138. löggjafarþing — 124. fundur,  17. maí 2010.

sala á HS Orku.

[15:11]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Nú berast fréttir af því að gengið hafi verið frá sölu á HS Orku til Magma Energy. Þessi sala hefur verið í farvatninu um nokkurra missira skeið en samt virðast stjórnarliðar, þar með talið hæstv. fjármálaráðherra, nú loksins vera að vakna upp við vondan draum. Því spyr ég. Hvers vegna hefur ríkisstjórnin ekki brugðist við fyrr? Ríkisstjórnin hefur haft öll tækifæri til að endurskoða lög um fjárfestingu útlendinga í orkufyrirtækjum í nær 18 mánuði — en ekkert gert. Jafnvel hefur heyrst að efnahags- og viðskiptaráðherra hafi stoppað vinnu forvera síns við endurskoðun laganna. Ríkisstjórnin hefur haft öll tök á að móta stefnu um auðlindagjald og tryggja að þeir sem nýti þær greiði þjóðinni fyrir afnotin.

Ríkisstjórnin hefur líka haft næg tækifæri til að tryggja að eigendur fyrirtækja sem veita grunnþjónustu geti ekki hagnast óeðlilega á viðskiptavinum sínum. Því vil ég spyrja: Kristallast hér djúpstæður ágreiningur innan ríkisstjórnarinnar um stefnu í orku- og auðlindamálum þjóðarinnar? Er þetta enn eitt málið sem stjórnarliðar tipla í kringum eins og kettir í kringum heitan graut? Því opinská umræða gæti riðið stjórninni að fullu.

Hver er stefna stjórnarinnar í orku- og auðlindamálum? Er stefnan að koma alfarið í veg fyrir erlenda fjárfestingu af því að útlendingar eru í eðli sínu vondir og ekki eigi að hleypa þeim nálægt þjóðargersemunum? Eða er stefnan að selja útlendingum allt sem hönd á festir og vísa í gerðir fyrri stjórna því til afsökunar? Ætti stefnan ekki að vera að tryggja eignarhald þjóðarinnar á auðlindunum, eðlilega rentu af notkun þeirra og fjárfestingar og atvinnu á Suðurnesjum? Ríkisstjórnin hefur haft næg tækifæri til að tryggja það og því er ansi seint í rassinn gripið að rjúka nú upp til handa og fóta þegar hún stendur frammi fyrir orðnum hlut. Mér er skapi næst að kalla þetta lýðskrum, þessi vinnubrögð og yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar sem situr með hendur í skauti þar til tryggt er að öll ráð séu úr höndum hennar.

Því spyr ég hæstv. fjármálaráðherra: Hver er stefna ríkisstjórnarinnar varðandi fjárfestingar útlendinga í orkufyrirtækjum á Íslandi? (Forseti hringir.) Hver er stefna ríkisstjórnarinnar varðandi gjöld af nýtingu auðlinda í eigu þjóðarinnar og hvers vegna hefur stjórnin ekki brugðist fyrr við fyrirliggjandi samningum um sölu á HS Orku?