138. löggjafarþing — 124. fundur,  17. maí 2010.

auðlinda- og orkumál.

[15:30]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Ég vil líka bjóða mig fram til að koma sem gestafyrirlesari á fund þingflokks sjálfstæðismanna til að útskýra nokkur grundvallaratriði sem varða einkavæðingu. Hins vegar tel ég að afstaða hæstv. umhverfisráðherra byggist á andstöðu sem kom líka fram í umræðunni á sínum tíma við það ákvæði laganna sem heimilar að gera samning um leigu á nýtingarrétti auðlindanna í allt að 65 ár. Það var hinn stóri galli við þau lög. Eins og hv. þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins veit kom það ekki úr ranni iðnaðarráðuneytisins. Iðnaðarráðuneytið vildi hafa miklu skemmri tíma, 35–40 ár, en það varð að samkomulagi við Sjálfstæðisflokkinn að hafa 65 ár. Ég tel að hæstv. iðnaðarráðherra, utanríkisráðherra og hæstv. fjármálaráðherra eigi að sameinast um það af þessu tilefni að breyta þessum lögum í 35–40 ár (Forseti hringir.) eins og var upphaflega ætlan mín.