138. löggjafarþing — 124. fundur,  17. maí 2010.

fjármálafyrirtæki.

343. mál
[21:23]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta viðskn. (Eygló Harðardóttir) (F):

Herra forseti. Ég virðist fara mjög hratt upp virðingarstigann, er orðinn 1. þingmaður kjördæmisins og er, held ég, formaður á einu nefndaráliti viðskiptanefndar. Ég er hins vegar komin hingað til að mæla fyrir nefndarálit 1. minni hluta viðskiptanefndar, um frumvarp til laga um breyting á lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, með síðari breytingum.

Ég vil í upphafi nefna það að frá því að lög nr. 125/2008, með hinu langa og glæsilega nafni, um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl. — eða neyðarlögin eins og þau eru almennt kölluð — voru samþykkt hefur þessum lögum sem við fjöllum nú um verið breytt alls sjö sinnum og samkvæmt yfirlýsingum stjórnarliða erum við bara rétt að byrja.

Með þessu frumvarpi er hins vegar verið að leggja til einna umfangsmestu breytingarnar hingað til. Tillögur frumvarpsins byggjast fyrst og fremst á skýrslu Kaarlos Jännäris, fyrrverandi forstjóra finnska fjármálaeftirlitsins, sem var fenginn til þess að fjalla um lagaumhverfi og framkvæmd fjármálaeftirlits á Íslandi eftir hrunið. Tillögur hans voru í átta liðum og þegar er búið að framkvæma tillöguliði 1 og 2, sem gengu út á það að fækka ráðuneytum sem færu með málefni fjármálamarkaðar og sameina Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitið, eða setja þessar stofnanir alla vega undir einn hatt líkt og er í Finnlandi og á Írlandi. Við færðum því Seðlabankann frá forsætisráðuneytinu og undir efnahags- og viðskiptaráðuneytið þannig að nú er þetta alla vega komið undir einn og sama ráðherrann.

Það sem við erum hins vegar hér að fjalla um eru tillögur sem byggjast á 3.–5. tölulið Jännäri-skýrslunnar sem fjalla um að:

3. Auka valdheimildir Fjármálaeftirlitsins og hvetja stofnunina til að beita þeim af meiri krafti.

4. Koma upp útlánaskrá (e. national registry) hjá Fjármálaeftirlitinu til að draga úr útlánaáhættu í fjármálakerfinu og til að fá betri yfirsýn yfir stórar áhættuskuldbindingar á landsvísu.

5. Strangari reglur um stórar áhættuskuldbindingar, lánveitingar til tengdra aðila og hæfi eigenda og framfylgja þeim af krafti.

Eins og hv. formaður viðskiptanefndar, hv. þm. Lilja Mósesdóttir, fór í gegnum í yfirferð sinni yfir meirihlutaálitið er verið að gefa Fjármálaeftirlitinu mjög auknar eftirlitsheimildir og raunar mjög miklar valdheimildir til að setja reglur eða reglugerðir um tiltekin atriði. Það er líka verið að auka heimild eftirlitsins til að fara í ákveðið mat, sem byggist kannski meira á tilfinningu starfsmannanna á rekstri eða hegðun eftirlitsskylds aðila en áður. Og eins og ég nefndi áður er það skráin yfir stærri lántakendur, það er skerpt á ákvæðum um heilbrigða og eðlilega viðskiptahætti, bann lagt við lánveitingum með veði í eigin hlutabréfum eða stofnfjárbréfum, þrengd ákvæði um eign og meðferð eigin hluta, skýrðar reglur um stórar áhættuskuldbindingar, og, eins og hún nefndi líka, auknar kröfur til stjórnarmanna, ábyrgð þeirra á eftirliti með rekstri aukin og síðan bann sett við starfandi stjórnarformönnum.

