138. löggjafarþing — 123. fundur,  14. maí 2010.

Fríverslunarsamtök Evrópu 2009.

461. mál
[18:20]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Ég fylgi hér úr hlaði skýrslu Íslandsdeildar þingmannanefndar EFTA fyrir árið 2009, sem er að finna á þskj. 796

Íslandsdeild þingmannanefndar EFTA myndar sendinefnd Alþingis bæði í þingmannanefnd EFTA og þingmannanefnd EES, Evrópska efnahagssvæðisins.

Þingmannanefnd EFTA var stofnuð árið 1977 með það meginhlutverk að vera ráðgefandi fyrir ráðherraráð EFTA. Aðild að EFTA eiga nú auk Íslands Noregur, Liechtenstein og Sviss. Það eru þjóðkjörnir fulltrúar þessara ríkja sem skipa þingmannanefndina, fimm fulltrúar þjóðkjörnir frá hverju aðildarríki.

Þingmannanefnd Evrópska efnahagssvæðisins var komið á fót með EES-samningnum en í þeirri þingmannanefnd eiga sæti 24 þingmenn, þar af eru 12 frá Evrópuþinginu, þ.e. frá þingi Evrópusambandsins, og 12 frá EFTA-ríkjunum, en þrjú af fjórum EFTA-ríkjum eiga aðild að EES-samningnum, Sviss á ekki aðild að honum. Engu að síður tilnefnir svissneska þjóðþingið áheyrnarfulltrúa til setu á fundum þingmannanefndar EES.

Fríverslunarsamtök Evrópu (EFTA) og Evrópska efnahagssvæðið (EES) gegna veigamiklu hlutverki sem grunnstoðir íslenskrar utanríkisverslunar. Með aðild að EES njóta Íslendingar að langmestu leyti sömu viðskiptakjara og 29 önnur Evrópuríki með um 500 milljóna manna markað. Auk þess að koma að rekstri EES-samningsins hefur EFTA byggt upp net fríverslunarsamninga við ríki utan ESB eða svonefnd þriðju ríki.

Í starfsemi þingmannanefndar EFTA og EES árið 2009 voru tvö mál einkum í brennidepli framan af ári. Annars vegar var ítrekað fjallað um alþjóðlegu fjármálakreppuna og hins vegar um áframhaldandi gerð fríverslunarsamninga EFTA.

Frá sjónarhóli Íslands var umfjöllun um alþjóðlegu fjármálakreppuna einkar mikilvæg. Umfjöllun um hana var hvort tveggja í senn almenn og sértæk þar sem athygli beindist að íslenska bankahruninu og yfirstandandi efnahagsþrengingum hérlendis. Þingmenn Íslandsdeildar gerðu erlendum starfssystkinum ítrekað grein fyrir stöðu endurreisnaráætlunar íslenskra stjórnvalda og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, Icesave-málinu og umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu. Sérstök skýrsla um alþjóðlegu fjármálakreppuna og Ísland var gerð í þingmannanefnd EES. Í kjölfar skýrslunnar samþykkti nefndin ályktun þar sem m.a. sagði að tilskipun 94/19/EB um innlánatryggingakerfi væri óljós varðandi lagalega ábyrgð ríkja til þess að styðja innstæðutryggingarsjóði við kerfishrun, auk þess sem harmað var að Ísland virtist hafa verið beitt óeðlilegum þrýstingi innan Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

Fríverslunarsamningagerð EFTA við ríki utan ESB, svonefnd þriðju ríki, var ofarlega á dagskrá þingmannanefndar EFTA og má segja að með svartsýni á að árangur náist í Doha-samningalotu Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO) hafi samtök ríkja og einstök lönd beint sjónum sínum að gerð tvíhliða fríverslunarsamninga. EFTA hefur verið í fararbroddi á þessu sviði og eru gildir fríverslunarsamningar EFTA nú 20 talsins. Þingmannanefnd EFTA hefur á undanförnum árum stutt dyggilega við gerð fríverslunarsamninga samtakanna og beitir sendinefndum og þingmannaheimsóknum til þess að kynna og afla stuðnings við gerð slíkra samninga.

