138. löggjafarþing — 123. fundur,  14. maí 2010.

Evrópuráðsþingið 2009.

453. mál
[17:50]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég mæli fyrir skýrslu Íslandsdeildar Evrópuráðsþingsins fyrir árið 2009.

Það sem stóð upp úr af vettvangi Evrópuráðsþingsins árið 2009 var eftirfarandi: Í fyrsta lagi var beiðni Íslandsdeildar um að taka til skoðunar lögmæti þess að beita breskum hryðjuverkalögum til að frysta eigur Landsbankans í Bretlandi, samþykkt á fundi Evrópuráðsþingsins í janúar. Í samræmi við beiðnina var málinu vísað til laga- og mannréttindanefndar og efnahagsnefndar. Er nefndunum m.a. ætlað að taka til skoðunar aðgreiningu á milli löggjafar sem nær til hryðjuverka og löggjafar sem tekur til viðbragða við annars konar vá, eins og hættu á fjármálakreppu. Skýrslan var enn í vinnslu í lok árs. Íslandsdeild átti fund með þingmönnum bresku landsdeildarinnar á fundi Evrópuráðsþingsins í október til að ræða stöðu mála með tilliti til skuldbindinga ríkissjóðs vegna Icesave-reikninga Landsbankans í Bretlandi. Beiting hryðjuverkalaganna var ekki til umræðu á þeim fundi.

Í öðru lagi fagnaði Evrópuráðið 60 ára afmæli sínu og Mannréttindadómstóll Evrópu 50 ára afmæli sínu. Af því tilefni var haldin ráðstefna á Íslandi 16. október að frumkvæði þingmanna Íslandsdeildar Evrópuráðsþingsins. Auk Íslandsdeildar stóðu ráðuneyti dóms- og mannréttindamála, utanríkisráðuneytið og Alþjóðamálastofnun og Mannréttindastofnun Háskóla Íslands að ráðstefnunni sem hafði það að markmiði að vekja athygli á starfsemi Evrópuráðsins og dómstólsins.

Í þriðja lagi var Thorbjørn Jagland, fyrrverandi forsætis- og utanríkisráðherra Noregs og forseti norska Stórþingsins, kjörinn framkvæmdastjóri Evrópuráðsins til næstu fimm ára. Tók hann við embætti 1. október 2009.

Í fjórða lagi fór fram mikil umræða um starfsemi Efnahags- og framfarastofnunar Evrópu (OECD) fyrir árið 2008–2009 þar sem alþjóðlega fjármálakreppan var í forgrunni og Ísland kom nokkuð til sögu. Ísland var m.a. notað sem dæmi um ríki sem OECD hefði hrósað árið 2006 fyrir hversu vel hefði gengið að einkavæða bankakerfið og afnema viðskiptahindranir. Framkvæmdastjóri OECD viðurkenndi að stofnunin hefði ekki getað spáð fyrir um hversu vanmáttugar eftirlitsstofnanir í löndum eins og á Íslandi og jafnvel Írlandi voru eða hvers konar áhætta var tekin með starfsemi bankanna.

Í fimmta lagi fór nokkur umræða fram um beiðni sem sett var fram um að ógilda kjörbréf þingmannasendinefndar Rússlands vegna stöðu mála í Georgíu eftir að átökunum þar lauk milli þarlendra og rússneskra stjórnvalda. Ákveðið var að halda að sér höndum að sinni en taka málið upp að nýju á fyrsta fundi Evrópuráðsþingsins árið 2010.

Í sjötta lagi var samþykkt á fundi þingsins í júní að veita Hvíta-Rússlandi aftur fyrri stöðu sem sérstakur gestur Evrópuráðsþingsins eftir 12 ára hlé með því skilyrði að afnám dauðarefsinga yrði lögfest.

Að lokum var sú er hér stendur, formaður Íslandsdeildar, kosin í embætti varaforseta á Evrópuráðsþinginu í stað Guðfinnu S. Bjarnadóttur, fyrrverandi formanns. Það gerðist á fundi þingsins í júní.