Ég verð að segja það að munurinn á þessu frumvarpi og því frumvarpi sem við vorum að fjalla um áðan varðandi vátryggingar felst í því að undirbúningsvinnan er að mörgu leyti miklu betri. Það var bæði sú vinna sem Kaarlo Jännäri fór í og síðan var skipuð nefnd af ráðuneytinu til þess að vinna úr þessum tillögum. En enn á ný erum við komin að því að það skortir á það sem kallað er pólitísk stefnumörkun.

Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis segir, með leyfi forseta:

„Sérstaða banka og fjármálafyrirtækja og samfélagsleg staða þeirra og ábyrgð kallaði ekki bara á að þessari atvinnustarfsemi væri sett lagaleg umgjörð. Eðli starfseminnar og sú áhætta sem var fólgin í henni bæði fyrir hagsmuni einstaklinga og hagsmuni samfélagsins í heild kallaði á virkt starf eftirlitsaðila. En hvað sem leið þessari lagalegu umgjörð og starfi hinna sjálfstæðu eftirlitsaðila þurftu þau yfirvöld landsins sem landsmenn höfðu falið að gæta sameiginlegra og samfélagslegra hagsmuna þjóðarinnar að móta sér stefnu um það hvers konar starfsemi á fjármálamarkaði, og þá um leið að hvaða umfangi, gæti samrýmst stærð og getu þjóðarbúsins ef til áfalla kæmi. Jafnframt þurftu þau að fylgja þeirri stefnu eftir.“

Sem nefndarmanni í viðskiptanefnd og fulltrúa í þingmannanefndinni, sem er að vinna úr niðurstöðum rannsóknarnefndarinnar, finnst mér sláandi að lesa kaflann sem fjallar um stefnumörkun fyrri ríkisstjórna varðandi fjármálamarkaðinn. Í upphafi kjörtímabils, þegar ríkisstjórnin nær samkomulagi um að starfa saman, eru lagðar fram samstarfsyfirlýsingar eða stjórnarsáttmálar. Miðað við það hve fjármálamarkaðurinn var orðinn stór, og var orðinn stór hluti af íslensku efnahagslífi, er mjög einkennilegt að lesa í gegnum þessar stjórnaryfirlýsingar og stjórnarsáttmála og sjá hversu litla stefnumörkun er þar að finna um það hvers konar fjármálamarkað við viljum hafa á Íslandi.

Þetta hefur ekkert breyst þrátt fyrir að við höfum farið í gegnum heilt bankahrun þar sem þrír stærstu bankar landsins fóru á hausinn og á meðan við vorum að vinna þetta mál tók ríkið yfir tvo af stærstu eftirlifandi sparisjóðunum. Stjórnvöld hafa í dag enn ekki mótað sér stefnu um það hvers konar starfsemi eigi að vera á íslenskum fjármálamarkaði og hvert umfang hennar eigi að vera miðað við stærð og getu þjóðarbúsins ef til áfalla kemur. Tilfinningin er meira sú að við séum að vinna í því að byggja aftur upp það sem hrundi þannig að við erum að fara aftur til baka til 2006 eða 2007, í staðinn fyrir að horfa fram á við og gera okkur grein fyrir því að þetta er lítið land með fáa einstaklinga og geta okkar er hreinlega takmörkuð.

Þessu til sönnunar má benda á að íslenskir bankar eru enn að stofna útibú erlendis og auk þess er enn mjög margt óljóst um það hvernig við ætlum að standa að innstæðutryggingum. Það virðist jafnvel liggja fyrir að það sem var gert með neyðarlögunum, sem ég nefndi hérna áðan, þar sem forgangsröðun krafna í þrotabú var breytt, virðist jafnvel vera eitthvað sem við gerum ráð fyrir að standi um ókomna tíð. Hér fyrr í dag voru menn að ræða um hvenær við gætum hugsað okkur að afnema gjaldeyrishöftin og það er svo margt sem enn er óljóst og menn eru alls ekki búnir að gera sér grein fyrir því hvernig við ætlum að hafa hlutina á árinu 2010.