Af öðrum stórum málum, sem voru tekin til umfjöllunar í þingmannanefndum EFTA og EES árið 2009, má nefna Lissabonsáttmála ESB, Doha-samningalotu Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar, vinnumarkaðsmál innan EES og óskir Færeyinga um aukið samstarf við EFTA.

Íslandsdeildin var venju samkvæmt mjög virk í starfi þingmannanefnda EFTA og EES á árinu og lét að sér kveða í öllum helstu málum sem komu til umræðu í nefndunum. Ég vil sérstaklega víkja hér stuttlega að umræðum um alþjóðlegu fjármálakreppuna og bankahrunið á Íslandi, enda komu þau mál ítrekað til umfjöllunar á fundum þingmannanefnda EFTA og EES.

Sá sem hér stendur vann vinnuskýrslu ásamt Evrópuþingmanninum Paul Rübig frá Austurríki um bankahrunið og lagði fram skýrslu um EES og alþjóðlegu fjármálakreppuna á síðari fundi þingmannanefndar EES í október sl. Efnistök skýrslunnar voru víkkuð út frá því sem áður hafði verið og í henni var að finna almennari umræðu um galla í fjármálaregluverki ESB og þörfina á víðtækum úrbótum þrátt fyrir að grunnur skýrslunnar væri enn byggður á reynslu Íslands af hruninu. Skýrsluhöfundarnir lögðu jafnframt fram drög að ályktun sem þingmannanefnd EES samþykkti samhljóða. Í ályktuninni sagði m.a. að tilskipunin um innlánatryggingakerfi væri óljós varðandi lagalega ábyrgð ríkja til þess að styðja innstæðutryggingarsjóði við kreppu í bankakerfi eða algjört kerfishrun. Gallar á tilskipuninni hafi komið í ljós við bankahrunið á Íslandi og nauðsynlegt væri að endurskoða hana og innstæðutryggingarkerfi Evrópu. Sömuleiðis er í ályktuninni harmað að Ísland hafi verið beitt óeðlilegum þrýstingi innan Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

Ég vil sérstaklega gera þessa skýrslu að umtalsefni hér en það sem við þingmenn Íslandsdeildarinnar höfum lagt áherslu á í umræðum og samtölum við starfssystkini okkar frá hinum EFTA-ríkjunum er sá vandi sem myndaðist í ljósi þess að tilskipun ESB um innstæðutryggingar gerði ekki ráð fyrir þeim möguleika að heilt bankakerfi gæti hrunið eins og gerðist hér á landi né heldur kom skýrt fram í henni nokkur lagaleg skylda stjórnvalda til að ábyrgjast lágmarksinnstæðutryggingar. Undirritaður gagnrýndi hin EES-ríkin harkalega fyrir að koma í veg fyrir að málið væri lagt í gerðardóm eða fyrir annan dómstól í því skyni að koma í veg fyrir að evrópska bankakerfinu væri teflt í tvísýnu og lét þau sjónarmið í ljós að Íslendingar ættu erfitt með að sætta sig við að þurfa að bera allan kostnað af því að verja það. Sömuleiðis kom fram af okkar hálfu gagnrýni á hendur Bretum sérstaklega fyrir beitingu hryðjuverkalaga gagnvart Íslandi og af okkar hálfu kom fram það sjónarmið að slík framkoma væri fordæmalaus meðal vinaþjóða. Enn fremur höfum við látið þau viðhorf í ljós að sú töf sem orðin var á endurskoðun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á efnahagsáætlun Íslands væri fordæmalaus og að hún gengi í raun gegn starfsreglum sjóðsins. Við leiddum líkur að því að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefði aldrei komið fram með þeim hætti sem hann gerði gagnvart Íslandi gagnvart stærri og sterkari ríkjum.

Auk þessa kom að sjálfsögðu oftlega til umfjöllunar ákvörðun Alþingis um að sækja um aðild að Evrópusambandinu og við höfum gert ítarlega grein fyrir þeim málatilbúnaði, umræðum hér á landi, vinnu utanríkismálanefndar síðasta sumar en jafnframt látið í ljós þann einbeitta ásetning okkar að taka að fullu þátt í samstarfinu á vettvangi EFTA og EES enda engin ákvörðun nú tekin um það hvort Ísland gerist aðili að Evrópusambandinu eða ekki. Af okkar hálfu hefur því verið lögð áhersla á þessi atriði.

