138. löggjafarþing — 123. fundur,  14. maí 2010.

ÖSE-þingið 2009.

454. mál
[18:08]
Horfa

Róbert Marshall (Sf):

Virðulegur forseti. Ég ætla að stikla hér á stóru um starfsemi Íslandsdeildar ÖSE-þingsins fyrir árið 2009 en hér liggur fyrir skýrsla deildarinnar.

Það sem setti einna mestan svip á starfsemi ÖSE-þingsins árið 2009 voru umræður um öryggismál og alþjóðlegu fjármálakreppuna. Öryggismálaumræðan á vettvangi ÖSE beindist að ákvörðun fastaráðs ÖSE um að endurnýja ekki umboð þingsins til áframhaldandi starfa í Georgíu þrátt fyrir ósk þarlendra stjórnvalda, en þar hafði andstaða Rússa þessar afleiðingar.

Þá fór fram sérstök umræða á vetrarfundi ÖSE-þingsins um tillögu Dmitris A. Medvedevs, forseta Rússlands, frá september 2008, um nýja skipan öryggismála í Evrópu. Jafnframt var mikið rætt um áhrif alþjóðlegu fjármálakreppunnar og hættuna á því að hún stuðlaði að almennri þjóðfélagskreppu og jafnvel neyðarástandi í sumum ríkjum. Rætt var um leiðir til að setja fjárstarfsemi auknar skorður með almannahagsmuni að leiðarljósi og einnig rætt hvernig fjármálakreppan snerti karlmenn og konur með ólíkum hætti og var þá einkum vikið að áhrifum aukins atvinnuleysis á vændi, mansal og ofbeldi gegn konum.

Hv. þm. Pétur H. Blöndal kynnti enn fremur skýrslu um störf sín á ársfundi ÖSE-þingsins en hann hefur gegnt stöðu sérlegs fulltrúa forseta ÖSE-þingsins í fjárreiðum ÖSE frá árinu 2006. Undirritaður greindi frá niðurstöðu þingkosninga á Íslandi á sérstökum fundi um jafnréttismál en ljóst er að hlutfall kvenna, sem er 43% ef ég man rétt, á Alþingi þetta kjörtímabil setur Ísland í fremstu röð í heiminum.

Íslandsdeildin hélt á síðasta ári tvíhliða fundi með þingmannasendinefndum Bretlands og Hollands til að ræða stöðu mála með tilliti til skuldbindinga ríkissjóðs vegna innstæðureikninga Landsbankans í löndunum tveimur. Á haustfundi ÖSE-þingsins um orkuöryggi og umhverfismál fjallaði sá sem hér stendur um jarðvarma sem ónýtta auðlind víðs vegar í heiminum og reynslu Íslendinga af virkjun jarðvarma.

Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu starfar á grundvelli Helsinkisáttmálans frá árinu 1975. Markmið ÖSE er að stuðla að friði, öryggi, lýðræði og samvinnu á starfssvæði sínu og standa vörð um virðingu fyrir mannréttindum og meginreglum réttarríkisins. ÖSE sinnir hlutverki sínu m.a. með baráttu gegn hryðjuverkum, mansali, þjóðernisofstæki, eiturlyfjasmygli og ólöglegri vopnasölu.

Þátttaka Íslands í því viðamikla alþjóðastarfi sem þar fer fram er gríðarmikilvæg. Það kom berlega í ljós á mínu fyrsta ári sem formaður íslensku ÖSE-sendinefndarinnar að framlag okkar til lýðræðisumræðu og mannréttindamála er mikilsvert en ekki síður eru mikilvæg þau tengsl sem skapast á milli þingmanna aðildarþjóða. Það kom t.d. berlega í ljós á þeim tvíhliða fundum sem ég og hv. þm. Pétur H. Blöndal áttum með fulltrúum Breta og Hollendinga því að sýn þingmannanna á þessi mál breyttist til muna eftir þær samræður.

Það eru þrjár málefnanefndir sem starfa á vegum ÖSE-þingsins og er skipting Íslandsdeildar í nefndir árið 2009 þannig að í nefnd um stjórnmál og öryggismál situr sá sem hér stendur, í nefnd um efnahagsmál og vísindamál er hv. þm. Pétur H. Blöndal en í nefnd um lýðræði og mannréttindamál situr fyrir hönd Íslandsdeildarinnar hv. þm. Björn Valur Gíslason.

Ítarlegri upplýsingar um starfsemi Íslandsdeildarinnar er að finna í skýrslunni í heild sinni sem má nálgast á vef Alþingis á þskj. 781.