138. löggjafarþing — 123. fundur,  14. maí 2010.

Norræna ráðherranefndin 2009.

458. mál
[17:17]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmönnum sem hafa tekið þátt í þessari umræðu og innlegg þeirra. Af því að hv. þm. Siv Friðleifsdóttir ræddi kostnað við norrænt samstarf og svo framlag til okkar Íslendinga er kannski ástæða til að taka það fram að eins og hv. þingmaður nefndi einmitt réttilega er framlag okkar Íslendinga til þessarar heildarfjárhagsáætlunar 1,2% sem er u.þ.b. 240 milljónir íslenskra króna. Ef við horfum bara til þeirra stofnana sem hér eru, þ.e. Norræna hússins sem er eina norræna menningarstofnunin hér, er rekstur þess húss fjármagnaður með norrænu fé. Það fær sem sagt u.þ.b. 190 milljónir íslenskra króna úr þessum norræna sjóði. Enn fremur fær Norræna eldfjallastöðin sem tilheyrir Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands framlög frá ráðherranefndinni upp á um 110 milljónir íslenskra króna á þessu ári.

Þessar tvær stofnanir fá þá í raun og veru það til baka sem við leggjum í samstarfið og eru þá ótaldir til að mynda þeir sérstöku styrkir sem hv. þm. Siv Friðleifsdóttir nefndi, þ.e. 5,5 milljónir danskra króna sem var varið í framfærslustyrki til námsmanna bæði í ár og í fyrra. Enn fremur hafa Íslendingar verið styrktir sérstaklega út af efnahagshruninu til þátttöku í norrænu samstarfi. Sérstöku framlagi var varið í það og ráðuneytin hafa fengið ferðastyrki vegna starfsmanna sinna sem sækja norræna fundi. Enn fremur var þetta sérstaka átak sem ég nefndi áðan, og er hýst hjá Impru, til að kynna Íslendingum alla styrkjamöguleikana í hinu norræna samstarfi.

Segja má að á síðasta ári hafi fjárframlög Norrænu ráðherranefndarinnar til Norræna hússins og Norrænu eldfjallastöðvarinnar og þessi tímabundna aðstoð verið upp á 458 milljónir íslenskra króna sem er langtum hærri upphæð en það sem Ísland leggur í hið norræna samstarf. Eru þá ótalin öll önnur verkefni sem við erum aðilar að og fá styrki fyrir utan þá möguleika sem við eigum auðvitað með því að fara þarna með formennsku með reglubundnum hætti og koma áherslumálum okkar inn í áætlanir þannig að fjárhagslega hallar svo sannarlega ekki á okkur Íslendinga í þessum efnum.

Hv. þm. Siv Friðleifsdóttir nefndi sérstaklega tungumálasamstarfið sem er farið yfir í þessari skýrslu, þ.e. stöðu þess. Það var endurskoðað árið 2008 og ég hef raunar skynjað að fulltrúar Norðurlandanna hafa ólíka nálgun á þetta samstarf. Það eru misjafnar væntingar og við höfum séð að það eru líka misjafnar væntingar milli menntamálaráðherranna annars vegar og menningarmálaráðherranna hins vegar. Síðan sjáum við að væntingar landanna þriggja sem standa næst hvert öðru í málskilningi, Danmerkur, Noregs og Svíþjóðar, eru aðeins aðrar en okkar Íslendinga. Þó að við tölum norrænt mál stöndum við aðeins fjær í málskilningi og svo eru auðvitað Finnar utan við þetta því að þeir tala finnsk/úgrískt mál fyrir utan þá sem tala finnlandssænskuna. Það er verið að reyna að vinna í því hvernig við getum komið til móts við þessa ólíku nálgun Það var skipuð ráðgjafarnefnd um tungumálasamstarfið til að fylgjast skipulega með þessu samstarfi. Hún tók til starfa í ársbyrjun 2009 undir formennsku Guðrúnar Kvaran prófessors.