Ég vil benda á að annað dæmi um þetta er að á 137. löggjafarþingi lögðu nokkrir þingmenn, þar á meðal sú sem hér stendur, fram tillögu til þingsályktunar um endurreisn íslensku bankanna. Þar var lögð til ákveðin aðferðafræði við það að miða stærð bankanna við endurreisnina við innlend innlán, en nýju bankarnir voru hins vegar stofnaðir út frá stærð innlendra útlána án þess að nokkur skýr rökstuðningur væri fyrir þeirri ákvörðun eða enn á ný pólitísk stefnumörkun.

Þetta er líka ein af ábendingunum sem kemur fram í skýrslu starfshóps um viðbrögð stjórnsýslunnar við skýrslu rannsóknarnefndar þar sem talað er um mikilvægi þessarar pólitísku forustu sem stuðlar síðan að undirbúinni og samhæfðri stefnumótun ríkisvaldsins. Bent er á dæmi frá öðrum löndum um hvernig staðið er að þessu. Það að við erum lítil þjóð, smáríki, getur gert þessa vinnu erfiðari en þó alls ekki ómögulega. Það sem við höfum hins vegar búið við í dag eru afar óljós og illa skilgreind mörk undirbúnings stefnumótunar, pólitískrar ákvörðunartöku um val á kostum og svo vinnu við gerð lagafrumvarpa. Þó að við þurfum að gera okkur grein fyrir smæð stjórnsýslunnar telur 1. minni hluti að bankahrunið hafi sýnt samfélagslegt mikilvægi þess að stjórnvöld gefi sér tíma til að undirbúa og marka hina pólitísku stefnu er varðar starfsemi og umfang fjármálamarkaðarins á Íslandi í ljósi getu og stærðar þjóðarbúsins, komi sér upp plani, það er einmitt orð sem við höfum verið að ræða í viðskiptanefnd. Hvert er planið? Hvað ætlum við að gera?

Þá hafa þau rök komið á móti að betra sé að gera eitthvað en ekki neitt þó að maður hafi ekki plan. Við höfum öll einhvern tíma komið inn í nýja borg, ætlað að finna einhvern ákveðinn stað og höfum rambað af stað án þess að hafa nokkurt kort eða vegvísi til að komast á þann stað. Maður getur svo sem endað á réttum stað en það hefði verið skilvirkara að stoppa og spyrja til vegar.

Því beinir 1. minni hluti því til ríkisstjórnarinnar að marka verði skýra stefna um starfsemi og umfang fjármálamarkaðarins á Íslandi. Ráðum við t.d. við það að vera með kauphöll? Ráðum við við að vera með virkan hlutabréfamarkað miðað við reynslu síðustu ára? Getur Fjármálaeftirlitið staðið undir þeim kröfum sem gerðar eru til þess? Það er það sem minni hlutinn, hvort sem það er 1. minni hluti eða 2. minni hluti — ég held ég geti fullyrt það fyrir hönd 2. minni hluta líka — að við höfum mjög miklar áhyggjur af Fjármálaeftirlitinu. Þegar maður les í gegnum frumvarpið og breytingartillögur meiri hlutans sjáum við að Fjármálaeftirlitið á að gegna lykilhlutverki í að tryggja að fjármálafyrirtæki fari eftir þeim ákvæðum sem eru í frumvarpinu. Þó að við séum að gefa þeim þarna aukið svigrúm og meiri valdheimildir þá endurspeglar það hversu ítarleg og flókin lagaákvæðin eru að við treystum þeim ekki. Þó að við séum að gefa þeim auknar valdheimildir til þess að setja í reglugerðir er lagatextinn orðinn mjög flókinn þannig að við erum meira að negla niður hvað Fjármálaeftirlitið á að gera, ekki bara fjármálafyrirtækin.

