138. löggjafarþing — 124. fundur,  17. maí 2010.

Bjargráðasjóður og framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum.

616. mál
[17:04]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka fyrir þessa athugasemd hv. þm. Ólínu Þorvarðardóttur, sem er varaformaður sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar, og ég er henni sammála um að það sé nauðsynlegt að gera einhverja áætlun og bændur þurfa að ráða. Hins vegar getur einstakur bóndi ósköp lítið gert þegar engin úrræði eru til, t.d. að búið sé að hafa samband við gripaflutningafyrirtæki eða þá sem eiga slíka aðstöðu og samhæfa eitthvað. Mér heyrist, þó ég viti það ekki nákvæmlega, að einn bóndi sé að flytja fé sitt austur í Meðalland og hann getur sennilega ekki flutt það aftur til baka en það er mjög þungbær ákvörðun fyrir bónda að taka. Svona aðstaða þarf að vera skipulögð af einhverjum. Ef við værum að tala um stórfellda flutninga, ég tala nú ekki um ef það kæmi austsuðaustan átt og öskustrókinn legði yfir Hvolsvöll og nágrenni þar sem eru blómleg héruð og skepnur á beit — þá þurfa menn að gera þetta í miklu stærri mæli og það þarf að vera í boði fyrir bændur að geta flutt skepnur sínar þegar á þarf að halda.

Ég nefndi líka afréttinn og hvað gerist ef hann lokast skyndilega. Auðvitað vonar maður að ekki komi til þess en þá þarf að grípa til smölunar í hvelli með mjög skömmum fyrirvara. Síðan er ekki búið að kanna enn þá hvort askan sé eitruð, ekki svo ég viti. Það má vel vera að varaformaður sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar hafi vitneskju um það.