138. löggjafarþing — 124. fundur,  17. maí 2010.

vátryggingastarfsemi.

229. mál
[18:11]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta viðskn. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér heildarlög um vátryggingastarfsemi. Við höfum rætt þau nokkuð í dag og eðlilega ræðum við þetta í stóru samhengi og lítum þá kannski sérstaklega til rannsóknarskýrslu Alþingis. Því miður var sá þáttur ekki ræddur sérstaklega í nefndinni, sem hefði nú verið mun skynsamlegra að gera. Þegar sú skýrsla er lesin kemst maður fljótt að þeirri niðurstöðu að augljóst er að við Íslendingar erum mjög bernsk, þegar kemur að alþjóðlegri bankastarfsemi. Lönd eins og Holland, Belgía, Sviss, Singapúr og Hong Kong, sem voru í svipaðri stöðu og við Íslendingar, með stórt bankakerfi, komu betur út úr þessu. Það var fyrst og fremst vegna þess að þau hafa í það minnsta áratuga reynslu, gott ef ekki árhundraða reynslu sum hver, af alþjóðlegri bankastarfsemi og eftirliti með henni.

Segja má að við Íslendingar höfum langa reynslu af vátryggingastarfsemi. Það er ansi merkilegt að á tíma þjóðveldisins höfðum við brunatryggingar. Þær voru þess eðlis, að ef kviknaði í hjá bónda, þá bar öllum öðrum bændum í viðkomandi hreppi skylda til þess að bæta honum skaðann. Ef ég man rétt var það að hálfu. Þó var það einungis tvisvar. Ef kviknaði oftar í en tvisvar hjá viðkomandi bónda, var ekki lengur um bótaskyldu að ræða hjá nágrönnum hans. Þetta er í rauninni bara trygging. Trygging er samábyrgð. Hún gengur út á það að ákveðinn fjöldi einstaklinga kemur sér saman um að tryggja hver annan. Með nútímalegum hætti gerum við það með því að borga iðgjöld. Þetta er ekki ósvipað annarri fjármálastarfsemi og mjög tengt henni, eins og kom fram í umræðunni. Við höfum ekki farið eins illa út úr vátryggingamarkaðnum og bankamarkaðnum í bankahruninu. Það breytir því ekki að við þurfum að nálgast þetta með svipuðum hætti. Það er ekki að ástæðulausu að menn vitna í skýrsluna hvað eftir annað. Það er skynsamlegt og eðlilegt að nálgast þetta þannig, að byrja á pólitískri stefnumótun þegar aðilar, í þessu tilviki þingið, ákveða hvers konar löggjöf við viljum sjá um vátryggingastarfsemi.

Í einni af þeim ályktunum sem rannsóknarnefnd Alþingis dró af fjármálamarkaðnum, sem kemur fram á bls. 54 í 1. heftinu, segir, með leyfi forseta:

„En hvað sem leið þessari lagalegu umgjörð og starfi hinna sjálfstæðu eftirlitsaðila þurftu þau yfirvöld landsins sem landsmenn höfðu falið að gæta sameiginlegra og samfélagslegra hagsmuna þjóðarinnar að móta sér stefnu um það hvers konar starfsemi á fjármálamarkaði, og þá um leið að hvaða umfangi, gæti samrýmst stærð og getu þjóðarbúsins ef til áfalla kæmi. Jafnframt þurftu þau að fylgja þeirri stefnu eftir.“

Hið nákvæmlega sama á við um vátryggingastarfsemi. Þetta vantar einfaldlega í þessa vinnu. Þetta er heildarlöggjöf um vátryggingastarfsemi og að hluta erum við að innleiða endurtryggingartilskipun ESB í íslenskan rétt, en við eigum eftir að fara í þessa vinnu.

Hvað er t.d. ekki inni í frumvarpinu? Margt er til bóta í því og hefur ágætlega verið farið yfir það hér og ég ætla ekki að endurtaka það allt saman. Það vantar t.d. algjörlega inn í þessa löggjöf, og ekki bara inn í löggjöfina, það vantaði alveg í umræðuna í nefndinni og í þessum sal, hvort skynsamlegt sé að viðskiptabankar eigi vátryggingafélög og öfugt.