Í Jännäri-skýrslunni er einmitt talað sérstaklega um að við eigum ekki bara að gefa Fjármálaeftirlitinu auknar valdheimildir heldur sé líka nauðsynlegt að hvetja eftirlitið til að beita þeim heimildum sem það þegar hefur af meiri krafti. Það er líka ein af niðurstöðum rannsóknarnefndarinnar að Fjármálaeftirlitið hafði nægar valdheimildir, það valdi bara að beita þeim ekki. Í starfi nefndarinnar var t.d. fjallað um löggjöf í Svíþjóð og á Spáni, þar er löggjöfin að mörgu leyti ekki eins ítarleg en eftirlitið þar er mun sjálfstæðara í eftirfylgni með því hvað telst til góðra venja og viðskiptahátta á fjármálamarkaði.

Fyrsti minni hluti telur einmitt mjög brýnt í ljósi þessa að lög nr. 87/1998, um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, með síðari breytingum, og lög nr. 99/1999, um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, verði endurskoðuð til að tryggja betur starfsemi stofnunarinnar. Á fundum nefndarinnar var síðan líka bent á, og það var 2. minni hluti í umræðunni um vátryggingafyrirtæki sem fór aðeins í gegnum það, að mjög lítið hefur breyst varðandi hæfni stofnunarinnar í að keppa um hæft starfsfólk. Fjármálaeftirlitið er náttúrlega ekkert annað en fólk, þetta er starfsfólk sem sinnir þessu eftirliti. Í staðinn fyrir að bankarnir sjálfir, nýju bankarnir, séu að ná hæfasta starfsfólkinu frá FME eru það skilanefndir hinna föllnu banka sem virðast vera framtíðarvinnustaðurinn að mati umsækjenda um störf í fjármálageiranum. Það er því mikil hætta á því — ef við förum fram í þessu án þess að fara í endurskoðun á þessum lögum sem ég nefndi, án þess að gripið verði til ákveðinna aðgerða til þess að tryggja betur að Fjármálaeftirlitið geti sinnt þessu hlutverki sínu — að aðilar á fjármálamarkaði, hluthafar, viðskiptavinir og bara almenningur allur muni búa við einhvers konar falskt öryggi með þessari nýju lagasetningu, þ.e. að við teljum að með því að setja nýrri og flóknari lög sé búið að búa til einhvers konar öryggi, bæta úr því sem fór úrskeiðis. En ef ekki verður tekið á þessu og tryggt að FME geti ráðið til sín eins hæft starfsfólk og það telur nauðsynlegt er verið að búa til falskt öryggi.

Vinnan í nefndinni hefur verið mjög áhugaverð og margt hefur verið rætt. Ég vil sérstaklega þakka meiri hlutanum, undir stjórn formanns nefndarinnar, hv. þm. Lilju Mósesdóttur, fyrir hversu vel meiri hlutinn hefur tekið í ábendingar frá minni hlutanum. Ég tek að mestu leyti undir flestar af þeim breytingartillögum sem meiri hlutinn leggur til og tel þær til bóta fyrir frumvarpið. Þá má nefna sérstaklega skilmerkilegri reglur um endurskoðunardeild í 6. gr. frumvarpsins, lækkun fjárhæða í 8. gr., breytingar á 10. gr. sem miða að auknu gegnsæi, breytingar á 13. gr. um að takmarka heimildir tiltekinna fjármálafyrirtækja til að reka fyrirtæki í óskyldum rekstri og síðast en ekki síst ákvæði, sem kom inn á síðustu metrunum, um skyldu til að afhenda kröfuskrá. Við fáum þá loksins svör sem viðskiptanefnd hefur lengi leitað eftir, bæði einstakir þingmenn í nefndinni og nefndin í heild, um það hverjir eru í kröfuhafahópnum hjá hinum föllnu bönkum, hverjir munu hafa áhrif og stjórna því hvernig nýju bankarnir, Arion banki og Íslandsbanki, verða reknir.

