138. löggjafarþing — 124. fundur,  17. maí 2010.

Bjargráðasjóður og framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum.

616. mál
[17:08]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf):

Frú forseti. Við finnum það þegar áföll dynja yfir, náttúruhamfarir og atburðir í líkingu við það sem á sér stað núna í Eyjafjallajökli, að það getur haft sína kosti að búa í litlu samfélagi vegna þess að samkenndin meðal okkar Íslendinga er mjög sterk þegar svona hlutir gerast og viljinn til aðstoðar er ríkur. Það á bæði við um stjórnvöld og almenning allan eins og við höfum séð á viðbrögðum almennings við hjálparbeiðnum eða áskorunum í þá átt að aðstoða bændur undir Eyjafjöllum við sauðburð og hreinsun upp á síðkastið.

Það frumvarp sem hér liggur fyrir og er til umræðu, flutt af sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd þingsins, er aðeins eitt skref í þá átt að styðja við bakið á bændum undir Eyjafjöllum í þeim erfiðu aðstæðum sem þeir eru í núna og það er ófyrirséð á þessari stundu hvert tjónið verður. Við höfum ekki hugmynd um hve lengi gosið stendur, hvert hið endanlega tjón verður eða hvað verður um búfjárhald í framtíðinni á þessum slóðum, þannig að það eru ótal spurningar sem erfitt er að svara eins og sakir standa.

Það skiptir líka máli að stjórnvöld og Alþingi Íslendinga sýni vilja til þess að koma til aðstoðar og sá vilji held ég að hafi þýðingu fyrir þá sem núna berjast við aðstæðurnar í kringum gosstöðvarnar. Ég er þakklát fyrir þetta frumkvæði sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar og þær undirtektir sem þetta frumvarp fær hér í þinginu vegna þess að ég held að það sé mikils virði fyrir bændur á þessum slóðum að finna að þingheimur hugsi til þeirra og að stjórnvöld séu tilbúin að stíga þau skref sem þarf til þess að koma til aðstoðar. Auðvitað er ótal spurningum ósvarað, eins og fram kom í máli hv. þm. Unnar Brár Konráðsdóttur áðan, og við sem hér stöndum á þessari stundu höfum ekki hugmynd um til hvaða ráða þarf að grípa áður en yfir lýkur en þetta er a.m.k. skref í rétta átt.

Ég vil einnig nota þetta tækifæri og senda bændum og búaliði austur undir Eyjafjöllum og í námunda við gosstöðvarnar baráttukveðjur.