Virðulegi forseti. Það geta verið mjög mörg sjónarmið uppi hvað það varðar. Ég er ekki í þeirri stöðu að geta skorið úr um það hér og nú hvað sé rétt í því. Ég verð því miður að upplýsa þingheim um að við höfum ekki rætt þetta. Það hlýtur að vera svolítið öfugsnúið að klára heildarlög um vátryggingastarfsemi þegar við höfum ekki rætt hvort skynsamlegt sé að viðskiptabankar eigi vátryggingafélög, eða vátryggingafélög eigi viðskiptabanka. Nú eru mjög sterk sjónarmið uppi um þetta og mikil umræða um nákvæmlega þessa þætti, ekki bara hér á Íslandi, heldur í öllum þeim löndum sem við berum okkur saman við.

Alls staðar þar sem þessi mál eru rædd, fjármálamarkaðurinn og þar af leiðandi vátryggingamarkaðurinn, komast menn að þeirri niðurstöðu að það þurfi að skoða sérstaklega lög um endurskoðendur. Það er skemmst frá því að segja að við erum ekki byrjuð á þeirri vinnu. Það er augljóst, og kom t.d. fram í ræðu hv. þm. sem talaði hér á undan og hefur haft sterkar skoðanir á hlutverki endurskoðenda, að þetta skarast mjög. Virðulegi forseti, ef við tökum þetta ekki í heildarsamhengi, verður þetta bútasaumur sem erfitt verður að vinna úr. Það er ákveðin hætta á því.

Ég heyrði hér röksemd hjá hv. þm. Magnúsi Orra Schram að það væri svo margt gott í þessu frumvarpi og þess vegna þyrftum við að klára það. Það eitt og sér stendur alveg, að það er mjög margt gott í frumvarpinu. En þegar við ætlum að byggja upp fjármálamarkaðinn eftir áföllin sem dunið hafa yfir þjóðina, þá verðum við að vinna skipulega og tjalda ekki til einnar nætur. Ég vísa hér sérstaklega í skýrsluna hvað varðar fjármálamarkaðinn. Ein af helstu niðurstöðum rannsóknarnefndarinnar er að þetta hafi algerlega vantað varðandi fjármálamarkaðinn. Enginn deilir um að við eigum alveg eftir að gera þetta varðandi vátryggingamálin líka.

Þriðji þátturinn sem ekki hefur verið ræddur er ábyrgð hinna svokölluðu skuggastjórnenda. Hvað eru skuggastjórnendur? Það eru aðilar sem beita valdi sínu til þess að hafa áhrif innan fjármálafyrirtækis eða vátryggingafélags, jafnvel þannig að stjórnin lúti boðvaldi þeirra. Það er alveg ljóst, og við lesum svo sem fréttir af því á hverjum degi, að það er ýmislegt sem bendir til þess að slíkt hafi verið mjög fyrirferðarmikið í íslensku atvinnulífi á undanförnum árum og missirum. Ég held að það sé í það minnsta þess virði að fara sérstaklega yfir þann þátt mála. Á það jafnt við um vátryggingaþáttinn sem og fjármálafyrirtækin og lög um fjármálafyrirtæki.

Reyndar er það þannig, virðulegi forseti, að það er mjög erfitt að ræða hvort málið um sig án þess að þau tengist, því þau tengjast með svo margvíslegum hætti. Skuggastjórnendamálið á svo sannarlega við um bæði vátryggingamarkaðinn og fjármálamarkaðinn og í rauninni fleiri markaði. Þess vegna er mjög mikilvægt að fjalla um ábyrgð svokallaðra skuggastjórnenda og taka hana með í þessu samhengi.

Á sama hátt eigum við eftir að fara yfir það með fullnægjandi hætti hvort ekki eigi að fara á sama hátt með endurtryggingar og frumtryggingar, en það er nokkuð tæknilegt mál sem mikilvægt væri að taka fyrir í nefndinni. Ég vona nú og fer fram á það, virðulegi forseti, að við tökum málið aftur inn á milli umræðna og ræðum þetta sérstaklega þar.

