138. löggjafarþing — 125. fundur,  18. maí 2010.

störf þingsins.

[13:45]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég vil taka undir með hv. þm. Óla Birni Kárasyni um nauðsyn þess að þingið afgreiði lyklafrumvarpið. Það er hrópað á þetta lyklafrumvarp og sérstaklega er það fólk sem stendur frammi fyrir því að geta ekki borgað af þeim skuldum sem hvíla á húsnæði þess.

Frú forseti. Ég er ekki komin hingað til að tala um skuldir heimilanna þó að það sé eitt af mínum uppáhaldsumræðuefnum heldur til að ræða um Magma og vekja athygli á því að einkafyrirtæki eru ekki góðgerðarstofnanir. Magma keypti hlut Geysis Green í HS Orku á hærra verði en aðrir voru tilbúnir að kaupa hlutinn á og eigandi Magma hefur tilkynnt að von sé á hækkun orkuverðs. Orkuverð mun því hækka verulega á Reykjanesi, á svæði þar sem atvinnuleysi er mikið. Þetta er nákvæmlega það sem gerðist í kjölfar skuldakreppunnar í Suður-Ameríku. Orkufyrirtækin voru einkavædd vegna þrýstings frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum sem hefur óbilandi trú á einkavæðingu.

Hér á landi bannar AGS íslenska ríkinu að fjárfesta í innviðum samfélagsins nema sú fjárfesting fari fram í formi einkaframtaks. (HöskÞ: Hverjir eru í ríkisstjórn?) Frú forseti. Lausafjárvanda samfélagsins á ekki að leysa með sölu eða langtímaframsali á auðlindum og orkufyrirtækjum. ESB-tilskipunin um erlendar fjárfestingar er of sveigjanleg. Hún leyfir kanadískum auðhringi með skúffufyrirtæki í Svíþjóð að eignast 98% í þriðja stærsta orkufyrirtæki landsins.

Alþingi átti fyrir löngu að vera búið að innleiða bann við fjárfestingum erlendra aðila í þjóðhagslega mikilvægum fyrirtækjum eins og orkufyrirtækjum. Slíkt bann er í gildi í Frakklandi (Forseti hringir.) og ég mun sjá til hvort hægt er að innleiða þetta franska bann í íslenska löggjöf.