138. löggjafarþing — 123. fundur,  14. maí 2010.

utanríkis- og alþjóðamál.

611. mál
[16:19]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður veit, af því að hann er búinn að sitja hér í töluvert langan tíma, að við erum stöðugt að laga okkur að ESB. Í hverjum einasta mánuði samþykkjum við reglur sem við setjum sem part af íslenskum lagabálkum vegna þess að það hefur komið ný tilskipun frá Evrópusambandinu. Staðan í dag er þannig að við höfum í reynd afskaplega lítil áhrif á þessa hluti. Ef við værum innan Evrópusambandsins gætum við hins vegar haft raunveruleg áhrif á þetta.

Ég held hins vegar, ef ég skil hv. þingmann rétt, að sú vegferð sem við erum á varðandi það sem hann kallar aðlögun að Evrópusambandinu byggi á því að við erum að rýna í rétt okkar og sjá hverju þarf að breyta. Í viðræðunum, þegar að þeim kemur, og líka í lok rýnivinnunnar munum við væntanlega þurfa að leggja fram áætlun, a.m.k. um það með hvaða hætti við hyggjumst breyta því ef við gerumst aðilar. Ef hv. þingmaður á við t.d. að við þurfum að vera búin að koma okkur upp einhverjum nýjum stofnanastrúktúr eða öðru slíku áður en við göngum í Evrópusambandið er ég honum ósammála. Ég tel alls ekki að það sé þörf á því og ég held að hv. þingmaður muni sjá það í fyllingu tímans.

Í ræðum sínum hefur hv. þingmaður dregið upp alls konar hluti sem hugsanlega gætu gerst; svona, ef, þannig. Það skiptir þó ekki máli vegna þess að núna erum við að komast á þann punkt að þessir hlutir munu einfaldlega liggja fyrir. Menn munu vita svart á hvítu hvað það er sem við þurfum að axla og sömuleiðis þau réttindi sem við ávinnum okkur með því að taka á okkur skuldbindingar. Það er síðan þjóðarinnar að meta hvort ávinningurinn er meiri en það sem neikvætt er, vegna þess að það er alltaf þannig að skammrifjunum — eins og bændasynir úr Dölunum vita — fylgja nokkrir bögglar.