Virðulegi forseti. Mikill tími nefndarinnar fór í að ræða hlut, sem er kannski ekki stór í heildarsamhenginu, en það er starfslokasamningar. Hér eru komnar fram skýrar hugmyndir um lagabókstaf, hvað það varðar. Ég held að allir séu sammála um það að í mörgum tilfellum fóru slíkir gjörningar langt fram úr því sem við teljum eðlilegt. Ástæðan fyrir því að lög komi þarna til, í stað þess að hverri stjórn sé það í sjálfsvald sett, er að ég held að flestir séu komnir á þá skoðun að það þurfi að setja strangar reglur um þetta vegna þess að vátryggingamarkaðurinn og fjármálamarkaðurinn gegna svo mikilvægu hlutverki í þjóðfélaginu. Skaði við fall þessara fyrirtækja getur valdið skaða hjá miklu fleirum en þeim sem eiga beinna hagsmuna að gæta, eigendum og viðskiptavinum. Þetta getur haft afleiðingar fyrir allt þjóðfélagið og þess vegna telja menn rétt að ganga inn í með valdboð og lagasetningu hvað þetta varðar. Hins vegar er það nú þannig að margir af þessum starfslokasamningum voru engan veginn ásættanlegar út frá neinum forsendum. Í grunninn hafa starfslokasamningarnir verið gerðir, og ég held að það sé nú almenna reglan ef allt er tekið, til að koma til móts við þá starfsmenn sem hafa unnið mjög lengi og sinnt starfi sínu vel. Mörg dæmi eru um það, sérstaklega hjá íslensku tryggingafélögunum. Ég þekki það sjálfur, þar sem ég vann áður hjá bæði Brunabótafélagi Íslands og Vátryggingafélagi Íslands, að þar er fólk með mjög langan starfsaldur. Stundum er komið til móts við það með starfslokasamningum og er ekkert óeðlilegt við það.

Við skerðum þetta hér mjög. T.d. er ákvæði um að það þurfi að vera hagnaður af fyrirtækinu í þrjú ár áður en starfslokasamningurinn er gerður. Það getur auðvitað verið snúið að framkvæma það, jafnvel þótt allir aðilar sem að málum koma telji eðlilegt að það verði gerður starfslokasamningur við viðkomandi starfsmann.

Við verðum auðvitað að passa það, virðulegi forseti, í þeim málum sem við eigum við í löggjöfinni, að við miðum ekki út frá verstu dæmunum sem við sáum í ástandinu eins og það var fyrir hrunið. Hugmynd okkar í 2. minni hluta er að þetta verði nú skoðað á milli umræðna.

Svolítil umræða hefur verið hér í salnum um ákvörðun meiri hlutans að banna gagnkvæm tryggingafélög. Það kom mér mjög á óvart og við ræddum það nokkuð inni í nefndinni. Ég hef aldrei verið trúarbragðamaður þegar kemur að rekstrarformum og ég hef aldrei skilið af hverju aðilar hafa trúarbrögð gagnvart rekstrarformum. Ég er nú búinn að vera til í 43 ár og ólst upp í Borgarnesi og var í menntaskólanum á Akureyri, og þar var t.d. mjög áberandi rekstrarform sem hét samvinnuformið. Ég held að Samband íslenskra samvinnufélaga hafi verið stofnað vegna þess að ýmsir aðilar vildu ná hagstæðum innkaupum á vöru frá útlöndum. Ég held að það hafi örugglega verið mjög skynsamlegt af þeim að setjast niður og stofna svona innkaupasamband. Það má færa full rök fyrir því að það hefur þróast út í alræmdan auðhring, sem hikaði ekki við að drepa alls staðar niður frjálst framtak þar sem þeir mögulega gátu. Maður þekkti þetta á litlu stöðunum þar sem litlir einyrkjar háðu oft vonlitla baráttu gegn ofureflinu, sem var stóra kaupfélagið eða fyrirtæki á vegum Sambands íslenskra samvinnufélaga. Þekkir hv. þm. Magnús Orri Schram þetta örugglega ef hann hefur hlustað einhvern tímann á afa sinn.

