138. löggjafarþing — 124. fundur,  17. maí 2010.

sala á HS Orku.

[15:17]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Eftir langa mæðu felldi nefnd um erlendar fjárfestingar úrskurð, og klofnaði reyndar í afstöðu sinni til þess máls, hvort þessi (Gripið fram í.) fjárfesting væri heimil eða ekki þannig að ekki er langur tími um liðinn síðan niðurstaða lá fyrir í því. Það er áhyggjuefni sem ég tek undir með hv. þingmanni að þurfi að fara yfir. Ætla menn að hafa lög þannig að sniðganga á þeim sé jafnauðveld og þetta dæmi virðist sanna, þ.e. ef það stenst?

Ég hefði líka áhuga á að heyra hvað Framsóknarflokkurinn væri til í að gera með okkur. Væri Framsóknarflokkurinn til í að standa að því að ríkið reyndi að komast inn í þessi kaup og eiga — ef öðrum er ekki til að dreifa — a.m.k. helmingshlut? (Gripið fram í.) Það er mikil skuldbinding, miklir fjármunir. Ég er tilbúinn til þess ef aðrir eru tilbúnir til að styðja mig í því. (Gripið fram í: Þú hefur aldrei boðið það.) (Gripið fram í: … aldrei talað við okkur.)