138. löggjafarþing — 124. fundur,  17. maí 2010.

fjármálafyrirtæki.

343. mál
[21:19]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nú hljómar þetta eins og ég sé með þráhyggju fyrir starfsemi endurskoðenda sem ég vil fullvissa hv. þingheim um að ég er ekki með. Þetta er hins vegar dæmi sem mér finnst vera svo skýrt og ég verð að segja að mér fannst svar hv. þingmanns vera dálítið í þá átt sem mér hefur fundist um ýmsar af þeim breytingum sem við erum að fara hér í, þetta er svona „af því bara“. Af því að endurskoðendur stóðu sig ekki í aðdraganda bankahrunsins er lykilatriði að herða þetta meira hér. Ég verð að segja það aftur og segi það enn að ég óttast að með þessu — og ég tek þetta aftur sem lítið dæmi — séum við skapa falskt öryggi.

Síðan spyr ég hv. þingmann hvort hún sé ekki sammála mér um að þarna séum við að skapa skilyrði sem geta orðið til þess að við upplifum okkur þannig að við séum búin að setja einhverjar hömlur á hluti sem við erum ekkert búin að laga.

Hv. þingmaður sagði að það tæki tíma að kynnast fyrirtækjum. Jú, það er alveg rétt, það myndast ákveðið trúnaðarsamband. En hefur þingmaðurinn ekki áhyggjur af því að endurskoðandinn þurfi líka ákveðinn tíma til að fara í gegnum starfsemi fyrirtækjanna þannig að honum yfirsjáist ekki hlutir sem hann ætti að sjá af því að hann þekkir ekki fyrirtækið nógu vel?

Þess vegna spyr ég: Af hverju göngum við lengra en alþjóðlega þróunin? Ég veit að þetta er lítið atriði en mér finnst prinsippið í þessu vera það sem máli skiptir.