138. löggjafarþing — 125. fundur,  18. maí 2010.

störf þingsins.

[13:31]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf):

Frú forseti. Í rúmt ár hefur ríkisstjórnin stefnt að fækkun ráðuneyta en með slíku má spara fjármuni, fækka stofnunum, einfalda stjórnsýslu og auka fagmennsku. Verkefnið er að útfæra niðurskurð upp á 40–50 milljarða en leiðarljós niðurskurðar er að minnka kostnað við yfirstjórn, t.d. með sameiningu stofnana, en skerða sem minnst þjónustu við notendur, börn, fatlaða og eldra fólk.

Fækkun ráðuneyta og stofnana er nauðsynleg til að minnka yfirbyggingu en slíkar sameiningar munu ekki síður bæta vinnubrögð innan stjórnsýslunnar eins og nýleg skýrsla vinnuhóps um starfshætti í stjórnsýslunni hefur glögglega sýnt fram á. Ríkið er nú rekið með yfir 300 millj. kr. halla á dag og mikilvægt að skera niður allan óþarfakostnað og margir ráðherrar, ráðuneyti og stofnanir eru hluti af þeim óþarfa. Ríkisstjórnin hefur nú afgreitt málið og það bíður þingsins og nú verða ábyrgir þingmenn úr öllum flokkum að sameinast um að koma þessu málefni í góðan farveg.

Það verður að viðurkennast að væntingar mínar eru nokkrar um stuðning Sjálfstæðisflokksins í þessu máli enda hefur flokkurinn lengi haft mikinn áhuga á aðhaldi í ríkisrekstri og sparnaði í yfirstjórn. Ég verð þó að viðurkenna að ég heyrði ávæning af því um daginn í þessum sal að einhverjir þingmenn ætluðu að setja sig á móti málinu. Mig langar því að spyrja hv. þm. Ásbjörn Óttarsson um hans skoðun á þessu þjóðþrifamáli. Mun Sjálfstæðisflokkurinn, sem er áhugasamur um sparnað og minnkun í yfirbyggingu, vera með eða á móti þessu máli og þá á hvaða forsendum? Hv. þm. Ásbjörn Óttarsson hefur reynslu af fyrirtækjarekstri og veit að menn þurfa að ná endum saman og verða að leita allra leiða til þess. Ég spyr: Vilja menn í Sjálfstæðisflokknum báknið burt?