138. löggjafarþing — 123. fundur,  14. maí 2010.

Alþjóðaþingmannasambandið 2009.

455. mál
[18:12]
Horfa

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Á þskj. 785 liggur fyrir ársskýrsla Íslandsdeildar Alþjóðaþingmannasambandsins, IPU, og mun ég í stuttu máli gefa þingheimi kynningu á helstu málum í brennidepli innan sambandsins á liðnu ári.

Ársskýrsla Íslandsdeildar fyrir árið 2009 gerir störfum þingmannanefndarinnar ítarleg skil auk skipunar Íslandsdeildar. Ég mun því aðeins stikla á stóru og vísa að öðru leyti í skýrsluna sem mælt er fyrir.

Aðild að IPU, sem er erlend skammstöfun fyrir Alþjóðaþingmannasambandið, áttu í lok árs 2009 152 þing en aukaaðild að sambandinu áttu svæðisbundin þingmannasamtök. Markmið IPU er að stuðla að skoðanaskiptum þingmanna frá öllum heimshornum og huga að samstarfi þeirra. IPU fjallar um alþjóðamál og vinnur að framgangi mannréttindamála sem eins grundvallarþáttar lýðræðis og þingræðis. Þá vinnur IPU að styrkingu alþjóðaþinga og aðstoðar við þróun lýðræðislegra vinnubragða innan þeirra. Sambandið styður starfsemi Sameinuðu þjóðanna og á margvíslegt samstarf við stofnanir þeirra.

Alþjóðaþingmannasambandið heldur tvö þing á ári, eitt stærra þing að vori sem haldið er í einu af aðildarríkjum sambandsins og eitt minna þing að hausti sem er haldið í Genf, nema annað sé ákveðið sérstaklega. Auk þess heldur sambandið alþjóðlegar ráðstefnur og málstofur á ári hverju, oftast um málefni sem eru efst á baugi innan Sameinuðu þjóðanna hverju sinni og þá gjarnan í tengslum við tiltekna ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna.

Hæstv. forseti. Af þeim fjölmörgu málum sem fjallað var um á vettvangi Alþjóðaþingmannasambandsins á árinu 2009 vil ég leggja áherslu á nokkur atriði en þau tengjast öll markmiðum sambandsins, sem er að vinna að friði og samstarfi meðal þjóða og treysta lýðræði og þjóðkjörin fulltrúaþing í sessi.

Fyrst vil ég nefna umræðu um þingræði, friðarumleitanir, lýðræði og þróun á tímum alþjóðlegrar fjármálakreppu sem fór fram á vorþinginu í apríl. Þar var m.a. rætt um nauðsyn þess að koma á fót traustu, öruggu og umfram allt heiðarlegu fjármálakerfi þar sem áhersla væri á mannúðleg gildi og mannréttindi. Þá fór fram utandagskrárumræða um alþjóðlegu fjármálakreppuna með áherslu á Afríku. Í umræðunni voru þingmenn sammála um að ekki mætti láta núverandi efnahagskreppu stofna í hættu þeim ávinningi sem náðst hefur í Afríku á síðustu árum.

Í öðru lagi var umræða um fæðuöryggi í heiminum áberandi á árinu og fjallaði önnur neyðarályktun samtakanna um það viðfangsefni. Í því sambandi var sjónum m.a. beint að þúsaldarmarkmiði Sameinuðu þjóðanna um að helminga fjölda þeirra sem þjást af hungri fyrir árið 2015 og rætt var með hvaða hætti væri hægt að stuðla að framgangi þess.

