138. löggjafarþing — 124. fundur,  17. maí 2010.

vátryggingastarfsemi.

229. mál
[19:29]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum frumvarp til laga um vátryggingastarfsemi. Þar er um að ræða algerlega nýjan lagabálk sem byggir á tilskipun Evrópusambandsins. Það ætti að gefa hinu háa Alþingi Íslendinga tilefni til að vera sérstaklega varkárt því að við höfum séð ýmislegt frá Evrópuþinginu og Evrópuráðinu sem er meingallað. Sem dæmi má taka innlánstryggingarkerfið sem reyndist vera mjög gallað og eins það sem kom frá EFTA um að heimila ætti hlutafélögum almennt, öllum hlutafélögum, stórum og smáum, að veita starfsmönnum lán til kaupa á hlutabréfunum sjálfum. Það var sett í lög 1997 og ég fór sérstaklega í gegnum það fyrir stuttu. Ég fór líka í gegnum það ekki fyrir löngu að það hefði farið hraðferð í gegnum Alþingi af því að það er frá EFTA. Ég baðst afsökunar fyrir mína hönd á því frumvarpi vegna þess að nefndarálitið var örstutt, einungis sjö línur, og ekki var minnst á það ákvæði að lána mætti starfsmönnum og jafnvel tengdum aðilum til kaupa á hlut í hlutafélagi. Þetta var kannski ekki stærsti þátturinn en þó einn af stærri þáttunum í því að fela tap bankanna sem hrundu. Þegar þeir fóru út í slíkar aðgerðir í milljarðavís jókst eigið fé bankanna um skuldabréfið sem þeir fengu sem greiðslu en skuldirnar jukust ekki vegna hlutafjárins þannig að eigið féð óx sem þessu nam. Þetta er náttúrlega veila í þessu kerfi sem ég hef bent á og þarna hefði Alþingi átt að setja hámark á það hve mikið mætti lána, t.d. 5 millj. kr. eða eitthvað slíkt, sem hljómar allt að því eins og brandari í ljósi sögunnar.

Frumvarpið er samið fyrir hrunið, það er ekki afleiðing af hruninu. Samt var það svo að alla vega eitt vátryggingafélag, Sjóvá, fór mjög illa út úr hruninu og varð gjaldþrota og ætti það að gefa okkur merki um að fara varlega. Það er ekki bara þannig að fólk borgi iðgjald inn í tryggingafélag til að fá tryggingar sjálft og að það iðgjald sé í hættu, yfirleitt er það bara í eitt ár eða hálft ár að meðaltali í svokölluðum bótasjóðum, og er ekki um stóráhættu að ræða. En ef um er að ræða líftryggingar, sem eru ekkert mjög algengar hér á landi, getur verið um að ræða gífurlega sjóðssöfnun. Líftryggingar í Þýskalandi eru t.d. ein mesta uppspretta sparnaðar í því landi. Hvað varðar vátryggingafélög eru það aðallega hinir tryggðu eða þeir sem verða fyrir tjóni sem við verðum að gæta að. Það getur bæði verið maðurinn sem borgaði iðgjaldið sjálfur en það getur líka verið þriðji aðilinn, t.d. í bílatryggingum. Þar er oft um að ræða umtalsverðar fjárhæðir. Ef ekið er á mann sem er á virkum aldri með góða menntun getur tjónið auðveldlega hlaupið á 50–100 millj. kr. því að það er verið að bæta honum upp tekjutap út ævina ef hann verður mikill öryrki. Það eru gífurlegir hagsmunir fyrir það fólk að bótasjóðirnir séu í lagi því að það er þá spurning hvort það fái bætur eða ekki. Þess vegna lít ég þannig á að það sé aðallega fyrir þá sem lenda í tjóni, hvort sem það eru brunatjón, lífstjón eða eitthvað slíkt, sem við þurfum að gæta vel að vátryggingafélögum og til þess höfum við Fjármálaeftirlitið.

Hér hafa spunnist miklar umræður um vátryggingastarfsemi og ég ætla að byrja á því að ræða um það að menn ætla að taka út gagnkvæm vátryggingafélög. Ég hef ekki fengið neinar skýringar á því, engar skýringar. Það að einhver félög hafi ekki verið rekin sem gagnkvæm vátryggingafélög þó að þau hafi verið það á ekki að verða til þess að menn hætti við formið. Þetta er mjög mikið notað. Ég þekki það í Þýskalandi, þar er þetta mjög almennt. Ég spyr, frú forseti, hvað gerist ef þýskt gagnkvæmt vátryggingafélag vill starfa á Íslandi? Ég er hræddur um að það brjóti einhverjar reglur Evrópusambandsins að banna þetta alveg því að þar þykja gagnkvæm vátryggingafélög góður pappír. Ég skil ekki og ég hef ekki fengið neinn rökstuðning fyrir því í umræðunni eða í gögnum málsins að þau séu einhvern veginn slæm og þurfi að forðast þau.

