138. löggjafarþing — 123. fundur,  14. maí 2010.

Vestnorræna ráðið 2009.

482. mál
[17:40]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir skýrslu Íslandsdeildar Vestnorræna ráðsins fyrir árið 2009.

Það sem bar hæst í starfi Vestnorræna ráðsins á árinu var einkum fernt: Í fyrsta lagi fundur forsætisnefndar Vestnorræna ráðsins og sendinefndar Evrópuþingsins sem haldinn var í Brussel 24. febrúar. Í öðru lagi þemaráðstefna Vestnorræna ráðsins um námsmöguleika fyrir ófaglærða á Vestur-Norðurlöndum, haldin á Grænlandi 4.–7. ágúst. Í þriðja lagi var ársfundur Vestnorræna ráðsins, haldinn í Færeyjum. Ársfundurinn samþykkti alls þrjár ályktanir, eina frá hverju Vestur-Norðurlandanna, sem allar byggðust á þemaráðstefnunni og mæltu fyrir um aukna samvinnu á sviði menntamála. Tillaga Íslands mælti fyrir um nemenda- og kennaraskipti milli verkmenntaskóla og þátttöku fræðslumiðstöðva með áherslu á nám fyrir ófaglærða, tillaga Grænlands um samvinnu milli vestnorrænna háskóla um fjarnám og tillaga Færeyja um skiptinemaáætlun fyrir framhaldsskólanema. Í fjórða lagi tók formaður Vestnorræna ráðsins auk formanna hinna landsdeildanna virkan þátt í umræðum á Norðurlandaráðsþingi þar sem þau vöktu m.a. athygli á framlagi Vestur-Norðurlandanna til endurskoðunar á sameiginlegri sjávarútvegsstefnu Evrópusambandsins og á þemaráðstefnu Vestnorræna ráðsins árið 2010 sem mun fjalla um kosti og galla fiskveiðistjórnarkerfa Vestur-Norðurlandanna.

Í skýrslunni er gerð grein fyrir starfi Vestnorræna ráðsins en breytingar urðu á skipan aðal- og varamanna Íslandsdeildar eftir kosningar til Alþingis 25. apríl og kosningu Alþingis í nefndir 15. maí. Aðalmenn voru kosnir: Atli Gíslason, þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, Árni Johnsen, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Lilja Rafney Magnúsdóttir, þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, Ólína Þorvarðardóttir, þingflokki Samfylkingarinnar, Sigurður Ingi Jóhannsson, þingflokki Framsóknarflokks, og Þráinn Bertelsson, þingflokki Borgarahreyfingarinnar og síðar óháður. Á fundi Íslandsdeildar 18. maí var Ólína Þorvarðardóttir kosin formaður og Lilja Rafney Magnúsdóttir varaformaður deildarinnar.

Íslandsdeild Vestnorræna ráðsins hélt fjóra fundi á árinu. Bar hæst undirbúning fyrir þemaráðstefnu á Grænlandi um námsmöguleika fyrir ófaglærða á Vestur-Norðurlöndum og ársfund í Færeyjum þar sem Íslandsdeildin lagði fram ályktunartillögu. Jafnframt lagði Íslandsdeildin fram tillögu á ársfundi um að fiskveiðistjórnarkerfi Vestur-Norðurlandanna yrði þema fyrir næstu þemaráðstefnu og var sú tillaga samþykkt var einróma.

Vestnorræna ráðið hélt að venju þemaráðstefnu og ársfund en báðir fundir voru haldnir í ágúst í stað júní og ágúst. Þá voru haldnir forsætisnefndarfundir 24. febrúar í Brussel, einnig fundur forsætisnefndar Vestnorræna ráðsins og sendinefndar Evrópuþingsins 24. febrúar í Brussel. Þar var fjallað um sjálfbæra nýtingu lifandi auðlinda hafsins, sameiginlega sjávarútvegsstefnu ESB, framtíðarhorfur samstarfssamnings ESB og Grænlands, loftslagsbreytingar og áhrif þeirra á umhverfið, öryggismál á hafi og einnig var til umræðu norðurskautsgluggi norðlægu víddarinnar. Þar kom fram að áhugi manna hefði í auknum mæli beinst að norðurslóðum vegna aukinna möguleika á nýtingu náttúruauðlinda og nýrra siglingaleiða í kjölfar hlýnunar. Það væri mikilvægt í þeim efnum að huga einnig að hagsmunum og lífsgæðum fólksins á svæðinu þar sem margir ættu við félagsleg vandamál að stríða í kjölfar breyttra aðstæðna og lífshátta.

