138. löggjafarþing — 124. fundur,  17. maí 2010.

fjármálafyrirtæki.

343. mál
[21:22]
Horfa

Frsm. meiri hluta viðskn. (Lilja Mósesdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil bara geta þess að þeir háskólakennarar sem hafa tjáð sig um þetta mál hafa m.a.s. lagt til að við styttum tímann niður í þrjú ár. Hvers vegna þrjú ár en ekki fimm, hvað þá sjö ár? (Gripið fram í.) Þá skýringu hafa þeir ekkert frekar en ég, heldur ítreka bara nauðsyn þess að ekki myndist trúnaðarsamband milli endurskoðandans og fyrirtækisins. Það er að vissu leyti rétt að það eru ekki nein ákveðin rök fyrir því heldur sem sagt miklu frekar nauðhyggja. (Gripið fram í.)

Hvað varðar það að endurskoðendur þurfi að starfa í a.m.k. sjö ár til þess að þeir læri almennilega inn á þau fyrirtæki sem þeir endurskoða vil ég bara geta þess að flestir endurskoðendur, og m.a.s. endurskoðunarfyrirtæki, sérhæfa sig í ákveðnum geirum. Ég þekki vel til í sjávarútvegi og veit að þar fara endurskoðendur á milli sjávarútvegsfyrirtækja þannig að þekking úr einu sjávarútvegsfyrirtæki, sem hefur þá safnast upp á fimm árum en ekki sjö, nýtist í næsta sjávarútvegsfyrirtæki sem er endurskoðað.