138. löggjafarþing — 124. fundur,  17. maí 2010.

vátryggingastarfsemi.

229. mál
[18:51]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er gott ef ekki á að gefa afslátt af gjaldþoli eða fjárhagslegum viðmiðum og/eða taka ekki upp einkarétt á ákveðnum sviðum. Það er gott og ég biðst afsökunar ef svo er því að þá var það bara rangtúlkun hjá undirrituðum.

Ég tel að umræðan um gagnkvæm tryggingafélög eigi kannski heima í þeirri pólitísku langtímastefnumótun sem við hv. þingmaður erum sammála um að nauðsynlegt sé að fara í. Menn geta þá áttað sig á því hvort hægt sé að hafa svipaða nálgun á þau félög og lagt er til í tilviki sparisjóðanna því að við erum sammála um að sú hugsun sem er á bak við sparisjóðakerfið sé jákvæð en það þarf að gæta mjög vel að um styrkar stofnanir sé að ræða enda er verið að fara með fjármuni einstaklinga.

Að sama skapi eigum við að gera kröfur til tryggingastarfsemi í landinu en um leið getum við skoðað hvort grundvöllur sé fyrir því að nálgast viðfangsefnið með svipuðum hætti og við gerum í tilviki sparisjóðanna.