138. löggjafarþing — 124. fundur,  17. maí 2010.

Bjargráðasjóður og framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum.

616. mál
[16:50]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Mig langar að fagna framkomnu frumvarpi og hrósa sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd fyrir að hafa unnið hratt og vel að því að koma þessu máli á dagskrá. Ég heiti því að leggja mitt af mörkum til þess að það megi fá sem hraðasta afgreiðslu í gegnum þingið vegna þess að það er gríðarlega mikilvægt fyrir þá sem búa á þeim svæðum sem verst hafa orðið úti í eldgosinu að þeir fái að sjá það í verki héðan frá Alþingi að mönnum er full alvara með að koma til móts við þær spurningar og þau vafaatriði sem brenna á mönnum þar eystra.

Mig langar að byrja á því að koma fram þökkum til þeirra sem staðið hafa í eldlínunni fyrir austan. Þar er fyrst að nefna almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, lögregluna, björgunarsveitirnar, Rauða krossinn, heilsugæsluna í Rangárþingi og víðar, eins Matvælastofnun, Bændasamtök Íslands, Landgræðsluna, Vegagerðina og alla þá fjölmörgu vísindamenn sem lagt hafa sitt af mörkum til að uppfræða íbúana og reynt hafa að komast til botns í því hvað blessaður jökullinn okkar ætlar nú að gera næst. Síðast en ekki síst langar mig að koma þökkum til þeirra fjölmörgu sjálfboðaliða sem lagt hafa hönd á plóginn til þess að hreinsa til.

Jafnframt ber að þakka íbúum fyrir austan fyrir það æðruleysi sem þeir hafa sýnt í þessum hremmingum og fyrir þá bjartsýni sem þeir hafa fyrir hönd síns byggðarlags.

Frú forseti. Það er mjög mikilvægt að menn hlusti vel eftir þeim röddum sem berast að austan og þess vegna fagna ég því að þingmenn hafa í stríðum straumum streymt á þá íbúafundi sem staðið hefur verið fyrir fyrir austan til þess einmitt að fá beint í æð þær fjölmörgu spurningar sem þar koma fram. Á fyrstu fundunum spurðu menn eftir því hvort ekki yrði örugglega greitt fyrir það hey sem þyrfti að kaupa ef halda þarf að skepnum lengur á húsi. En nú, eftir því sem gosið hefur haldið áfram og lagst yfir allt þetta tímabil og sér ekki enn fyrir endann á því, eru menn farnir að velta fyrir sér stærri og erfiðari spurningum.

Þess vegna er mikilvægt að það frumvarp sem hér liggur fyrir heimili mönnum að flytja kvóta sinn og sínar ær og kýr á milli án þess að þurfa að selja þessar miklu auðlindir. Það er markmið okkar allra, að því er ég tel, að halda þessum bæjum í byggð. Það hlýtur að vera frummarkmið okkar, að sjálfsögðu á eftir því að tryggja öryggi íbúanna. Það er þess vegna mjög mikilvægt að ríkissjóður komi til móts við íbúana með einhverjum leiðum sem gera það kleift. Ég fagna því.

Það er náttúrlega ákveðinn tími liðinn frá því að þessar spurningar vöknuðu fyrst en mér finnst þetta engu að síður hafa gengið hratt og er það vel.

Það sem íbúarnir og við fyrir austan erum mest að velta fyrir okkur þessa dagana fyrir utan það hvenær gosið hættir, er hvaða kostnaður verður greiddur, bæði til íbúanna sjálfra og eins til samfélagsins. Ég fagna þeim yfirlýsingum sem komið hafa fram frá stjórnvöldum um að tekið verði myndarlega á þessu máli og reynt að koma til móts við allar þær óvæntu uppákomur sem fylgja gosi sem þessu. Það er langt síðan við Íslendingar höfum upplifað atburð af þessu tagi sem stendur yfir svona langt tímabil. Þá er auðvitað ólíkt hvernig bregðast á við hamförum sem þessum sem ná yfir langt tímabil eða einstökum atburði þar sem strax er unnið úr afleiðingunum. Óvissan er enn mikil. Menn vita ekkert um hvernig sumarið verður. Menn vita ekki hvernig næstu mánuðir verða. Þess vegna er mjög gott að menn séu vel upplýstir, bæði hér í þinginu og eins fyrir austan um hvaða stefnu ríkisstjórnin ætlar að taka í þessu máli.

Eins og ég sagði í andsvari mínu við hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hafa menn verið að velta fyrir sér með hvaða hætti komið verður til móts við bændur varðandi afleysingar. Vissulega er álagið búið að vera mikið og það hefur í rauninni staðið frá því fyrstu rýmingar hófust vegna eldgossins á Fimmvörðuhálsi. Þetta er orðinn frekar langur tími og menn voru þegar orðnir þreyttir þegar Eyjafjallajökull byrjaði að gjósa. En að sjálfsögðu er álagið miklu meira núna fyrir austan, þetta orðið langvarandi ástand.

Það er verið að setja upp kerfi sem snýst um að reyna að tryggja afleysingar fyrir bændur þannig að þeir geti með góðri samvisku tekið sér aðeins frí með fjölskyldum og farið frá mesta öskusvæðinu. Vissulega er erfitt þegar fjölskyldan er ekki saman og það þarf að tryggja þessar fjölskyldur komist aðeins frá.

Þá koma upp spurningar varðandi kostnað við húsnæði o.s.frv. Ég treysti því í ljósi svara ráðherrans og góðs vilja bæði hér í þinginu og eins í ríkisstjórninni að komið verði til móts við þessar áleitnu spurningar borgaranna.

Frú forseti. Ég fagna því enn og aftur að samstaða ríki um þessi máli í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd og vonast til þess að sjá þetta frumvarp afgreitt hér sem lög frá Alþingi á morgun.