138. löggjafarþing — 123. fundur,  14. maí 2010.

utanríkis- og alþjóðamál.

611. mál
[16:34]
Horfa

Anna Margrét Guðjónsdóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er rétt hjá hv. þm. Ásmundi Daða Einarssyni að það að sitja á Alþingi Íslendinga veitir okkur tækifæri til að hafa áhrif á framvindu mála. Það var nákvæmlega þess vegna sem ég ákvað að fara í framboð í Suðurkjördæmi vegna þess að ég hef þá trú að það skipti okkur miklu máli að vera hluti af sambandi Evrópuþjóða og það skiptir okkur svo miklu máli að ég ákvað að leggja mitt af mörkum og leggja til reynslu mína og þekkingu á þessu sviði.

Það vill svo til, frú forseti, að þau þrjú ár sem hef starfað í Brussel fyrir íslensk sveitarfélög, hvar á landinu sem þau eru, nýtti ég tímann líka ágætlega til kynna mér landbúnaðarstefnu Evrópusambandsins, dreifbýlisstefnuna, byggðastefnuna og annað því um líkt. Og þegar forusta Bændasamtakanna segist hafa verið að kynna sér landbúnaðarstefnu Evrópusambandsins vil ég líka geta þess að ég þekki hana mjög vel af eigin reynslu og ekki síður það sem mér finnst skipta mjög miklu máli að innan Evrópusambandsins starfa menn saman, starfa málaflokkar saman að því að gæta sameiginlegra hagsmuna. Íslensk sveitarfélög munu starfa þar með öðrum sveitarfélögum, bændur á Íslandi munu starfa þar með bændum annars staðar í Evrópu. Það er það sem mér finnst skipta mjög miklu máli og mér finnst mikilvægt að bændaforustan bendi félagsmönnum sínum á það að þar með eru þeir komnir í ákveðið tengslanet sem skiptir máli.

Við skulum ekki heldur gleyma því, frú forseti, að þegar Bændasamtökin tala niður aðild að Evrópusambandinu eru þeir ekki að gæta hagsmuna allra sinna félagsmanna. Það vita allir sem það vilja vita að hagur bænda verður mjög mismunandi eftir því hvaða grein þeir stunda og við vitum það líka að sauðfjárbændur, sem eru jú stærsti hluti bænda á Íslandi, munu njóta ávinnings af því að vera meðal annarra bænda í Evrópu.