Það sem gerðist var t.d. það að Brunabótafélagið, sem var gagnkvæmt vátryggingafélag, tryggði aðallega fasteignir og tók við iðgjöldum. Síðan reyndist tjónið vera minna en menn ætluðu eða iðgjaldið gaf tilefni til og þá átti, frú forseti, að endurgreiða iðgjaldið. Á hverju einasta ári átti, þegar tjón lá fyrir, að endurgreiða iðgjaldið en það var ekki gert. Þó að félagið hafi að forminu til verið gagnkvæmt tryggingafélag þá var það í reynd ekki þannig, ekki í praxís, menn unnu ekki þannig með félagið. Mér finnst alveg fráleitt að ætla sér að hætta við formið bara út af þessu.

Varðandi þann samanburð sem hér hefur komið fram um hlutafélög og gagnkvæm vátryggingarfélög, hvort það sé í hlutafélagaformi eða á því formi að vera gagnkvæmt — ég held að hvort tveggja sé jafnmikið eða jafnlítið smitað af gróðahyggju. Menn eru að reyna að ná fram einhverjum ákveðnum markmiðum, þ.e. að tryggja ákveðin óhöpp sem þeir geta orðið fyrir, hvort sem það eru bifreiðaslys, brunatjón eða hvað það er. Menn ætla að tryggja þetta áfall með einhverjum hætti og það er svo spurning hvernig það er gert ódýrast, hvort það er gert með því að hafa gagnkvæm vátryggingafélög eða á hlutafélagaformið. Ég er ekki viss um að það sé neitt ódýrara í gagnkvæmu vátryggingarfélagi en í hlutafélagi og það reynir bara á samkeppni á markaðnum. Hún hefur kannski ekki verið nægileg, ég veit það ekki, ég legg ekki dóm á það.

Töluvert mikið er rætt um virkan eignarhlut, væntanlega í ljósi hrunsins, og menn eru að vandræðast með að reyna að laga það sem ég sýndi fram á í frumvarpi um gagnkvæm hlutafélög, sem ég og fleiri hv. þingmenn fluttu, að það er veila í hlutafélagaforminu. Menn segja að Fjármálaeftirlitið eigi að meta það hvort virkur eignarhlutur sé í höndum góðra aðila í einhverjum skilningi. Þá er átt við að menn eigi meira en 9,99%. Ef þeir eiga 10% eða meira þá telst það virkur eignarhluti og þá fara menn að skoða hlutina. Og ég get nákvæmlega sagt hv. þingheimi hvað sniðugi karlinn gerir. Hann stofnar slatta af félögum sem öll eiga 9% og ekki meira, eða 9,5%. Með þeim hætti getur hann náð þeim ítökum eða þeim völdum sem hann vill og (Gripið fram í.) — tengdra aðila, það er málið, hann passar sig á að vera ekki tengdur því að það eru 20%. Hann telst tengdur ef hann á 20% í einhverjum öðrum. Menn eiga auðvelt með að komast hjá því með því að stofna nógu mörg hlutafélög sem eiga þarna hluti. Svo er það spurningin hvað gerist (Gripið fram í.) — það er veila í hlutafélagaforminu, frú forseti, í tilefni af þessu frammíkalli, og menn þurfa að horfast í augu við hana, átta sig á henni, skilja hana og laga hana. Ég tel að hægt sé að laga hana, eins og ég gerði í gagnsæjum hlutafélögum, með því að upplýsa um allan eigendastrúktúrinn eða eigendatréð upp úr og ræturnar niður úr þannig að það liggi fyrir hverjir eigi hvern, öll ættin ef svo má segja — ef maður lítur á þetta sem móðurfélög og ömmufélög o.s.frv., að það liggi fyrir hver ættin er og aldrei megi lána eða kaupa í eiganda sínum upp á við og allt sé gagnsætt. Þá fellur allt um sjálft sig sem menn eru að reyna að tala um og reyna að verjast. Þá hverfur það allt saman eða ég hef þá trú.

