138. löggjafarþing — 124. fundur,  17. maí 2010.

Bjargráðasjóður og framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum.

616. mál
[16:21]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil fyrst og fremst fagna því að þetta mál er nú fram komið og hvet til þess að það fái skjóta og góða afgreiðslu hér í þinginu. Aðstæðurnar sem hv. þm. Atli Gíslason gerði grein fyrir hafa kallað á það að við bregðumst við með einhverjum hætti. Þessar aðstæður eru náttúrlega mjög óvanalegar sem betur fer og við höfum ekki staðið frammi fyrir neinu slíku áður.

Aðstæðurnar hafa gert það að verkum að ýmislegt af því sem við höfum sett í lög varðandi stjórnkerfi landbúnaðarins virkar hamlandi við þessar óvenjulegu aðstæður. Þess vegna er svo mikilvægt fyrir okkur að við reynum að sameinast um að búa til úrræði sem gerir það að verkum að bændur neyðast ekki til þess að bregða búi varanlega. Nógir eru nú erfiðleikarnir samt á þessum svæðum vegna öskufallsins sem veldur mjög miklum og alvarlegum erfiðleikum á þeim slóðum. Þess vegna er það svo brýnt fyrir okkur að við reynum núna að einhenda okkur í það saman að bregðast við þessu með öllum tiltækum ráðum.

Ég veit að það er kallað mjög eftir því að þessi mál verði kláruð hér í þinginu, það er að vonum vegna þess að tíminn skiptir mjög miklu máli. Það er einmitt núna sem bændur taka ákvarðanir um framtíð sína og það frumvarp sem hér er rætt felur einfaldlega í sér að menn fái meiri umþóttunartíma, meiri frest til þess að átta sig á málunum og það er mjög mikilvægt. Þessar aðstæður eru einstæðar og við erum að bregðast við þeim.

Ég er líka sammála hv. þm. Atla Gíslasyni að það er mjög líklegt að upp muni koma önnur tilvik sem geta kallað jafnvel á lagasetningu og þá þurfum við að vera tilbúin til þess að taka á því. Ég hef af því sára og bitra reynslu að takast á við vandamál sem stafa af náttúruhamförum og þekki það m.a. frá þeirri reynslu að það munu koma upp tilvik sem enginn getur séð fyrir. Þess vegna verðum við að vera tilbúin til þess að vera sveigjanleg og tilbúin til þess að breyta lögum og reglum eftir því sem tilefnið kallar á.

Það er engin ástæða til þess að orðlengja neitt þessa umræðu. Hv. þm. Atli Gíslason, sem mælti fyrir málinu sem við flytjum öll sameiginlega í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd, hefur gert ágætlega grein fyrir efnisatriðum þess. Aðalatriðið er að þetta mál fái skjóta afgreiðslu og ég er sannfærður um að svo verði.