Það eru margir fletir á þessu. Gagnkvæmu tryggingafélögin voru mjög stór. Annars vegar voru það Samvinnutryggingar og hins vegar Brunabótafélag Íslands. Síðan var það Bátaábyrgðartryggingafélagið, sem var gagnkvæmt tryggingafélag að ég held, en ég þekki nú ekki mikið til þess. Brunabótafélag Íslands var stofnað til þess að brunatryggja húseignir úti á landi, sökum þess að í upphafi síðustu aldar vildu Danir ekki brunatryggja eða endurtryggja fasteignir utan Reykjavíkur. Löggjafinn kom að þessu, en hins vegar var þetta fyrst og fremst á ábyrgð viðkomandi sveitarfélaga og seinna þeirra sem tryggðu hjá félaginu. Ég held að Brunabótafélagið hafi verið gott dæmi um fyrirtæki sem hafi gert prýðilega hluti. (Gripið fram í.) Að vísu urðu Samvinnutryggingar til í tengslum við Samband íslenskra samvinnufélaga, og ég þekki ekki þá sögu jafn vel. Hins vegar voru mjög umdeildar lagabreytingarnar í kringum Brunabótafélagið þegar það hætti að starfa sem tryggingafélag og varð eignaraðili að Vátryggingafélagi Íslands.

Nú er það þannig að við sem tryggðum hjá Brunabótafélaginu munum aldrei fá neitt, eins og almennt er gert ráð fyrir þegar gagnkvæm tryggingafélög hætta starfsemi, heldur fer það allt saman í sjóð sem deilt er síðan út á milli sveitarfélaganna sem tryggðu hjá Brunabótafélaginu. Röksemdin er sú að þau hafi átt upphafið að þessu og þess vegna sé eðlilegt að gera þetta svona. Á sama tíma var þetta allt miklu óljósara varðandi Samvinnutryggingar. Þegar þeir hættu hefðbundinni tryggingastarfsemi og urðu aðilar að Vátryggingafélagi Íslands, varð til eitthvert eignarhaldsfélag. Eftir að það hafði verið eignarhaldsfélag mjög lengi, ætlaði það á einhverjum tímapunkti að skipta upp eignum á milli þeirra sem höfðu tryggt hjá Samvinnutryggingum. Af því varð ekki, sökum þess að það sem var í eignarhaldsfélaginu tapaðist allt saman, eftir því sem ég best veit. Þar á undan höfðu einhverjir aðilar getað nýtt sér þá fjármuni, í það minnsta fjárfest og haft stjórn á þeim fjárfestingum. Ég ætla svo sem ekki að leggja dóm á þá sögu. Ég held að aðalatriðið sé að það er ekkert fullkomið í þessum heimi og menn leggja af stað með ýmislegt af góðum ásetningi. Það getur tekið svolitlum breytingum þegar á líður. Aðalatriðið í mínum huga er að ég skil ekki bókstafstrú hvað varðar rekstrarform, frekar en annað. Sama má sjá varðandi sparisjóðina sem voru lítillega ræddir hér. Því miður kom eignaform þeirra ekki í veg fyrir að þeir yrðu bankahruninu að bráð, eins og við þekkjum öll.

Ég get ekki séð, virðulegi forseti, nein rök fyrir því að ganga sérstaklega fram og banna gagnkvæm tryggingafélög. Við í 2. minni hluta munum greiða atkvæði gegn því. Það eru ekki rök í málinu að enginn hafi sýnt því áhuga að stofna gagnkvæm tryggingafélög. Það eru heldur ekki rök í málinu að ekki sé hægt að koma þeim áleiðis. Ef það er miklum vandkvæðum bundið, er sjálfsagt að fara yfir það, eins og annað sem snýr að vátryggingamarkaðnum, og byrja á réttum enda. Í rannsóknarskýrslunni er einmitt lagt til og lögð áhersla á það að byrja á pólitískri stefnumótun áður en menn skrifa lögin. Það er algjört grundvallaratriði.