Fyrir utan fundi þingmannanefndarinnar á hún einnig reglubundna fundi tvisvar á ári að jafnaði með utanríkisráðherrum EFTA-ríkjanna þar sem fjallað er um þau mál sem ráðherrarnir eru að ræða á sínum vettvangi. Þingmannanefndinni gefst þá tækifæri til að kynna sér og skiptast á skoðunum við ráðherrana um þau, sem er mikilvægt. Þá á þingmannanefndin einnig reglubundið samráðsfundi við ráðgjafarnefnd EFTA en það er nefnd sem er skipuð aðilum vinnumarkaðarins, bæði launþegahreyfingu og atvinnurekendum um sameiginleg áherslumál.

Í skýrslu þingmannanefndarinnar fyrir árið 2009 er ítarlega gerð grein fyrir starfi nefndarinnar og þar er einnig að finna stuttar frásagnir af öllum fundum nefndanna á árinu. Ég sé ekki ástæðu til þess, virðulegur forseti, að fara í þau atriði sérstaklega enda er rækilega gerð grein fyrir þeim í skýrslunni sjálfri sem þingmenn og aðrir geta kynnt sér.

Í þingmannanefnd EFTA störfuðu á árinu 2009 — reyndar varð breyting á skipan hennar eins og á skipan annarra alþjóðanefnda í kjölfar þingkosninga í apríl sl. — en í byrjun árs skipuðu Íslandsdeildina þau Katrín Júlíusdóttir, sem þá var formaður nefndarinnar, Bjarni Benediktsson var varaformaður, Árni Þór Sigurðsson, Arnbjörg Sveinsdóttir og Illugi Gunnarsson. Eftir alþingiskosningar 25. apríl voru kosin í þingmannanefndina Árni Þór Sigurðsson, Jónína Rós Guðmundsdóttir, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Valgerður Bjarnadóttir og Þorgerður K. Gunnarsdóttir. Formaður nefndarinnar er Árni Þór Sigurðsson og varaformaður er Valgerður Bjarnadóttir.

Allir þingmenn í þingmannanefndinni skrifa undir þá skýrslu sem hér er lögð fram og er kannski rétt að vekja sérstaklega athygli á því að í skýrslunni er yfirlit yfir þær ályktanir sem þingmannanefnd EES gerði á árinu 2009 þar sem vakin er athygli á ályktun um ársskýrslu um framkvæmd EES-samningsins árið 2008, ályktun um EES og alþjóðlegu fjármálakreppuna, sem ég hef þegar vikið að sérstaklega, og ályktun um vinnumarkaðsmál innan EES, útsenda starfsmenn og frelsi til að veita þjónustu sem samþykkt var í Þrándheimi í október sl.

Ég vil líka geta þess að þingmannanefnd EFTA kemur saman til næsta fundar hér á Íslandi í júní nk. og þá verður m.a. fjallað um málefni norðurslóða. Einnig mun þingmannanefndin kynna sér nýstofnaðan samstarfsvettvang á sveitarstjórnarstigi innan EFTA-ríkjanna, en ekki síst af hálfu Íslands hefur undanfarin ár verið lagt mikið kapp á að á vettvangi EFTA-ríkjanna yrði til samstarfsvettvangur sveitarstjórnarstigsins. Sveitarfélög á Íslandi og í Noregi hafa einkum og sér í lagt á þetta kapp og sá vettvangur verður formlega stofnaður hér á Íslandi í júní og þingmannanefnd EFTA mun gefast kostur á að kynna sér hvað sveitarstjórnarvettvangurinn hefur í hyggju í samstarfsmálefnum sínum.

Virðulegur forseti. Ég læt þetta nægja sem stutta frásögn eða framsögu með skýrslu Íslandsdeildar þingmannanefndar EFTA fyrir árið 2009 en hvet alla sem áhuga hafa á að kynna sér efni hennar nánar en hún er aðgengileg á vef Alþingis.