Það er líka mjög ánægjulegt að sjá að það eru komin inn ákvæði um kauprétt eða kaupaukagreiðslur, og það er þá í samræmi við þær breytingar sem eru fyrirhugaðar á lögum um vátryggingastarfsemi. Launa- og kaupaukakerfi mega að mati 1. minni hluta alls ekki hvetja til áhættusækni eða skammtímasjónarmiða hjá starfsmönnum og bendir 1. meiri hluti á nýlegar reglur sænska fjármálaeftirlitsins, sem fyrirmynd fyrir Fjármálaeftirlitið, sem byggjast einmitt á tilmælum framkvæmdastjórnar ESB, K(2009) 3159 um launa- og hvatakerfi í fjármálageiranum.

Við ræddum líka mjög mikið um hlutverk og starf endurskoðenda og hvort setja ætti viðameiri ákvæði inn í þessi lög, sem eru sérlög, eða hvort ekki þyrfti að fara í heildarendurskoðun á lögum um endurskoðendur, og þá sérstaklega í ljósi þeirra alvarlegu athugasemda sem voru í skýrslu rannsóknarnefndarinnar. Einnig komu fram ábendingar um það að frumvarpið, eins og það kom frá ráðuneytinu, tryggði ekki nægilega vel sjálfstæði og óhæði endurskoðenda þótt ætlunin væri að stytta starfstíma þeirra niður í fimm ár. Meiri hlutinn leggur því til að ekki sé eingöngu skipt um endurskoðendur á fimm ára fresti heldur endurskoðunarfélag líka. Eftir umræðu í nefndinni og ábendingar frá gestum var líka ákveðið að kjósa endurskoðendur í fimm ár í senn þannig að virkilega mikið þurfi til til þess að víkja endurskoðanda frá fjármálafyrirtæki og raunar álit endurskoðendaráðs — og það ætti raunar að hringja strax viðvörunarbjalla hjá Fjármálaeftirlitinu ef endurskoðandi telur ástæðu til að víkja og það þarf þá að skoða það sérstaklega.

Líkt og með lög um vátryggingastarfsemi telur 1. minni hluti mjög brýnt að farið verði í að endurskoða lög um endurskoðendur og vinna við undirbúning löggjafar og pólitíska stefnumörkun ætti að hefjast sem fyrst ef hún er ekki þegar hafin. Í nefndarálitinu koma fram ýmsar ábendingar um það hvað þyrfti þá sérstaklega að skoða.

Lagðar eru til nokkuð samhljóða breytingartillögur við 43. gr. í frumvarpinu eins og lagt var til varðandi endurskoðendur hjá vátryggingafyrirtækjum, um það að endurskoðandi skuli geta sótt aðalfund félagsins og að endurskoðanda sé skylt að tilkynna Fjármálaeftirlitinu mikilvæg atriði sem koma upp við endurskoðun fyrirtækisins. Mjög mikilvægt er að Fjármálaeftirlitið bregðist af krafti við öllum ábendingum um vankanta á innra eftirliti með fjárhag fjármálafyrirtækisins og þá, líkt og skýrsla Jännäris benti á, ekki aðeins með bréfaskriftum og skýrslugjöf heldur með vettvangsrannsóknum og raunverulegum aðgerðum ef ekki er brugðist við ábendingum.

