138. löggjafarþing — 124. fundur,  17. maí 2010.

vátryggingastarfsemi.

229. mál
[17:26]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Lilju Mósesdóttur fyrir ágæta yfirferð yfir nefndarálitið sem jafnframt er þá yfirferð yfir frumvarpið sjálft.

Ég vil spyrja hana í fyrsta lagi að þeirri grundvallarspurningu, hvort hún telji að með þessu frumvarpi sé búið að loka þeim möguleikum sem menn höfðu til að láta peninga fara í hring, þ.e. með því að hafa eignarhaldið óljóst einhvers staðar úti í heimi, hafa margar kynslóðir að eigendum, þ.e. eitt hlutafélag átti annað hlutafélag og það átti svo þriðja hlutafélagið og það átti í vátryggingafélagi sem lánaði fyrsta hlutafélaginu eða jafnvel keypti í því og notaði bótasjóðinn jafnvel í því skyni, hvort búið sé að loka þeim möguleika með þessum aðgerðum eða hvort það þurfi ekki að taka á honum stóra sínum og breyta þessu hringferli peninga.

Svo vil ég spyrja um gagnkvæm vátryggingafélög, hér voru starfandi nokkur gagnkvæm vátryggingafélög eins og Brunabótafélagið, Húsatryggingar Reykjavíkur, Andvaka og fleiri, en þau störfuðu ekki sem gagnkvæm þó að þau hétu það vegna þess að gagnkvæmt vátryggingafélag á að endurgreiða þegar vel gengur, ef tjónin reynast minni en reiknað er með á það að endurgreiða iðgjaldið og það á að leggja á aukaiðgjald ef tjónin reynast meiri en reiknað er með. Þannig starfar gagnkvæmt vátryggingafélag og formið er geysimikið notað t.d. í Þýskalandi þegar ég skoðaði það síðast. Ég vil spyrja hv. þingmann hvort ekki sé verið að loka á ákveðinn möguleika bara vegna þess að menn framkvæmdu ekki lögin rétt á sínum tíma, eins og kom í ljós með Brunabótafélagið sem átti miklar eignir sem voru í reynd eign hinna tryggðu af því að það hafði ekki endurgreitt ofgreidd iðgjöld.