Í upphafi árs 2009 voru aðalmenn Íslandsdeildar: Guðfinna S. Bjarnadóttir formaður, úr þingflokki Sjálfstæðisflokksins, Ellert B. Schram varaformaður, úr þingflokki Samfylkingar og Steingrímur J. Sigfússon, úr þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs. Eftir kosningar til Alþingis 25. apríl og kosningu Alþingis í nefndir 15. maí urðu eftirfarandi breytingar á skipan Íslandsdeildar. Aðalmenn voru kosnir Birkir Jón Jónsson, þingflokki Framsóknarflokks, Lilja Mósesdóttir, þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, og Steinunn Valdís Óskarsdóttir, þingflokki Samfylkingarinnar. Varamenn voru kosnir Eygló Harðardóttir, þingflokki Framsóknarflokks, Magnús Orri Schram, þingflokki Samfylkingarinnar, og Þuríður Backman, þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs. Á fundi Íslandsdeildar 18. maí var Lilja Mósesdóttir kosin formaður og Steinunn Valdís Óskarsdóttir varaformaður deildarinnar. Magnea Marinósdóttir var ritari Íslandsdeildar.

Íslandsdeild hélt fjóra fundi á árinu þar sem þátttaka í þingfundum Evrópuráðsins var undirbúin.

Þá var Íslandsdeildin gestgjafi norræns kvöldverðar sem Norðurlöndin halda til skiptis ár hvert í Strassborg. Íslandsdeildin átti jafnframt frumkvæði að því að haldin var ráðstefna hérlendis 16. október 2009 í tilefni 60 ára afmælis Evrópuráðsins og 50 ára afmælis Mannréttindadómstóls Evrópu. Ráðstefnan var haldin í samstarfi við ráðuneyti dóms- og mannréttindamála, utanríkisráðuneytið, og Alþjóðamálastofnun og Mannréttindastofnun Háskóla Íslands. Tilgangur ráðstefnunnar var að vekja athygli á starfsemi Evrópuráðsins og dómstólsins. Á ráðstefnunni fjölluðu formaður Íslandsdeildarinnar, sérfræðingar, embættismenn og dómari Íslands við Mannréttindadómstól Evrópu um hlutverk Evrópuráðsins, um vanda Mannréttindadómstóls Evrópu, um varnir gegn pyntingum, eftirlitsnefndina og hvort þörf væri á eftirliti hennar hérlendis, um hlutverk sérfræðinganefndar Evrópuráðsins gegn kynþáttamisrétti, um framlagi Íslands í réttindamálum barna, um hlutverk Feneyjanefndarinnar við að aðstoða aðildarríki við að byggja stjórnarfar sitt með lögum. Að loknum framsögum voru fyrirspurnir og umræður.

Þingfundir Evrópuráðsþingsins fara fram í Evrópuhöllinni í Strassborg og eru þeir haldnir fjórum sinnum á ári, að jafnaði í lok janúar, apríl, júní og september. Auk þess kemur framkvæmdastjórn og stjórnarnefnd Evrópuráðsþingsins saman til funda á milli þinga og afgreiðir mál sem æðsta vald Evrópuráðsþingsins.

Á fyrsta fundi Evrópuráðsþingsins í janúar 2009 bar hæst umræðu um afleiðingar alþjóðlegu fjármálakreppunnar, afleiðingar átakanna milli Georgíu og Rússlands og ástandið á Gazasvæðinu. Fyrsta mál á dagskrá þingsins var atkvæðagreiðsla um tilvísun mála til nefnda. Þar á meðal var beiðni Íslandsdeildar til framkvæmdastjórnar Evrópuráðsþingsins um að laga- og mannréttindanefnd þingsins tæki til skoðunar lögmæti aðgerða breskra stjórnvalda gegn íslenskum bönkum, sér í lagi beitingu hryðjuverkalaga til að frysta eigur Landsbankans. Framkvæmdastjórnin hafði á fundi sínum 9. janúar mælt með því að málinu yrði vísað til skýrslugerðar í efnahagsnefnd. Í kjölfarið ákvað Íslandsdeildin að leggja upprunalegu beiðnina fyrir fund Evrópuráðsþingsins í lok janúar. Guðfinna S. Bjarnadóttir mælti fyrir málinu. Í atkvæðagreiðslu um málið var beiðni Íslandsdeildar samþykkt með meiri hluta greiddra atkvæða eða 52 atkvæðum gegn fjórum.

