138. löggjafarþing — 124. fundur,  17. maí 2010.

Bjargráðasjóður og framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum.

616. mál
[16:18]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Vandi bænda er mjög mikill og einn er sá að þurfa að fylgja gífurlegri skriffinnsku út af gæðastýringarkerfinu sem menn komu á fyrir nokkrum árum. Sumir þeir bænda sem ekki hafa viljað falla undir það kerfi og hafa sætt sig við verulega skerðingu á tekjum sínum, um 25%, spyrja sig nú hvort þeir falli ekki örugglega undir þá hjálp sem stendur til að veita.

Ég vil spyrja hv. þm. Atla Gíslason, formann landbúnaðar- og sjávarútvegsnefndar, hvort ekki sé öruggt að þeir fái hjálp sem ekki vilja taka að sér skrifstofustörf í stórum stíl til að sinna einhverri skriffinnsku í kringum gæðastýringu sem sumir bændur hafa sagt mér að ekkert sé gert við hinum megin, þ.e. að þau gögn renni bara út í sandinn annars staðar. Fá þeir sem vilja ekki taka á sig þessa miklu vinnu ekki örugglega sömu hjálp og aðrir bændur eða hafa þeir afsalað sér hjálpinni með því að hafna skriffinnskunni?