Í lögunum er mikil áhersla lögð á að færa aukin verkefni og ábyrgð á Fjármálaeftirlitið. Það er sökum þess, að þegar menn fara yfir farinn veg, þá kemur í ljós að ýmislegt mátti betur fara hjá Fjármálaeftirlitinu eins og hjá öðrum eftirlitsstofnunum. Þetta kemur fram við lestur rannsóknarskýrslunnar, þó svo menn hafi ekki skoðað hana sérstaklega í tengslum við frumvarpið. Ég efast ekki um að þeir sem sömdu frumvarpið hafi lagt upp með að bæta þar úr. Nákvæmlega það sama á við þegar kemur að lögum um fjármálafyrirtæki.

Virðulegi forseti. Þetta segir okkur að við ætlum Fjármálaeftirlitinu enn mikilvægara hlutverk en við ætluðum áður, bæði hvað varðar fjármálafyrirtæki og vátryggingafélög. Það er því grundvallaratriði að við förum yfir lögin um Fjármálaeftirlitið og að við séum fullviss um það geti sinnt hlutverki sínu. Við vitum það hins vegar öll og það hefur margoft komið fram í viðskiptanefndinni þegar um Bankasýsluna er rætt — það kom líka fram hjá sænska sérfræðingnum sem var mjög áberandi í kjölfar bankahrunsins — að stefna ríkisstjórnarinnar varðandi launauppbyggingu hjá stofnunum sínum, verður til þess að stofnanir ríkisins geta ekki keppt við þá aðila sem hún þarf að keppa við um starfsmenn. Þetta er bara staðreynd.

Nú getur Fjármálaeftirlitið ekki keppt við skilanefndirnar og lögfræðistofur og annað slíkt hvað varðar starfsfólk, (Gripið fram í.) vegna þess að stefnan er sú að engin laun verði hærri en laun forsætisráðherra. Þetta er svona mikill popúlismi. Auðvitað eru ekki öll laun forsætisráðherra tekin til. Lífeyrisgreiðslurnar eru ekki inni, ekki aðgangur að alls konar fríðindum eins og sumarbústað á besta stað á Íslandi. Það er ekki gert ráð fyrir bílstjóra. Það er ekki gert ráð fyrir aðstoðarmanni og öllu sem því tilheyrir. Það eru bara tekin launin og allt annað miðað út frá því.

Ég hafði miklar áhyggjur af þessu þegar kom að heilbrigðismálum og ræddi það þegar menn keyrðu það mál í gegn. Nú hef ég sömu áhyggjur varðandi eftirlitsstofnanir sem verða að sinna hlutverki sínu. Fram hefur komið og allir vita að einn vandinn var sá að starfsmannavelta var svo mikil hjá Fjármálaeftirlitinu. Þeir áttu í erfiðleikum með að keppa um starfsmenn við bankana þegar þeir fóru hvað hæst. Jafnvel nú eftir hrunið geta bankarnir ekki keppt við skilanefndirnar sem eru núna einhvers konar ríki í ríkinu.

Þetta er eitthvað sem menn hafa bara ákveðið að tala ekki um. Þetta er bleiki fíllinn í herberginu sem enginn ætlar að tala um. Þá búum við okkur til vandamál.

Það er nefnilega athyglisvert, virðulegi forseti, þegar við skoðum rannsóknarskýrsluna — auðvitað er rannsóknarskýrslan mannanna verk og ég efast ekki um það sé ekki allt 100% sem í henni stendur — ef við gefum okkur að ýmislegt sé til í því sem í henni kemur fram um Fjármálaeftirlitið, þá er ástæðan ekki bara sú að menn hafi farið of seint af stað með að styrkja stofnunina fjárhagslega. Það var einn þátturinn. Hér segir á bls. 45, með leyfi forseta:

„Ekki verður þó allur vandi Fjármálaeftirlitsins rakinn til ónógra fjárveitinga. Þannig skorti á að Fjármálaeftirlitið tækist á við grundvallarspurningar, svo sem um stærð bankakerfisins og nauðsynleg viðbrögð stofnunarinnar við allt of örum vexti þess.“

Grundvallarspurningar. Það er nákvæmlega það sama og við eigum eftir að ræða, bæði varðandi vátryggingafrumvarpið og fjármálastofnanirnar, grundvallarspurningarnar. Við komum alltaf að þessu sama.

