138. löggjafarþing — 123. fundur,  14. maí 2010.

utanríkis- og alþjóðamál.

611. mál
[16:41]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Ég vil í lok þessarar umræðu þakka þeim þingmönnum sem hér hafa komið og tjáð sig. Þetta hefur verið fróðleg og skemmtileg og á köflum snörp umræða. Hún er búin að standa sleitulítið í nánast sex klukkustundir.

Það er einkum þrennt sem menn hafa haft hér undir í umræðunni. Í fyrsta lagi norðurslóðir, í öðru lagi öryggisstefnan, varnar- og öryggismál, og í þriðja lagi ESB. Ég held að það liggi alveg ljóst fyrir að það eru auðvitað skiptar skoðanir í flestum þessara mála. Þó gladdi það mig að hlusta á hv. þm. Þórunni Sveinbjarnardóttur tala af mikilli þekkingu og næmni um norðurslóðir, eins og reyndar fleiri gerðu hér í dag. Hv. þingmaður á sæti í þingmannanefnd norðurskautsráðsins og þekkir þetta mjög vel, en ég er ánægður með það hvernig hún og hv. þm. Árni Þór Sigurðsson tóku undir þetta mál og lögðu áherslu á að í þessum málaflokki verðum við að leyfa okkur að horfa til langs tíma. Það er alveg ljóst að á næstu áratugum munu norðurslóðirnar skipta mjög miklu máli, ekki bara vegna þess að þar eiga sér stað verulegar breytingar á umhverfi og náttúru og í kjölfarið fylgja breytingar á vistkerfi, heldur líka vegna þess að það er mjög líklegt að á þessum slóðum verði töluverð vinnsla olíu og gass á næstu áratugum. Það hefur í för með sér bæði ávinninga en líka hættur. Við þurfum í tengslum við það, tel ég, að lyfta mjög vel okkar tilvist sem handhafa svæðis þar sem hugsanlegt er að olíu og gas sé að finna, þ.e. á Drekasvæðinu, vegna þess að ég held að það gefi okkur aukinn þunga í þeirri kröfu sem ég setti fram hér í dag fyrir hönd Íslendinga, að við verðum aðilar að öllum ákvörðunum sem lúta að framtíð norðurslóða. Það er ekki sjálfgefið í dag eins og við vitum, við sjáum að fimmríkjasamstarfið svokallaða, sem hefur í reynd ýtt frá sér löndum eins og okkur og Svíþjóð og Finnlandi, er heldur hikandi við það að hleypa öðrum þarna að. Við Íslendingar eigum hins vegar að berjast mjög hart fyrir þessu og ég tel að með sama hætti og við höfum eytt miklu atgervi og miklum fjármunum í að búa til rök fyrir rétti okkar til ákveðinna landgrunnssvæða, Hatton Rockall-svæðinu, eigum við með sama hætti að verja fjármunum og mannafla til þess að þróa upp sams konar lagaleg rök fyrir aðkomu okkar og rétti okkar gagnvart þessu. Þetta skiptir máli til frambúðar.

Ég vil sömuleiðis þakka þeim þingmönnum sem töluðu og tjáðu sig um varnar- og öryggismálin. Sérstaklega gladdi það mig að hlusta á hv. þm. Jón Gunnarsson sem var sammála því sem ríkisstjórnin hefur verið að gera varðandi Varnarmálastofnun en sömuleiðis tók hann undir þá tillögu sem ég viðraði í morgun að þingið mundi sameinast um það að setja fram sameiginlega varnar- og öryggisstefnu til lengri framtíðar. Sú stefna byggist að sjálfsögðu á því sem er sérkenni okkar í samfélagi þjóðanna sem er herleysið. Hún verður líka að byggjast á borgaralegum gildum og borgaralegum stofnunum. Af því tilefni verð ég að undirstrika það að ríkisstjórnin hefur sagt mjög skýrt að hún hyggst stofna nýtt ráðuneyti úr dóms- og mannréttindaráðuneytinu annars vegar og samgöngu- og sveitarfélagsráðuneytinu hins vegar, þ.e. nýtt innanríkisráðuneyti. Ég tel að innan þessara tveggja ráðuneyta séu svo margar stofnanir sem slá og ganga í takt og jafnvel verksvið sem skarast að innan þessa nýja innanríkisráðuneytis á að vera hægt að búa til eins konar nýja öryggisstofnun sem ég vil, og tek fram af því að ég er þrátt fyrir allt svolítið íhaldssamur, að heiti bara Landhelgisgæslan en hún á að taka yfir þá borgaralegu varnartengdu starfsemi sem hver þjóð er í óðaönn að þróa til að verjast hættum og váboðum sem steðja að innra öryggi ríkisins.

Það verður að árétta það sem okkar helstu sérfræðingar hafa sagt að það er ekkert sem bendir til þess að hernaðarleg ógn muni steðja að Íslandi á næstu árum eða áratugum og við ríðum ekki einhesta í þessum straumi skoðana. Danir lögðu fram sína stefnu fyrir tíu árum, sem þá var til eins áratugar, og sögðu slíkt hið sama. Nú er þetta orðið að varanlegri stefnu þannig að við erum að feta þarna sömu slóð og aðrar þjóðir í nágrenni okkar.

