138. löggjafarþing — 124. fundur,  17. maí 2010.

afnám gjaldeyrishafta.

[16:09]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu. Það er kannski rétt að ég taki fram að ég er í raun og veru að hlaupa hér í skarðið fyrir hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra sem þessi mál heyra undir fremur en mig. Í öðru lagi varðandi grundvallarspurningar um gjaldeyrismál vil ég bara segja við þá sem hafa sérstakar áhyggjur af íslensku krónunni að það eru nú stærri fiskar en hún sem eru í vanda þessa dagana. Gjaldeyrismál í heiminum eru öll í mikilli mótun. Ýmsar kenningar eru uppi um hvernig það framtíðarlandslag kunni að líta út þannig að ég held að við eigum að reyna að gera það vel sem við erum að gera hér og nú og ekki hafa áhyggjur umfram efni af krónunni eða öðrum hlutum.

Það er mikilvægt að það sé skýrt, það liggur fyrir útfærð áætlun um hvernig ætlunin er að afnema gjaldeyrishöftin í áföngum og fyrsta skrefið af henni hefur komið til framkvæmda.

Næstu skref hafa ekki verið tímasett heldur eru þau bundin ýmsum skilyrðum eða forsendum sem þarf að uppfylla, enda væri það jafnvel ekki skynsamlegt hvort sem er að gefa út tímasetningar í slíkum efnum fyrir fram. Þróunin skiptir hér miklu máli. Jákvæður viðskiptajöfnuður, myndarlegur afgangur af vöru- og þjónustuviðskiptum við útlönd er mjög hjálplegur í þessum efnum. Hann stuðlar að jákvæðri þróun gengis krónunnar og gerir kleift að lækka vexti samtímis því að verðbólga lækkar. Það er nákvæmlega slík þróun sem við viljum sjá og hún þarf að halda áfram. Það er undanfari þess að stöðugleiki við eðlilegar forsendur geti komið hér.

Hv. þm. Ásbjörn Óttarsson spyr um stærð stöðunnar í íslenskum krónum í höndum erlendra aðila nú. Hún hefur líklega minnkað um nálægt 200 milljarða kr. frá því þegar hún var hæst og það er jákvætt. Það er að vinnast svolítið á þessum stabba. Hitt segir okkur hins vegar hversu óskaplegt andvaraleysi var ríkjandi, að leyfa þessari svakalegu stöðu að myndast eins og (Forseti hringir.) gerðist á sínum tíma. En við (Forseti hringir.) fáum því ekki breytt úr þessu heldur verðum við að reyna að vinna okkur skipulega og yfirvegað út úr hlutunum. Ég tel að það sé verið að gera það.