138. löggjafarþing — 124. fundur,  17. maí 2010.

vátryggingastarfsemi.

229. mál
[18:02]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ágæta og yfirgripsmikla ræðu. Það er eiginlega þrennt sem ég hef athugasemdir við.

Í fyrsta lagi sagði hún að sparisjóðir sem féllu hafi verið hlutafélög. Það held ég að hafi alls ekki verið í öllum tilfellum. Ég veit ekki betur en að sum heimili, sérstaklega á landsbyggðinni, í sveitum, séu í miklum vandræðum vegna þess að þau tóku lán til að kaupa stofnbréf, sem er göfugt fé eins og kunnugt er. Það féll svo og varð verðlaust. (EyH: Ég hélt það væri fé án hirðis.) — Það var nefnilega fé án hirðis og ég varaði við því strax 1991 að eitthvað kynni að gerast.

Í nefndaráliti segir, með leyfi frú forseta:

„Markmið vátryggingafélaga á þannig að vera hagnaður eigenda og hluthafa, á grundvelli hugmyndafræði kapítalismans“ — sem er voðalega ljótt — „og hlutafélagaformsins um að sérhagsmunir og hámörkun gróða leiði til velferðar samfélagsins í heild.“

Þetta er sem sagt ekki beint jákvætt.

Það vill svo til að ef tíu menn stofna gagnkvæmt vátryggingafélag til að tryggja hagsmuni sína í sjávarútvegi, eða hvað það nú er, þá er það alveg jafnmikið byggt á gróða og sérhagsmunum eins og hitt, og enginn munur þar á. Þeir ætla sér bara að ná fram lágu iðgjaldi þannig að ef tjónið verður minna en við var búist er endurgreitt og svo öfugt, ef tjónið verður meira endurgreiði þeir sjálfir.

Svo er það 55. gr. um raunverulegan eiganda. Þar er sagt að Fjármálaeftirlitið eigi að meta hver sé raunverulegur eigandi. Getur það gerst að einhver ljótur aðili kaupi í hlutafélagi til þess að hann sé ekki lengur góður eigandi — það er enginn sem getur bannað það á frjálsum markaði — og komi þannig með neikvætt inngrip inn í virkan eignarhlut?