138. löggjafarþing — 124. fundur,  17. maí 2010.

vátryggingastarfsemi.

229. mál
[20:21]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta viðskn. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Við höfum mikið rætt það í þessari umræðu að það skipti máli að læra af reynslunni og læra af skýrslunni. Það tengist enda beint þeirri rannsóknarskýrslu sem við höfum rætt. Umræðan í kvöld hefur ekki borið þess merki, hún hefur því miður þróast út í eintal stjórnarandstöðunnar en stjórnarliðar hafa ekki séð ástæðu til að taka þátt í umræðunni og er það mjög slæmt. Ég held að það væri mjög mikilvægt ef hv. stjórnarliðar mundu fara aðeins yfir það af hverju ekki á að taka þetta í heildarsamhengi eins og við höfum vísað til. Ég held að enginn geti haldið því fram að það séu ekki málefnaleg rök. Menn hafa hvað eftir annað vitnað í rannsóknarskýrsluna máli sínu til stuðnings og sagt að það skipti máli að það sé mjög skýr stefnumörkun, pólitísk sýn af hálfu löggjafans þegar menn fara í svona vegferð, hvort sem það er varðandi vátryggingafrumvarpið eða fjármálafrumvarpið. Það er alveg augljóst að því er ekki fyrir að fara og þessi pólitíska stefnumótun hefur ekki farið fram. Ég vek athygli á því að hér eru mál sem eru gríðarlega stór í þessu samhengi eins og t.d. varðandi eignaraðild viðskiptabanka að tryggingafélögum og öfugt, það er ekkert rætt. Við ræddum það ekki í nefndinni og við ætlum ekki að ræða það í þingsalnum. Það eru ekki mörg einstök mál sem eru miklu stærri. Það eru mjög skiptar skoðanir á því hvort það hafi verið til góðs, hvort það sé æskilegt að viðskiptabankar og vátryggingafélög séu jafnvel sama samsteypan. Við höfum séð þetta á undanförnum árum, Íslendingar, þetta hefur verið þróunin. Við höfum t.d. séð þá þróun verða að það hafa verið blokkir, oft með skýr eignatengsl þar sem lagt er upp með að viðskiptavinir bankanna séu hjá ákveðnum tryggingafélögum, bæði persónutryggingafélögum og vátryggingafélögum. Ég ætla að það mundi vera einnar messu virði ástæða til að fara yfir þau mál. Er það þróun sem við viljum sjá og af hverju þá? Hún er til staðar núna og er komin til að vera nema eitthvað verði að gert. Er það eitthvað sem við teljum að sé æskilegt og viljum sjá að verði? Við höfum ekki rætt þetta. Við höfum ekki rætt endurskoðendurna eða lögin um þá. Við höfum ekki rætt skuggastjórnendurna, það er fyrst og fremst stjórnarandstaðan sem hefur rætt gagnkvæmu tryggingafélögin. Ég tek undir með hv. þm. Sigurði Kára Kristjánssyni að á dauða mínum átti ég von en ekki því að flokkur hv. þm. Ögmundar Jónassonar og hæstv. ráðherra Steingríms J. Sigfússonar mundi leggja fram frumvarp þar sem ákveðin fyrirtæki í landinu mættu eingöngu vera hlutafélög, en þannig er þetta nú samt.

Ég er ansi hræddur um að við séum komin að þeirri niðurstöðu sem við vildum alls ekki fá, þ.e. að við höfum ekki lært mikið af rannsóknarskýrslu Alþingis. Það er ekki gott. Ég vek athygli þeirra sem eru að fylgjast með þessari umræðu á því að það sem hver einasti hv. stjórnarandstæðingur hefur rætt varðandi Fjármálaeftirlitið hefur verið áhyggjuefni að ég tel hjá öllum nefndarmönnum í hv. viðskiptanefnd. Það er alveg ljóst að við erum ekki búin að fá nein fullnægjandi svör og höfum kannski ekki heldur spurt spurninganna um það hvernig Fjármálaeftirlitið á að sinna því aukna hlutverki sem stofnuninni hefur verið falið eftir að lögin um vátryggingarnar og fjármálastofnanirnar voru samþykkt. Það er ekki lítið mál. Það er algert grundvallarmál.

Í örstuttu máli er það þannig að við erum að færa aukin verkefni og aukin völd til Fjármálaeftirlitsins og við vitum ekki hvernig þeim mun reiða af í því umhverfi. Við höfum ekki farið í skoðun á lögunum um Fjármálaeftirlitið. Við vitum að stofnunin er í erfiðleikum við að keppa um starfsfólk, það liggur alveg hreint og klárt fyrir. Alveg sama hvaða skoðanir menn hafa á því er það bara staðreynd sem liggur fyrir og við vitum að það var eitt af meinunum sem menn bentu á í kjölfar bankahrunsins.

Þetta er staðan sem er uppi í dag þegar er einn dagur fram að þinghléi og nefndadögum og ég velti því fyrir mér hvaða ráð við höfum varðandi það að taka þessa umræðu. Ég vonast til þess að við förum vel yfir þetta í nefndinni á milli umræðna og það væri gott að heyra það hjá hv. formanni viðskiptanefndar hvernig hún sér þá vinnu fara fram á vettvangi nefndarinnar. Hvernig sér stjórnarmeirihlutinn þetta fyrir sér á milli umræðna? Það er útilokað annað í þessu samhengi þegar við erum að endurskipuleggja, hvort sem er vátryggingamarkaðinn eða fjármálamarkaðinn, en að taka lögin um fjármálaeftirlitið fyrir, reyndar líka lögin um endurskoðendur og regluverkið í kringum innstæðutryggingarnar og kannski má nefna ýmislegt fleira. Það eru ekki bara við sem erum að fara í þetta verkefni, þetta er verkefni sem öll þau lönd sem við berum okkur saman við eru að fara í. Við megum ekki eyða tíma okkar og týna okkur í málum sem skipta ekki jafnmiklu máli. Þegar við ræðum einstök atriði, hvort sem það er í nefndinni eða hér, er sjálfsagt að við tökum góðan tíma í það en við erum við komin í þá stöðu að ræða um einstök tré, við sjáum ekki skóginn fyrir trjánum.

