggja hann fyrir þjóðina. Þannig er það samkvæmt stjórnskipuninni. Ég hef hins vegar sagt að ég vilji vinna þetta í eins nánu samráði við Alþingi og ég get og ég hef farið algjörlega eftir bókstafnum sem birtist í meirihlutaálitinu, sem ég kalla stundum mína daglegu biblíu. Þingmenn hafa sinn rétt samkvæmt lögum og þeir geta hvenær sem er beðið um umræðu um hvað eina sem þeir vilja. Eins og hv. þingmaður veit hefur utanríkisráðherra ekkert á móti því að ræða við hann, hvorki einslega né hér yfir ræðupúltið, þannig að það er honum í sjálfsvald sett. Ég hef hins vegar sagt að ég vilji hafa eins mikið samráð og hægt er.

Ég er algjörlega ósammála því sem hv. þingmaður sagði um evruna. Reyndar verð ég að leiðrétta hv. þingmann því hann hefur aldrei heyrt það úr munni utanríkisráðherra að það væri þörf á hraðferð. Ég hef aldrei notað það orð og því síður talað um hraðferð til þess að ná þeim möguleika að geta tekið upp evruna. Ég hef þvert á móti sagt að það muni taka langan tíma að uppfylla þau skilyrði en líka að ég telji að við munum uppfylla þau skilyrði. Þar verður einkum eitt erfitt sem er skuldastaða ríkisins en ég hef fengið fyrir því staðfestingu og fordæmi að ef skuldaþróun er á réttri leið, þ.e. ef hún er sjálfbær og skuldirnar að ganga niður, dugi það þegar menn standa á þeim krossgötum.

Mér finnst með ólíkindum ef hv. þingmaður telur að það sé meiri óstöðugleiki í Evrópu en hér, af því að hann var að tala um verðbólgu. Verðbólgan í mars var 1,5% á Evrópusvæðinu en (Forseti hringir.) í sama mánuði var hún 8,5% hér. Ég get síðan sagt honum hvernig vextirnir voru í síðara andsvari mínu.