Þátttaka Íslandsdeildar í öðrum fundi Evrópuráðsþingsins féll niður vegna kosninganna til Alþingis í apríl 2009.

Þriðji fundur Evrópuráðsþingsins var haldinn í lok júní 2009. Fyrsta mál á dagskrá var kosning varaforseta þingsins. Lilja Mósesdóttir var kosin varaforseti í stað Guðfinnu S. Bjarnadóttur, fyrrverandi formanns Íslandsdeildar. Beiðni um setja kosningu framkvæmdastjóra Evrópuráðsins á dagskrá var hafnað. Sú beiðni var sett fram í tengslum við fyrirhugaða kosningu framkvæmdastjóra Evrópuráðsins sem átti að fara fram 23. júní. Framkvæmdastjórn Evrópuráðsþingsins hafði aftur á móti tekið þá ákvörðun rétt fyrir þingsetningu að taka kosninguna af dagskrá. Tilefnið var ágreiningur milli þingsins og ráðherranefndarinnar um endanlegan lista frambjóðenda til embættis framkvæmdastjóra ráðsins.

Í umræðu um áhrif fjármálakreppunnar á alþjóðlegar efnahagsstofnanir eins og Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og Alþjóðabankann var lögð áhersla á að ríki greiddu framlög sín til þeirra svo að þær gætu sinnt hlutverki sínu sem skyldi á þessum erfiðu tímum. Fram kom að AGS hefði þegar afgreitt lán til Armeníu, Hvíta-Rússlands, Georgíu, Íslands, Lettlands, Ungverjalands, Mexíkós, Pakistans, Póllands, Rúmeníu, Serbíu og Úkraínu eftir að heimskreppan skall á. Í umræðunni kom fram að mikilvægi AGS væri mikið en á sama tíma kom fram sú skoðun að hugmyndafræðin á bak við AGS væri hluti vandans frekar en lausnarinnar og var starfsemi AGS á Íslandi tekin sem dæmi um það án frekari útskýringa.

Formaður Íslandsdeildar tók til máls í umræðunni og benti á að undanfarin ár hefði sjóðurinn orðið fyrir mikilli gagnrýni hagfræðinga. AGS hefði tekið mark á þeirri gagnrýni eins og efnahagsáætlunin fyrir Ísland væri til vitnis um. Það kæmi þó ekki í veg fyrir gagnrýni á hana. Stiglitz hefði t.d. gagnrýnt efnahagsáætlunina fyrir að reyna að ná fram tveimur ósamrýmanlegum markmiðum samtímis, þ.e. peninga- eða gengismálastefnu sem hefði það að markmiði að halda niðri verðbólgu annars vegar og útgjaldaaukningu ríkisins hins vegar.

Fjórði fundur Evrópuráðsþingsins var haldinn í lok september 2009. Það sem bar hæst var 60 ára afmæli Evrópuráðsins og kosning framkvæmdastjóra Evrópuráðsins til næstu fimm ára. Samkvæmt reglum þingsins þarf framkvæmdastjóri að fá að lágmarki 123 atkvæði til að vera löglega kjörinn. Thorbjørn Jagland, fyrrverandi forsætis- og utanríkisráðherra Noregs og forseti norska Stórþingsins, hlaut 165 atkvæði og tók til starfa 1. október 2009.

