138. löggjafarþing — 124. fundur,  17. maí 2010.

vátryggingastarfsemi.

229. mál
[18:06]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég fékk eiginlega bara svar við síðustu spurningunni, hinar tvær koma væntanlega.

Það sem ég var að hugsa um þar — ég mun koma inn á það í ræðu hér á eftir — er að þrír aðilar gætu átt 10% í vátryggingafélagi, góðir og gegnir. Það eru erlendir aðilar sem eiga þá, þessa þrjá, að einhverju leyti, kannski í einhverjum hlutföllum. Síðan gerist eitthvað á markaði erlendis þannig að einn aðili eignast 60% í öllum þessum þremur sem eiga 30% í félaginu. Hvernig ætlar Fjármálaeftirlitið að refsa þessum þremur fyrir það að einhver aðili keypti í eigendum þeirra úti í heimi? Ég held að það gæti orðið dálítið erfitt og snúið fyrir utan það að þær breytingar eru stöðugar eins og hefur komið fram varðandi eignarhaldið á bönkunum nýju, það veit enginn hver það er vegna þess að stöðugt er verið að versla með þessa pappíra.

Þetta getur því orðið erfitt fyrir Fjármálaeftirlitið að koma í veg fyrir að einhver einn aðili eignist stóran hlut í vátryggingafélagi án þess að Fjármálaeftirlitið geti rönd við reist af því að það snýr sér kannski að fyrsta, öðru eða þriðja foreldri en þegar komið er upp í langafa eða langalangafa getur orðið erfitt um vik að hindra að eitthvað gerist. Ég held að niðurstaðan verði alltaf á endanum sú að menn þurfi að vita alla keðjuna upp úr og niður úr til þess að geta starfað af einhverju viti í þessu og komið í veg fyrir það aðallega að menn láni til eða kaupi í forfeðrum sínum til að hindra þennan hringstraum af peningum sem ég held að hafi verið ein af stærri ástæðunum fyrir hruninu.