138. löggjafarþing — 124. fundur,  17. maí 2010.

afnám gjaldeyrishafta.

[15:55]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka fyrir þá umræðu sem hér fer fram, ég tel hana tímabæra.

Mig langar að beina spurningu til hæstv. fjármálaráðherra, af því að hann á eftir að koma hér aftur. Það kom fram í máli hæstv. ráðherra að 10. október 2008 hafi staðan verið 680 milljarðar. Getur hann upplýst okkur um það hver staðan er í dag? Hvað eru miklir fjármunir bundnir í svokölluðum jöklabréfum í dag?

Síðan langar mig að beina annarri spurningu til hæstv. ráðherra: Ef það gengur eftir með þriðju endurskoðun áætlunar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, hvenær sér hæstv. ráðherra þá fyrir að við gætum aflagt gjaldeyrishöftin í heild sinni? Hver er hans sýn á það og hæstv. ríkisstjórnar?

Við erum búin að sitja hér og breyta margoft lögunum um gjaldeyrishöftin. Við breyttum þeim í tvígang á sl. ári og það hefur stundum verið sagt að það sé eins og að stoppa læk í hlíð. Það safnast alltaf eitthvað upp og svo byrjar að leka með stíflunni aftur. Það eru dæmi, eins og hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson rakti hér áðan, um álagsgengi sem munar í dag 120 krónum. Auðvitað er það mjög slæmt og bagalegt en það virðist enn þá vera leki. Því langar mig að spyrja hæstv. ráðherra um hvort hann hefur upplýsingar um það, frá Seðlabankanum hugsanlega, hvort enn þá sé töluverður leki fram hjá gjaldeyrishöftunum. Lekur enn þá mikið þar?

Ég vil segja það að lokum, virðulegi forseti, að það er mjög mikilvægt að við lærum líka af þessu í framtíðinni upp á að við lendum ekki í sömu stöðu aftur, þetta hrynji yfir okkur með svona mikla fjármuni inni í kerfinu. Fyrst og fremst verðum við að læra af því hvernig þetta (Forseti hringir.) tókst til.