Fyrsti minni hluti leggur líka til breytingar á 1. gr. laganna þannig að sett verði fram skýr markmið með þeim. Ástæðan fyrir þessu er sú að hér virðist lagahyggja hafa verið mjög ríkjandi og lög hafa verið túlkuð mjög þröngt. Í staðinn fyrir að skoða lagabálka í heild sinni hafa menn farið í það að pikka út ákveðnar greinar og túlka svo út frá ákveðinni grein þó að þeir sem voru að semja frumvarpið hafi að sjálfsögðu hugsað sér að lögin hefðu verið túlkuð í heild sinni. Alþingi Íslendinga hefur líka auðveldað þetta háttalag þar sem almennt hefur skort markmið í upphafi laganna sem túlka skuli aðrar lagagreinar í lagabálkinum samkvæmt. Svo að ég fái að vitna hér í skýrslu starfshóps um viðbrögð stjórnsýslunnar við skýrslu rannsóknarnefndar segir, með leyfi forseta:

„Jafnvel þótt ekki hafi verið unnin mikil forvinna í formi ítarlegs stefnumótunarskjals er hægt að bæta lagasetningarhætti töluvert með tiltölulega lítilli fyrirhöfn. Í því sambandi má huga sérstaklega að því hvort ekki beri að leggja meiri rækt við að greina þá meginhagsmuni sem lögum er ætlað að tryggja og að orða bæði markmið og meginreglur í lagatextanum sjálfum með skýrari hætti en tíðkast gjarnan í íslenskum rétti. Í tengslum við þessa áherslubreytingu sé þá jafnframt gerð nánari grein fyrir þessum atriðum í athugasemdum með lagafrumvörpum.“

Í lögum, sem við erum að fjalla um, nr. 161/2002, í 1. gr., segir, með leyfi forseta:

„Lög þessi gilda um innlend fjármálafyrirtæki og um starfsemi erlendra fjármálafyrirtækja hér á landi. Með fjármálafyrirtæki er í lögum þessum átt við fyrirtæki sem fengið hafa starfsleyfi skv. 6. gr., sbr. 4. gr.“

Hér sjáum við að engin markmið eru skilgreind og engir meginhagsmunir með því að almennt sé verið að setja lög um fjármálafyrirtæki.

Þegar maður skoðar síðan athugasemdir við frumvarpið, sem varð að lögum nr. 161/2002, segir um 1. gr., með leyfi forseta:

„Frumvarp þetta fjallar um kröfur sem gerðar eru til fjármálafyrirtækja, svo sem um stofnun, starfsemi, starfsheimildir, stjórn, eigið fé og ársreikninga. Þau fjármálafyrirtæki sem fá starfsleyfi hér á landi lúta lögum um fjármálafyrirtæki. Auk þess geta fjármálafyrirtæki sem hafa fengið starfsleyfi erlendis fengið heimild til að stunda hverja þá starfsemi sem lög þessi taka til að skilyrðum V. kafla frumvarpsins uppfylltum.“

Síðan er haldið áfram að tala aðeins meira um fjármálafyrirtæki en fátt eitt nefnt um það hver sé tilgangurinn í því að við séum almennt með fjármálafyrirtæki, hver sé tilgangurinn í því að við séum að setja lög um fjármálafyrirtæki og hvaða máli fjármálafyrirtæki skipta fyrir íslenskt samfélag. Þessu var ekki breytt í frumvarpinu þannig að settir væru fram einhverjir meginhagsmunir eða einhver markmið með lögunum. Því leggur 1. minni hluti til að sett verið skýr markmið í upphafi laganna og 1. mgr. 1. gr. verði svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Tilgangur laga þessara er að tryggja að fjármálafyrirtæki séu rekin á heilbrigðan og eðlilegan hátt með hagsmuni viðskiptavina, hluthafa, stofnfjáreigenda og alls þjóðarbúsins að leiðarljósi.“

Aðrar greinar í frumvarpinu og lögunum í heild eiga að vera túlkaðar út frá 1. gr. og tryggja þannig að fjármálafyrirtæki séu rekin á heilbrigðan og eðlilegan hátt. Einnig er nauðsynlegt fyrir alla þá sem koma að rekstri fjármálafyrirtækja að hafa í huga að þau eru ekki eingöngu rekin með hagsmuni hluthafa og stofnfjáreigenda að leiðarljósi heldur viðskiptavina og þjóðarbúsins alls.