Þá var þemaráðstefna Vestnorræna ráðsins 4.–7. ágúst á Grænlandi. Ráðstefnan var tileinkuð námsmöguleikum ófaglærðra á Vestur-Norðurlöndum, en á ráðstefnunni kom fram að um 95% ungmenna sem lokið hafa grunnskólanámi á Íslandi og 70% þeirra sem lokið hafa grunnskólanámi í Færeyjum skrá sig í framhaldsnám. Á Íslandi er brottfall eða hlutfall þeirra sem ljúka ekki námi hins vegar um 33%.

Ársfundur Vestnorræna ráðsins var haldinn 25.–27. ágúst 2009 í Færeyjum. Fráfarandi formaður Vestnorræna ráðsins, Kári P. Højgaard, setti fundinn og fór yfir starfsemi ráðsins. Formenn landsdeildanna greindu síðan frá starfi á síðastliðnu ári. Hv. þm. Ólína Þorvarðardóttir sagði frá breytingum sem áttu sér stað á Alþingi í kjölfar þingkosninganna 25. apríl. Hún gerði einnig grein fyrir starfi Íslandsdeildar og undirbúningi fyrir þemaráðstefnu Vestnorræna ráðsins árið 2010 á Sauðárkróki sem mun að tillögu hv. þingmanns fjalla um fiskveiðistjórnarkerfi Vestur-Norðurlandanna og hlaut tillagan hlaut einróma samþykki ársfundar.

Í kjölfar umræðna um úrslit þingkosninga í löndunum þremur skapaðist mikil umræða um jafnréttismál. Atli Gíslason gerði grein fyrir auknum hlut kvenna á þingi sem fór úr 31% í 43% og kynjahlutföllum innan ríkisstjórnar. Hann gerði grein fyrir því að jafnréttismál væru forgangsmál ríkisstjórnarinnar og vék sérstaklega að vinnu sem lýtur að því að stemma stigu við kynferðisofbeldi.

Þá var haldinn fundur forsætisnefndar Vestnorræna ráðsins 25. október í Stokkhólmi. Einnig var fundur forsætisnefndar Vestnorræna ráðsins með fulltrúa þings Álandseyja 26. október, þá fundur forsætisnefnda Vestnorræna ráðsins og Norðurlandaráðs 26. október og fundur forsætisnefndar Vestnorræna ráðsins með vestnorrænum ráðherrum 27.–28. október. Þá má einnig nefna Norðurlandaráðsþing 26.–29. október, en dagskrá Norðurlandaráðsþings var að miklu leyti tileinkuð málum sem lúta að hagsmunum Vestur-Norðurlandanna.

Eftirfarandi ályktanir Vestnorræna ráðsins beint til ríkisstjórna landanna voru samþykktar á ársfundi í Færeyjum 25.–27. ágúst 2009:

Ályktun um samvinnu um nám og starfsþjálfun fyrir ungt fólk á Vestur-Norðurlöndum.

Ályktun um vestnorræn nemendaskipti milli menntastofnana á framhaldsskólastigi.

Ályktun um vestnorrænt tilraunaverkefni á sviði fjarkennslu á háskólastigi.

Ályktun um málefni aldraðra á Vestur-Norðurlöndum.

Ályktun um skýrslu sjávarútvegsráðherra Vestur-Norðurlanda um formlega samvinnu landanna á sviði sjávarútvegs.

Undir þessa skýrslu Íslandsdeildar Vestnorræna ráðsins skrifa eftirfarandi hv. þingmenn 12. mars 2010: Ólína Þorvarðardóttir formaður, Lilja Rafney Magnúsdóttir varaformaður, Atli Gíslason, Árni Johnsen, Sigurður Ingi Jóhannsson og Þráinn Bertelsson.