Í frumvarpinu er einnig rætt um að kjósa endurskoðanda og ég er mjög hlynntur því. Ég tel reyndar að frumvarpið sem við ræðum sé jákvætt. Ég held að það sé jákvætt og að það sé skref í rétta átt, það nær bara alls ekki markmiðum sínum vegna þeirrar veilu sem ég nefndi í hlutafélagalögunum. Eitt af því sem ég er ánægður með er að kjósa eigi endurskoðendur oftar en gert hefur verið og að skipta þurfi um endurskoðendur. Það er nefnilega þannig að þegar sama endurskoðunarfélagið hefur starfað mjög lengi fer það að bera ábyrgð á rekstrinum í þeim skilningi að ef upp kemur einhver villa einhvers staðar eða einhver svik eða eitthvað slíkt og þeir hafa skrifað upp á það áður þá er erfitt fyrir þá að segja allt í einu: Ja, það hefur komið í ljós ágalli í rekstrinum og hann á sér rætur í því sem ég endurskoðaði. Menn eru tregir til að gera það og viðurkenna þannig sekt. En með því að skipta um endurskoðendur kemur nýr aðili að sem getur bent á þetta fyrir utan að það veitir ákveðinn aga að menn viti að eftir nokkur ár verður skipt um endurskoðendur. En endurskoðandi starfar nefnilega alltaf fyrir hluthafa. Það er kannski meinið að endurskoðendur starfa svo mikið með stjórninni að það fer að líta út eins og þeir starfi fyrir stjórnina en þeir starfa fyrir hluthafann til að passa upp á stjórnina, það er hlutverk endurskoðanda.

Hér hefur verið rætt um ýmislegt og ég held að ég geti stutt það mestallt. Ég tel bara að þetta gangi alls ekki nægilega langt. Það er ekkert sem hindrar það að nákvæmlega það sama og gerðist í hruninu gerist aftur, því miður. Ég tel því að menn þurfi að skoða miklu nánar dulið eignarhald og því um líkt og tengda aðila. Hvað eru tengdir aðilar, frú forseti? Hjón sem eru að skilja eru talin tengdir aðilar en sennilega eru fáir aðilar í heiminum jafnótengdir. Félagar sem spila golf á hverju kvöldi eða hittast í pottinum eru ekki tengdir en þeir geta verið nátengdir í viðskiptum. Aðilar sem hafa unnið saman, verið fóstbræður í viðskiptum, teljast ekki tengdir aðilar, einhver sem þú hefur átt viðskipti með en ekki við í fjölda ára. Ég hef því alltaf haft töluverðar efasemdir um þetta hugtak „tengdur aðili“ og ég hef alltaf haft efasemdir um að menn geti sett einhver mörk á það hvað telst „virkur eignarhlutur“.

Hlutafélag með mjög miklu og dreifðu eignarhaldi, eins og Eimskip var í gamla daga, þar sem voru 12 þúsund hluthafar, og svo einn stór aðili sem var háskólasjóðurinn — háskólasjóðurinn réði stjórninni. Og svo gerðist það merkilega. Þegar Vestur-Íslendingar gáfu háskólasjóðinn til Íslands, hvað gerðu þeir? Þeir gerðu mikil mistök. Þeir gáfu háskólanum háskólasjóðinn, hann fékk arðinn og allt það, en atkvæðismagnið fór til stjórnar Eimskips. Eftir að menn gerðu það fór stjórn félagsins með atkvæðamagnið fyrir 10% í Eimskip og það þýddi í því félagi, vegna þess hve eignarhaldið var dreift, að þeir réðu öllu. Eftir þessa gjöf má segja að stjórn Eimskips hafi átt félagið, hún stjórnaði því alla vega. Það var engin hætta á því að einhver mundi blanda sér í þann leik.

Það er því ekki sama hver dreifing á hlutafé er, hvort 9,99% telst virkur hlutur eða ekki. Ef eigendur eru þrír og einn á 9,99%, og þó að það væru 15%, þá ræður hann engu. Hann er sem sagt alls ekki virkur. Ef annar á 50% þá ræður hann öllu. Dreifing á eignarhaldi breytir þessum hlutföllum mjög mikið og mér finnst menn vera að klóra í bakkann, finna eitthvað til að halda sér í, á meðan menn þurfa að átta sig á þessari veilu sem ég nefndi í hlutafélagaforminu og reyna að útrýma henni. Ef það tekst þá held ég að mjög margt verði auðveldara og gagnsærra í því umhverfi sem við erum í. En því miður er það þannig að hlutafélagaformið er alþjóðlegt og mjög erfitt er að breyta því út um allan heim út frá Íslandi. Mér finnst hins vegar að útlendingar ættu að læra töluvert á þessari kreppu okkar. Hún var mjög lærdómsrík. Skýrsluna góðu ættu menn að skoða um allan heim vegna þess að þetta hrun var afskaplega dýr lærdómur, alla vega fyrir Íslendinga.