Eins og hv. formaður viðskiptanefndar fór í gegnum hér áðan leggur meiri hlutinn til ákveðna breytingu varðandi sparisjóði um að gefa þeim heimild til að starfa á afmörkuðu starfssvæði, að vera með lægra eigið fé en almenna reglan er, að það sé þá ein milljón evra í staðinn fyrir fimm milljónir sem er almenna reglan. Á þeim tíma sem við vorum að vinna þetta mál tók ríkið yfir rekstur hinna 100 ára gömlu sparisjóða, Sparisjóðs Keflavíkur og Byrs. Báðir þessir sjóðir rekja sögu sína aftur til upphafs tuttugustu aldar þegar framsýnir menn tóku sig saman og settu á stofn fjármálastofnanir til að styðja við uppbyggingu atvinnulífsins. Þegar við vorum að vinna þetta mál í nefndinni spurði hv. þm. Ragnheiður Elín Árnadóttir: Hvað er það að vera sparisjóður? Ef sparisjóður væri orðinn ríkissparisjóður er hann samt enn þá sparisjóður?

Ég hef líka rekið mig á það þegar ég hef verið að tala fyrir mikilvægi þess að við séum með sparisjóði í flórunni á íslenska fjármálamarkaðnum að þá er ég spurð að því hver sé munurinn á sparisjóðum og venjulegum bönkum. Ég settist svo niður og skrifaði grein þar sem ég reyndi að svara þessari spurningu.

Sparisjóðir eru í mínum huga náskyldir samvinnufélögum, gagnkvæmum tryggingafélögum, sjálfseignarstofnunum og frjálsum félagasamtökum. Þeir byggja líka á þessum hugsjónum samvinnunnar um að fólk nái meiri árangri með því að vinna saman en hvert í sínu horni, að eina leiðin til að tryggja sanngirni í samfélaginu sé að dreifa valdi, lýðræðisleg vinnubrögð og síðan að hvetja til reksturs samvinnufélaga og annarra sameiginlegra félaga sem hafa hagsmuni félagsmanna að leiðarljósi fremur en að hámarka hagnað — vilja að sjálfsögðu ná rekstrarlegum árangri en þá á grunni ákveðinna siðferðislegra gilda og sterkrar samfélagslegrar vitundar þar sem hver meðlimur hefur eitt atkvæði.

Það skal hins vegar viðurkennast hér, og það er ekki í fyrsta skipti sem ég geri það í þessum ræðustól, að samvinnumenn og þar á meðal þeir sem stóðu að sparisjóðunum villtust af leið, skildu ekki eða vildu ekki skilja þá hugsjón eða þá hugmyndafræði sem lá á bak við og fé án hirðis varð að ákveðnu skammaryrði í íslenskri tungu þar sem eignir og sjóðir sem stóðu að baki rekstrinum voru ekki að skila beinum hagnaði í vasa eigenda sinna. Stór hluti sparisjóða var kominn mjög langt í „hlutafélagavæðingu“ fyrir hrunið enda hvattir áfram með breyttu laga- og rekstrarumhverfi. Áherslan var ekki lengur á samfélagslegan þátt rekstrarins heldur allt of oft á skammtímagróða og sérhagsmuni.

Einn athyglisverðasti kaflinn í skýrslu rannsóknarnefndar er að mínu mati greining dr. Huldu Þórisdóttur um aðdraganda og orsakir efnahagshrunsins á Íslandi frá sjónarhóli kenninga og rannsókna í félagslegri sálfræði. Þar bendir hún á að fjöldi rannsókna hafi sýnt að fólk er drifið áfram af mun fleiri hvötum en eiginhagsmunum og ekki hvað síst af sanngirni. Hins vegar er auðveldlega hægt að ýta undir eiginhagsmuni einstaklinga og búa til kerfi sem hvetur til sérhyggju og ósanngirni.

