138. löggjafarþing — 124. fundur,  17. maí 2010.

afnám gjaldeyrishafta.

[15:51]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að taka undir orð þeirra hv. þingmanna og hæstv. fjármálaráðherra um það óheppilega fyrirkomulag sem það er að búa við gjaldeyrishöft. Á sama tíma fullyrði ég að tími krónunnar sem fljótandi gjaldmiðils er liðinn. Við erum núna með annarri endurskoðun efnahagsáætlunarinnar búin að styrkja gjaldeyrisforðann og það er ljóst að við þurfum að bíða þeirrar þriðju áður en við getum haldið áfram með afnám haftanna en miklar líkur eru á því að þriðja endurskoðunin byggi á því að við ljúkum samkomulagi um Icesave.

Það súra mál sem var stutt hér af flestum stjórnarþingmönnum var einmitt stutt á grundvelli þess að það skipti sköpum í efnahagsáætlun stjórnvalda, þar á meðal til þess að afnema gjaldeyrishöft svo koma mætti hér á eðlilegu hagkerfi. En eins og ég sagði, frú forseti, tel ég tíma krónunnar sem fljótandi gjaldmiðils liðinn og að við ættum kannski frekar að ræða peningastefnu til framtíðar en að ræða höftin hér í þingsal.

Þá langar mig að spyrja hv. þm. Tryggva Þór Herbertsson og taka undir með fyrrverandi formanni Sjálfstæðisflokksins, Þorsteini Pálssyni, í Fréttablaðinu sl. laugardag: Hver er stefna Sjálfstæðisflokksins í peningamálum til lengri tíma litið?