138. löggjafarþing — 124. fundur,  17. maí 2010.

Icesave.

[15:04]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Í síðustu viku hittust forustumenn flokkanna til að bera saman bækur sínar, í reynd að ég hygg í fyrsta skipti eftir þjóðaratkvæðagreiðslu um Icesave-samningana, og á þeim fundi gafst forustu ríkisstjórnarinnar tækifæri til að upplýsa okkur í stjórnarandstöðu um nýjustu samskipti sín við hina erlendu aðila. Í stuttu máli kom svo sem ekkert nýtt þar fram. Á fundinum lýsti ég því sjónarmiði mínu að í sjálfu sér þyrftum við Íslendingar ekkert að flýta okkur í þessum samskiptum og að engin sérstök pressa væri á okkur en það vakti athygli mína að hæstv. utanríkisráðherra sagði við fjölmiðla að fundi loknum að nú hefði opnast einhver gluggi til að ljúka Icesave-málinu. Ég geri ekki lítið úr því að það er slæmt að þessi deila við Breta og Hollendinga sé uppi, en mér er ekki ljóst hver þessi gluggi er eða hvort hæstv. utanríkisráðherra vill flýta sér núna að leiða fram einhverja niðurstöðu í málinu.

Það sem gerst hefur frá þjóðaratkvæðagreiðslunni er að rannsóknarskýrslan hefur verið gefin út og þar er tekið mjög skýrt fram að innleiðing okkar Íslendinga á tilskipun Evrópusambandsins um þetta efni hafi verið í góðu lagi, ekkert við hana að athuga, ekkert tilefni fyrir erlenda aðila til að gera athugasemdir við það með hvaða hætti við innleiddum viðkomandi löggjöf á Íslandi. Þetta tel ég hafa styrkt samningsstöðu okkar Íslendinga í þessum viðræðum út af þessu erfiða deilumáli og vil bera undir hæstv. utanríkisráðherra hvort hann samsinni ekki því sjónarmiði. Eins er hitt: Getur hann útskýrt eitthvað nánar hvað hæstv. ráðherra átti við þegar hann talaði um að nú hefði opnast gluggi og eitthvert tækifæri sem við þyrftum að grípa?