138. löggjafarþing — 124. fundur,  17. maí 2010.

sala orku.

[15:18]
Horfa

Þráinn Bertelsson (U):

Virðulegi forseti. Hæstv. fjármálaráðherra sagði áðan að það væri stefna núverandi ríkisstjórnar að þjóðin nyti arðs af auðlindum sínum. Það finnst mér fyrir mína parta ekki nægileg hagsmunagæsla af hálfu ríkisstjórnarinnar fyrir hönd þjóðarinnar því að þjóðin á að eiga sínar eigin auðlindir. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)

Ef auðlindir íslensku þjóðarinnar verða einkavæddar eða nýtingarréttur þeirra framseldur erlendum fyrirtækjum verða það hvorki meira né minna en stærstu mistök allrar Íslandssögunnar frá upphafi. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) Sú ríkisstjórn sem vanrækir að forða okkur frá stærstu og afdrifaríkustu mistökum Íslandssögunnar er í mínum huga vanhæf ríkisstjórn.

Ég spyr því hæstv. fjármálaráðherra og formann Vinstri grænna, Steingrím Sigfússon: Hvað ætlar ríkisstjórnin að gera núna strax til að tryggja almennt að auðlindir þjóðarinnar verði í eigu þjóðarinnar? Og sérstaklega: Hvað ætlar hún að gera varðandi umrædda sölu Geysis Green Energy á 52% hlut sínum í HS Orku til kanadíska fyrirtækisins Magma Energy eða skúffufyrirtækis sem það fyrirtæki á í Svíþjóð?