138. löggjafarþing — 124. fundur,  17. maí 2010.

Bjargráðasjóður og framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum.

616. mál
[16:43]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er gott að fá hv. þingmann Unni Brá Konráðsdóttur hér upp í ræðustól til að ræða þessi mál. Við höfum líka hist á vettvangi, líklega í þrígang. Mér finnst einmitt táknrænt og gott hvað allir þar eru samhentir, koma saman og fara yfir málin. Þar veit ég að hv. þingmaður hefur ekki legið á liði sínu.

Það er alveg rétt, það verða ótal spurningar í þessu sambandi sem ekki er hægt að svara strax, en það verður reynt að svara þeim sem hraðast og fljótast. Einmitt af þeim ástæðum fóru fulltrúar Búnaðarsambandsins og trúnaðarmenn Bjargráðasjóðs á hvert einasta heimili og tóku út stöðuna og það sem þarf að gera. Þá gátu þeir, við þær aðstæður og á þeim tímapunkti, tekið á móti spurningum og svarað þeim eftir bestu getu. Ég hef heyrt mjög vel látið af því að þetta sé unnið þannig. Auðvitað koma alltaf nýjar spurningar upp.

Hitt er alveg hárrétt, þegar kemur að því að bæta þær eignir sem hægt er að tryggja, hvar mörkin eru á milli Viðlagatryggingasjóðs og Bjargráðasjóðs og síðan sveitarfélagsins. Á fundinum í gær var lögð áhersla á að þessir aðilar færu saman yfir málin, þannig að ef einhverjar línur væru óskýrar, mundu þeir allir reyna að skýra þær innbyrðis fyrst og gera þær klárar gagnvart íbúunum. Auðvitað snúast margar spurningar um húsnæði ef fólk þarf að flytja af svæðinu, (Forseti hringir.) og leysa þarf úr því. En það er mjög mikilvægt að menn vinni saman, eins og mér finnst reyndar að allir hafi gert.