Í þriðja lagi vil ég nefna starf IPU til að efla lýðræði. Mörg aðildarþing sambandsins eru ekki lýðræðislega kjörin og í sumum fer ekkert eiginlegt löggjafarstarf fram. Þingmenn frá slíkum þingum kynnast lýðræðislegum vinnubrögðum á þingum IPU, en jafnframt vinnur sambandið mjög mikilvægt starf í þessa veru milli þinga. Námskeið eru haldin fyrir þing sem eru að feta sig áfram á lýðræðisbraut um ýmsa þætti þingstarfsins, stundum í samvinnu við viðeigandi stofnun Sameinuðu þjóðanna eða aðrar alþjóðastofnanir.

Hæstv. forseti. Af öðrum stórum málum sem tekin voru til umfjöllunar á þingum Alþjóðaþingmannasambandsins árið 2009 má nefna loftslagsbreytingar og endurnýjanlega orku, tjáningarfrelsi og réttinn til upplýsinga, afvopnun, bann við útbreiðslu kjarnavopna og tryggingu þess að samningum um allsherjarbann við tilraunum með kjarnavopn sé framfylgt og baráttuna við ungbarnadauða og heilsufar mæðra og ungbarna í tengslum við þúsaldarmarkmið Sameinuðu þjóðanna.

120. þing Alþjóðaþingmannasambandsins var haldið í Addis Ababa í Eþíópíu 5.–10. apríl og 125. þing Alþjóðaþingmannasambandsins var haldið í Genf 19.–21. október 2009. Fulltrúar Íslandsdeildar tóku þátt í báðum þingum.

Íslandsdeildin hélt fimm fundi á árinu og fór þar aðallega fram undirbúningur fyrir þátttöku í þingum IPU. Íslandsdeildin var að venju mjög virk í starfi sambandsins og lét að sér kveða í öllum helstu málum sem komu til umræðu í nefndum og á þingum sambandsins.

Hæstv. forseti. Ég vil taka fram að afar mikil áhersla er lögð á mannréttinda- og jafnréttismál í starfi Alþjóðaþingmannasambandsins. Í því samhengi vil ég nefna sérstaka nefnd um mannréttindi þingmanna sem gegnir veigamiklu hlutverki innan IPU og gefur út gríðarmikla skýrslu fyrir hvert þing. Á grundvelli skýrslunnar samþykkir ráðið fjölmargar ályktanir um mannréttindabrot gegn þingmönnum. Nefndin vinnur mikið starf á milli þinga þar sem hún fer yfir mál þingmanna sem mannréttindi hafa verið brotin á, hvort sem um er að ræða fangelsun, hótanir, barsmíðar, mannshvarf eða dauðsfall.

Þá vil ég nefna þá miklu áherslu sem Alþjóðaþingmannasambandið leggur á að styrkja hlut kvenna í stjórnmálum með ráðstefnum, fundum og útgáfu handbóka og skýrslna svo og með ýmsum formlegum og óformlegum hætti. Jafnframt hefur árleg samantekt samtakanna á stöðu kvenna í þjóðþingum heims vakið athygli og er iðulega vitnað til hennar í umræðum í fjölmiðlum.

Ég vil taka fram, hæstv. forseti, að norrænt samstarf er mjög sterkt innan IPU og norrænu landsdeildirnar eru almennt mjög virkar í starfi sambandsins. Norrænu landsdeildirnar halda samráðsfundi til undirbúnings fyrir hvert þing Alþjóðaþingmannasambandsins. Það er ljóst að fjölbreytt verkefni bíða Alþjóðaþingmannasambandsins á árinu 2010 og ber þar helst að nefna umræðu um fyrirhugaðar grundvallarbreytingar á sambandinu sem mun veita IPU lagalega stöðu alþjóðastofnunar.

Hæstv. forseti. Auk þeirrar sem hér stendur skipa Íslandsdeild Alþjóðaþingmannasambandsins hv. þingmenn Guðbjartur Hannesson og Einar K. Guðfinnsson og skrifa þeir báðir undir skýrslu Íslandsdeildar Alþjóðaþingmannasambandsins fyrir árið 2009, sem er nokkuð ítarleg og hefur verið dreift og liggur hér frammi.