Mér fannst það merkilegt og ég fagna því að það skuli hafa verið þingmaður Sjálfstæðisflokksins sem með þessum hætti tók undir stefnu ríkisstjórnarinnar bæði varðandi breytingu á varnarmálalögunum og eins varðandi mótun nýrrar öryggis- og varnarstefnu. Ég er þeirrar skoðunar að fyrir litla þjóð skipti það gríðarmiklu máli að það sé eins mikill friður og sátt um öryggisstefnuna og kostur er. Reyndar hef ég lýst þeirri skoðun minni í umræðum að stefnan eigi helst að vera þannig að þess vegna utanríkisráðherra geti staðið upp úr ríkisstjórn í kjölfar lýðræðislegra kosninga og sest í stjórnarandstöðu án þess að viðhorf hans eða nýrrar ríkisstjórnar til varnar- og öryggisstefnunnar breytist. Ég tel að það sé svo mikilvægt að sem breiðastur stuðningur sé um hana.

Hér hafa menn í þessari umræðu rætt einstaka þætti öryggisstefnunnar eins og t.d. loftrýmisgæslu, bæði hv. formaður utanríkismálanefndar og hv. þm. Jón Gunnarsson veltu því upp hvort það væri raunverulega nokkur þörf á því, og eins og hv. þingmenn muna kemur það fram í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar að þetta skuli endurskoðað. Ýmsir aðrir þættir hafa verið nefndir sem tengjast þessum málaflokki. Ég er þeirrar skoðunar að með því að flokkarnir setjist saman með þeim hætti sem við komum okkur saman um þegar haustar og hefjumst handa við nýja öryggis- og varnarmálastefnu þá eigi að taka þessa hluti undir og ræða þar. Sömuleiðis þær hugmyndir sem bæði er að finna í stefnuyfirlýsingunni og útfærslu á því sem hv. þm. Árni Þór Sigurðsson reifaði hér í dag og varðaði friðlýsingu fyrir kjarnorkutólum og -tækjum. Ég tel að sú nefnd eða sá hópur og sú vinna eigi að skera úr um það með hvaða hætti við viljum haga þessum hlutum í framtíðinni. Hins vegar blasir það alveg við að á alþjóðavettvangi er þróunin í þessum efnum mjög ör, hún stefnir alls staðar til kjarnaafvopnunar og hvarvetna þar sem við Íslendingar höfum setið á palli og talað fyrir hönd okkar þjóðar höfum við fylgt því svo það liggi alveg ljóst fyrir.

Það er eitt mál hér sem við höfum ekki mikið drepið á í dag en oft hefur verið rætt í þessum umræðum sem árlega fara fram um skýrslu utanríkisráðherra og það er deilan í Miðausturlöndum, deilan milli Ísraela og Palestínumanna. Ég tel mikilvægt að Alþingi Íslendinga skoði afstöðu sína á nýjan leik til þessara mála. Alþingi hefur sem betur fer mótað afstöðu til þess í gegnum árin. Ég tel að hugsanlega eigum við, utanríkisráðuneytið, að frumkvæði þess eða í samráði við utanríkismálanefnd Alþingis, að skoða það mál vel og rækilega. Að vísu hefur aðeins komið vonarbjarmi núna síðustu vikur varðandi viðræður um frið en það liggur alveg ljóst fyrir eins og staðan er núna að í Ísrael er ríkisstjórn sem hefur setið í töluverðan tíma sem de facto hafnar tveggja ríkja lausninni. Þar er að finna flokk, flokk utanríkisráðherrans, kollega míns, sem beinlínis var stofnaður og bauð fram á grundvelli þess að bjóða samfélagi þjóðanna byrginn sem krafðist þess að friðarferlið væri endurvakið. Við höfum séð það líka núna á síðustu mánuðum og missirum að það er í verulegum mæli verið að þrengja að Palestínumönnum. Við sjáum það t.d. í Austur-Jerúsalem þar sem Ísraelsmenn buðu varaforseta Bandaríkjanna velkominn með því að tilkynna þegar hann kom til Ísraels beinlínis til að reyna að endurvekja friðarferlið fyrir hönd Obama forseta, þá tóku þeir á móti honum með því að tilkynna um leyfi fyrir tökum á 1.600 íbúðum Palestínumanna í Austur-Jerúsalem. Sömuleiðis höfum við séð margvíslegar frekari þrengingar á rétti þeirra.

Við á Íslandi höfum alltaf verið málsvari lítilmagnans í alþjóðasamfélaginu og ég er þeirrar skoðunar að það skipti máli að rödd Íslands heyrist í þeim efnum. Ég hef sagt að ég telji að mér sem utanríkisráðherra beri með vissum hætti ákveðin skylda til þess að sýna þetta í verki og ég vil ítreka það hér sem ég hef sagt utan þings að ég hyggst fara til Gaza til að kynna mér stöðuna af eigin raun en líka til að sýna stuðning við málstað þeirra sem búa þarna í risastóru lokuðu eins konar víggirtu fangelsi á Gazasvæðinu. Ég tel að það sé hlutverk ríkisstjórnar eins og okkar og hlutverk þjóðar eins og Íslendinga.

Þá er komið að Evrópusambandinu og þá eru fjórar sekúndur eftir þannig að ég þakka fyrir mig.