Í tilefni af 60 ára afmæli Evrópuráðsins fór fram umræða um framtíð ráðsins í ljósi reynslunnar af starfsemi þess frá stofnun. Meginniðurstaða þeirrar umræðu var að Evrópuráðið hefði sameinað þjóðir Evrópu undir merkjum lýðræðislegs stjórnarfars, virðingar fyrir mannréttindum og meginreglum réttarríkisins. Margir áfangasigrar varði leið Evrópuráðsins undanfarin 60 ár sem sé tilefni til að fagna. Hlutverk Evrópuráðsins sé hins vegar mikilvægt enn sem fyrr og því skipti máli að aðildarríkin styðji vel við starfsemi ráðsins óháð tilkomu annarra stofnana.

Mikil umræða fór fram um skýrslu um starfsemi OECD fyrir árið 2008–2009 þar sem alþjóðlega fjármálakreppan var í forgrunni. Formaður Íslandsdeildar var höfundur breytingartillögu, ásamt nokkrum flokksbræðrum sínum frá m.a. Hollandi, þar sem þess var farið á leit að rannsakað yrði að hvaða marki ráðleggingar OECD kynnu að hafa átt þátt í að stuðla að kreppu í fjármála- og efnahagskerfum Evrópu. Markmið skýrslugerðarinnar var að gera OECD kleift að draga lærdóm af alþjóðlegu fjármálakreppunni. Ástandið á Íslandi kom nokkuð til tals í umræðunni. Í ræðu eins flutningsmanns breytingartillögunnar frá Hollandi var Ísland notað sem dæmi um ríki sem OECD hefði hrósað fyrir hversu vel hefði gengið að einkavæða bankakerfið og afnema viðskiptahindranir. Í svari framkvæmdastjóra OECD kom fram að hann væri sammála gagnrýninni að því leyti að stofnunin hefði ekki getað spáð fyrir um vanmátt eftirlitsstofnana í löndum eins og á Íslandi og jafnvel Írlandi eða hvers konar áhætta var tekin með starfsemi bankanna. Hann benti hins vegar á að þegar bankakerfi ríkis hefur ábyrgð sem er hærri en nemur landsframleiðslu heimaríkis bankanna sé augljóslega eitthvað að. Hann bætti því við að það hefði ekki verið Efnahags- og framfarastofnun Evrópu, Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn eða aðrir sem hefðu átt að vera fyrstir til að gera athugasemdir við það og grípa til viðeigandi ráðstafana heldur stjórnvöld viðkomandi heimaríkis.

Á þinginu var Lilja Mósesdóttir talsmaður flokkahóps vinstri manna á fundi Evrópuráðsþingsins um loftslagsmál sem haldinn var í tilefni af loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í desember í Kaupmannahöfn.

Steinunn Valdís Óskarsdóttir, sem á sæti í jafnréttisnefnd Evrópuráðsþingsins, tók þátt í umræðu um mikilvægi þess að grípa til aðgerða gegn nauðgunum, þar með talið nauðgunum sem eiga sér stað í hjónabandi eða sambúð. Hún gerði í ræðu sinni grein fyrir breytingu á íslenskum hegningarlögum frá árinu 2000 sem fól í sér að tekið var tillit til sambands brotaþega og brotaþola við ákvörðun refsidóma í ofbeldismálum í þá veru að eftir því sem sambandið væri nánara væri refsingin fyrir sambærileg brot þyngri. Að lokum ræddi Steinunn Valdís um aðgerðaáætlun íslensku ríkisstjórnarinnar til að stemma stigu við heimilisofbeldi og kynferðisofbeldi.

Þess má að lokum geta að Íslandsdeildin átti frumkvæði að því að tvíhliða fundur var haldinn með breskum þingmönnum til að útskýra fyrirvara ríkisstjórnarinnar við ríkisábyrgð vegna lána frá Bretlandi og Hollandi til að standa við skuldbindingar íslenska ríkisins vegna innstæðna Landsbanka Íslands í Bretlandi og Hollandi.

Nánari umfjöllun um einstök efnisatriði sem hér hafa verið reifuð er að finna í skýrslu Íslandsdeildar Evrópuráðsþingsins fyrir árið 2009. Undir þá skýrslu rita Lilja Mósesdóttir formaður, Steinunn Valdís Óskarsdóttir varaformaður og Birkir Jón Jónsson.