Við lögðum fram áætlun um þetta tungumálaátak í árslok 2009. Síðan liggur það núna hjá dönsku formennskunni hvernig farið verður með þessa áætlun. Ég missti því miður af ráðstefnunni sem haldin var um málskilning í síðasta mánuði en ég hef fundið fyrir miklum áhuga hjá Dönum á að efla þetta samstarf, ekki síst út af teiknum um að þessi málskilningur hafi minnkað, ekki minnst hjá börnum og ungmennum, og það var til að mynda ástæða þess að þetta var allt fært undir ráðherranefnd menntamála. Menningarmálaráðherrarnir nálguðust þetta aðeins öðruvísi og höfðu meiri áhuga út frá málsögulegum og menningarlegum samanburði.

Hvað varðar Minsk-skrifstofuna sem samþykkt var tillaga um á Norðurlandaráðsþinginu get ég sagt að samstarfsráðherrarnir tóku þá tillögu mjög alvarlega. Í framhaldinu var skipuð ráðgjafarnefnd sérfræðinga utanríkisráðuneytanna og ætlunin er að tillaga um útfærslu á þessu verkefni liggi fyrir Norðurlandaráðsþinginu í haust. En ég get sagt að þetta var heilmikið rætt á fundi samstarfsráðherranna og þar takast á ákveðin sjónarmið, þeirra sem segja að við megum ekki teygja okkur of langt út og hinna sem segja: Í þessum ríkjum er einmitt mikil þörf fyrir lýðræðishefðir Norðurlandanna og ef við getum eitthvað lagt af mörkum til að færa þær til að mynda til Hvíta-Rússlands eigum við að gera það. Mín persónulega afstaða hefur verið að þetta geti verið gott verkefni og það skiptir auðvitað máli að ráðist sé í það með einhverjum raunhæfum hætti, og ekki minnst fjárhagslega, en líka að við tryggjum að markmiðið sem er væntanlega að bera boðskap lýðræðishefða Norðurlanda yfir til Hvíta-Rússlands náist sem best fram. Við höfum fundið mikinn áhuga á þessu verkefni að austan og við finnum líka mikinn áhuga hjá Eystrasaltsríkjunum á því mikla samstarfi sem nú þegar er í gangi milli norrænu ríkjanna og Eystrasaltsríkjanna. Þar var haldinn samstarfsráðherrafundur nú í febrúar og má segja að það hafi gengið mjög vel. Vonandi getum við nýtt fordæmið þaðan yfir til Minsk.

Ég ætla ekki að ræða mikið meira hér og nú, enda var ekki fleiri beinum spurningum varpað til mín. Ég tek undir með hv. þm. Siv Friðleifsdóttur og Þuríði Backman um mikilvægi þessa samstarfs og ég get sagt að fyrir hrun hafði ég líka áhyggjur af því hvert nákvæmlega þetta samstarf stefndi, til að mynda í frægri álitsgerð frá Viðskiptaráði þar sem sagt var að Íslendingar stæðu Norðurlöndunum svo langtum framar að við þyrftum eiginlega ekki að líta til þeirra lengur um neitt. Þetta stangast mjög á við það sem við erum að reyna núna þar sem við einmitt lítum til Norðurlandanna og höfum þrátt fyrir allt og allt átt stuðning þeirra. Eins og hv. þm. Siv Friðleifsdóttir benti á var ástæða fyrir þeim varnaðarorðum sem þaðan bárust.

Ég legg mikla áherslu á að við höldum vel utan um þetta samstarf og tökum þátt í því af heilum hug, leggjum okkur fram um að gera það sýnilegra. Ég held líka að það skipti t.d. máli í hinu ráðuneyti mínu, þ.e. ráðuneyti menntamála, að efla málskilning í íslenska skólakerfinu og hvað við getum gert okkar megin. Þarna eru þær þjóðir sem við eigum sögulega og menningarlega mesta samleið með, en líka út frá þeirri samfélagsgerð sem er á Norðurlöndum nútímans og stenst að fullu leyti samanburð í hinu alþjóðlegu samhengi, t.d. ef litið er til þátta á borð við samkeppnishæfni, en ekki síst þegar litið er til velferðarsamfélaga og lýðræðismála. Ég legg mikla áherslu á að við höldum vel utan um þetta samstarf, hvort sem er á vettvangi Norðurlandaráðs eða Norrænu ráðherranefndarinnar.