Mér er mjög minnisstætt þegar hv. seðlabankastjóri kom í viðskiptanefnd og útskýrði fyrir okkur að við værum í sömu stöðu og þær þjóðir sem við berum okkur saman við, að menn væru núna að reyna að finna leiðir að því að taka á þeim kerfislæga vanda sem var undirliggjandi og mældist ekki. Hann orðaði þetta eitthvað á þá leið að við hefðu verið að líta á einstaka stofnanir, þær hefðu staðist öll próf, kennitölur þeirra hefðu verið í lagi en síðan hefði kerfið allt í einu brugðist og hrunið varð. Mér þótti að mörgu leyti mjög áhugavert að heyra þetta frá þessum manni sem hafði verið að skoða þessa hluti fyrir hrunið í þeirri alþjóðastofnun sem hann var að vinna í áður. Hann fór mjög málefnalega yfir þetta og hefur bæði skrifað greinar og haldið ræður þar sem hann tæklar þetta mál eins og svo margir aðrir víðs vegar um heiminn.

Það var einmitt þetta atriði sem kom fram hjá seðlabankastjóra, að við byggjum á alþjóðlegu fjármálakerfi sem er byggt á Bretton Woods-stofnunum upp úr seinna stríði. Það var auðvitað í allt öðru umhverfi en við erum í núna. Við komumst allt í einu í þá stöðu að flækjustigið í kerfinu var orðið mjög mikið og það er ekki þróun sem varð á eini nóttu heldur smátt og smátt. Þær vörur sem fjármálafyrirtækin voru með, en fjármálafyrirtækin litu á þessa hluti sem vörur, urðu sífellt flóknari og ef marka má skýrsluna átti Fjármálaeftirlitið erfitt með að fylgja því eftir. Síðan var kerfisvandi undirliggjandi, þ.e. að menn litu á einstakar stofnanir, kennitölur þeirra voru í lagi en menn sáu ekki þennan undirliggjandi vanda sem ágerðist og var eitt af því sem olli hruninu. Svo sannarlega var það mjög mikið sem við Íslendingar áttum að ráða við og áttum að sjá fyrir en það eru líka mein í kerfinu. Það kemur fram í mörgu. Við sjáum þessar evrópsku tilskipanir eins og innstæðutryggingarsjóðinn, Icesave, það er hreint og klárt að þar er evrópsk tilskipun sem er meingölluð. Við þurftum að taka hana upp og það hafði skelfilegar afleiðingar í för með sér. Við erum ekki enn þá búin að sjá hvernig við ætlum að byggja upp traust á kerfinu aftur án þess að vera með beina ríkisábyrgð eins og við erum með núna. Það frumvarp sem komið er í hv. viðskiptanefnd vekur miklu fleiri spurningar en nokkurn tíma svör. Það er mjög skýrt að ef menn fara bókstaflega eftir því sem þar er verðum við einhverja áratugi eða í rauninni 96 ár að ná sjóðasöfnun sem mundi dekka tjón sem yrði þá hjá stærsta viðskiptabankanum eins og markaðshlutdeildin er núna ef ekkert annað kæmi til — 96 ár.

Auðvitað er þetta ákveðin einföldun, virðulegi forseti, en það sem ég er að segja er einfaldlega að það verða að koma skýr skilaboð frá stjórnarliðum af hverju ekki er tekið á þessu máli heildstætt, af hverju farið er þvert á niðurstöður rannsóknarskýrslunnar sem segir skýrt að við verðum að koma með pólitíska stefnumótun þar sem ljóst er hvaða markmiðum er hægt að ná með löggjöf. Af hverju ætla menn ekki að gera það? Það er ekki um það deilt að við förum ekki þá leið hér. Það heldur því enginn fram að pólitísk stefnumótun hafi legið til grundvallar þegar þetta frumvarp var samið. Það heldur því enginn fram að við hefðum klárað þá vinnu, ekki einu sinni hafið hana í hv. viðskiptanefnd. Við förum bara ekki þá leið sem er sérstaklega mælt með í rannsóknarskýrslunni.

Gott og vel. Meiri hlutinn ætlar að fara þvert á niðurstöðu rannsóknarnefndarinnar hvað þetta varðar og þá er mjög mikilvægt að stjórnarliðar segi skýrt af hverju það er. Það hljóta að vera málefnaleg rök fyrir því að menn ætla ekki að læra af reynslunni því að þetta eru grundvallarspurningar eins og svo oft er vísað í í rannsóknarskýrslunni, að mönnum hafi orðið á í messunni þegar grundvallarspurningum var ekki svarað. Við eigum að mínu áliti að læra af því sem miður fór. Ég held að það sé það eina góða sem getur komið út úr bankahruni að maður getur lært af því og við getum byggt þannig upp að við gerum ekki sömu mistökin aftur. Ef við gerum það er það gæfa fyrir íslenska þjóð. Ef menn ætla ekki að gera það þurfa menn í það minnsta að koma með mjög skýr rök fyrir því af hverju menn fara ekki þá leið.