138. löggjafarþing — 124. fundur,  17. maí 2010.

viðbrögð ríkisstjórnarinnar við afleiðingum eldgosa.

[15:38]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég held að um það verði ekkert efast að stjórnvöld eða ríkisvaldið, bæði ríkisstjórn og Alþingi, vantar ekki viljann til að reyna að standa eins vel að þessum málum og mögulegt er. Hitt er auðvitað ljóst að við búum við þær erfiðu aðstæður í efnahagslífi okkar og ríkisfjármálum sem allir þekkja þannig að það er tilfinnanlegt að fá viðbótarkostnað og tjón ofan í það sem á okkur er þegar fallið af manna völdum. Sá er munurinn á þessum hamförum og hinum að aðrar eru af manna völdum en hinar vegna náttúruafla sem við fáum litlu um ráðið.

Það er án efa ástæða til að fara yfir margt í tengslum við þessar hamfarir, sem vonandi sér fyrir endann á, og að meta þá í kjölfar þeirra hvernig til tókst, hvernig viðbúnaður reyndist, svipað og menn hafa áður gert þegar stór tíðindi hafa gengið yfir okkur, snjóflóð eða jarðskjálftar. Þar held ég að liggi í raun og veru þegar fyrir hvað varðar hinn faglega undirbúning og viðbúnað að það fyrirkomulag hefur allt staðist prófið (Forseti hringir.) með sæmd, vil ég segja. Hitt er svo ljóst að fjárhagslegi hlutinn af þessu máli getur orðið stór, hve stór vitum við ekki enn þá og verðum bara að vona hið besta í þeim efnum.