Með leyfi forseta, langar mig að vitna í þessa greiningu hjá Huldu Þórisdóttur:

„Hagfræðinemar komnir langt í námi hegða sér til dæmis mun frekar til samræmis við forsenduna um eiginhagsmunagæslu en aðrir nemendur og þeir sem skemmra eru komnir í hagfræðinámi.“

Samfélagsuppbygging, eins og Hulda bendir á, sem hvetur fólk til að meta efnisleg gæði framar öðrum gildum á borð við réttlæti eða sanngirni laðar fram hegðun hjá fólki í samræmi við forsendur kerfisins.

Joseph Stiglitz, nóbelsverðlaunahafi í hagfræði, hefur talað mikið um mikilvægi þess að byggja upp raunverulegt blandað hagkerfi og hverfa frá nýfrjálshyggju og öfgamarkaðshyggju. Hann bendir á að hin ósýnilega hönd hins frjálsa markaðar sé eftir allt saman ekkert ósýnileg, hún sé hreinlega ekki til. Því verði endurreisn hins vestræna heims að byggjast á jafnvægi, raunverulegu blönduðu hagkerfi þar sem einkafyrirtæki, ríkið og sameignarfélög ná að blómstra. Sanngjarnt, heilbrigt og réttlátt samfélag er líklegra til að vaxa og dafna á sjálfbæran hátt, hvort sem litið er til félagslegra, pólitískra eða umhverfislegra þátta.

Á næstu árum verðum við að byggja betra og sanngjarnara samfélag. Að mínu mati eru lánastofnanir sem eiga náin tengsl við samfélag sitt og leggja áherslu á að þjónusta félagsmenn á sanngjörnum kjörum hluti af þessari endurreisn. Núverandi ákvæði laga um fjármálafyrirtæki, um sparisjóði, gefa ekki færi á þessu. Ríkisvæðing sparisjóðakerfisins er þegar hafin og skorið hefur verið á hin nánu tengsl við samfélagið sem sparisjóðirnir starfa í. Því vill 1. minni hluti leggja fram ákveðna breytingartillögu til að bæta úr þessu og tryggja að sparisjóðir verði áfram sparisjóðir og eigi í nánum tengslum við umhverfi sitt. Það breytir því ekki að ríkið fer með allt stofnfé. En hér er lagt til að þegar verið er að skipa stjórn sparisjóðanna skuli sitja þar að lágmarki fimm menn og stofnfjáreigendur muni kjósa tvo stjórnarmenn, hlutaðeigandi sveitarstjórnir eða héraðsnefndir tilnefna tvo stjórnarmenn og innstæðueigendur — og sparisjóðurinn getur ákveðið hámark eða lágmark og ég vona að það verði tiltölulega lágt, segjum t.d. 5 þús. kr. eða 10 þús. kr., þannig að allir þeir sem eru með innstæðu að lágmarki 5 þús. kr. geta mætt á fund innstæðueigenda og þar er kosinn fulltrúi þeirra sem eiga innstæður í sparisjóðnum sem tekur þá sæti fyrir þeirra hönd í stjórn sparisjóðanna. Síðan er farið nánar í hvernig skiptingin verður ef starfssvæði sparisjóðs nær yfir fleiri en eitt sveitarfélag, hvernig standa skuli að kosningu varamanna og síðan það að starfsmenn geti líka átt fulltrúa í stjórninni ef sjóðurinn er með fleiri en 15 starfsmenn.

Jafnframt telur 1. minni hluti mjög mikilvægt að fram fari heildarendurskoðun á löggjöf um sparisjóði samhliða stefnumörkun um hvers konar fjármálamarkað við viljum hafa á Íslandi, miðað við stærð og getu þjóðarbúsins. Því leggur 1. minni hluti til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingartillögum sem hann leggur fram og koma fram í nefndaráliti. Ég óska jafnframt eftir því að málið fari til viðskiptanefndar á milli 2. og 3. umr.