Það segir í skýrslunni að röng forgangsröðun hafi verið hluti af vanda Fjármálaeftirlitsins. Sérstaklega er vísað í að meiri áherslu hefði átt að leggja á að koma upp þróuðum upplýsingakerfum hjá stofnuninni. Það vantaði tæknilega þekkingu og búnað. Það skorti á að Fjármálaeftirlitið sýndi í eftirlitsstörfum sínum nægilega festu og ákveðni við úrlausn og eftirfylgni mála. Fjármálaeftirlitið, ef marka má þessa skýrslu, kom málum ekki í formlegan farveg. Það vantað slagkraft.

Rétt á eftir þessum orðum í skýrslunni um Fjármálaeftirlitið er síðan sérstaklega farið í þátt endurskoðenda.

Virðulegi forseti. Ég held að við viljum öll læra af skýrslunni. Við höfum engan áhuga á því að gera sömu mistökin aftur. Það liggur alveg fyrir, að ef við viljum læra af skýrslunni, þá verðum við að byrja á því að fara í grundvallarspurningarnar. Hvernig vátryggingamarkað viljum við sjá? Hvernig fjármálamarkað viljum við sjá? Ef við komumst að niðurstöðu um það, er næsta spurning sú, hvernig við ætlum við að haga eftirlitinu. Ég held að við séum sammála um að við ætlum að hafa öflugt fjármálaeftirlit. Hvernig er þá Fjármálaeftirlitið í stakk búið til þess að takast á við það verkefni?

Fjármálaeftirlitið er bara fólk og svo ýmsar upplýsingar sem safnað er saman. Að stærstum hluta er þetta mannauður. Við heyrðum lýsingar á því hvernig t.d. breska fjármálaeftirlitið er byggt upp. Ég held að það væri mjög fróðlegt að skoða önnur fjármálaeftirlit í þeim löndum sem við berum okkur saman við, en þó sérstaklega í þeim löndum sem hafa mesta og lengstu reynsluna af því að hafa eftirlit með fjármálastofnunum eða vátryggingafélögum.

Virðulegi forseti. Við erum ekki búin með þá vinnu. Það er bara svo einfalt. Þótt mjög mikilvægt sé að ræða gagnkvæm tryggingafélög út í hörgul og það skipti mjög miklu máli, er það ekki hluti af grunnspurningunni. Ég er hins vegar ekki að segja, svo það sé alveg á hreinu, að það sé ekki margt líka mjög gott í störfum nefndarinnar. Formaður nefndarinnar, hv. þm. Lilja Mósesdóttir, og fulltrúar meiri hlutans héldu að mörgu leyti mjög vel á málum. Ég er ekki kominn hingað til þess að gagnrýna störfin sem unnin voru. Þau fara ekkert frá okkur. Allar upplýsingarnar sem við viðuðum að okkur, allar umsagnirnar sem við höfum fengið, það fer ekki frá okkur.

Það sem ég vil segja, virðulegi forseti, er að ég er ekki fullviss um að við höfum, eftir þessa yfirferð, lagt nógu traustar stoðir undir öflugan og traustan fjármálamarkað og vátryggingamarkað. Ég tel að það sé of mörgum spurningum ósvarað. Ég hef tilgreint sumar hér, og ég og hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson gerum það í nefndaráliti varðandi vátryggingaþáttinn og sömuleiðis varðandi fjármálafyrirtæki. Í ræðunni hef ég síðan rætt sérstaklega um Fjármálaeftirlitið og hvað við eigum eftir að vinna þar, til þess að geta verið örugg um að við veitum ekki falskt öryggi, heldur að við séum að byggja upp traustan fjármála- og vátryggingamarkað.

Ég veit, virðulegi forseti, að forustumenn stjórnarinnar í hv. viðskiptanefnd eru skynsamt fólk. Ég er enn vongóður um það að ef málið fer aftur inn í nefndina og við förum yfir þetta, að þá getum við komist að góðri niðurstöðu um hvernig við eigum að vinna þetta mikilvæga mál. Ég hvet meiri hlutann til þess að fara í þá vegferð með okkur.