138. löggjafarþing — 124. fundur,  17. maí 2010.

vátryggingastarfsemi.

229. mál
[20:46]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta viðskn. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu en það fer ekki vel á því að hv. þingmaður væni aðra hv. þingmenn um að lesa ekki þann texta sem hér liggur fyrir, sérstaklega í ljósi þess að það er eins og að hv. þingmaður hafi ekki lesið eigið nefndarálit. Hv. þingmaður talaði um að gagnkvæmu tryggingafélögin yrðu ekki bönnuð en hér segir skýrt, með leyfi forseta:

„Verði frumvarpið að lögum fellur því brott heimild gildandi laga til að reka vátryggingafélag sem gagnkvæmt félag.“

Skýrara getur það ekki orðið.

Ég frábið mér allar ávirðingar um aðgerðaleysi. Þeir sem sitja í hv. viðskiptanefnd fyrir hönd stjórnarandstöðunnar hafa þvert á móti haft frumkvæði að mjög mörgum málum, m.a. breytingum hér. Þeir hafa svo sannarlega verið tilbúnir til að funda kvölds og morgna, og um miðjan dag þegar svo ber undir. Það er hreinn og klár útúrsnúningur að halda því fram að það þurfi að bíða eftir þingmannanefnd sem verður sett til að skoða rannsóknarskýrsluna og aðgerðir í framhaldi af því til að geta tekið mið af þeirri skýru niðurstöðu að þegar við förum í vinnu eins og þessa eigum við að fara í pólitíska stefnumótun. Það er hreinn og klár útúrsnúningur að halda því fram.

Það er alveg ljóst að það hefur verið brotalöm hvað það varðar og það þrætir enginn fyrir það að ýmislegt vantar í þetta. Hv. þingmaður veit að þeir sem sitja í hv. viðskiptanefnd eru svo sannarlega tilbúnir til að fara í þá vinnu sem er nauðsynleg til að endurvekja traust á fjármálamarkaðnum og við verðum að fara í og á ekki að halda neinu öðru fram úr (Forseti hringir.) ræðustól þingsins.