138. löggjafarþing — 125. fundur,  18. maí 2010.

störf þingsins.

[13:47]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegur forseti. Það var holur hljómur í orðum hv. þm. Lilju Mósesdóttur sem hefur haft allan þann tíma frá því að hún kom inn á þing til að gera eitthvað í málum sem hún hefur svona svakalega miklar áhyggjur af. Staðreyndin er þessi: Með lögum árið 2008 var tryggt að orkuauðlindir yrðu ávallt í almannaeigu á meðan þau lög eru í gildi. Hæstv. utanríkisráðherra, þáverandi hæstv. iðnaðarráðherra, staðfesti í gær að svo væri, þessi lög eru enn í gildi jafnvel þó að það virðist hafa farið fram hjá hv. þingmönnum Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs. Nú kemur næsta hræðslutaktíkin. Nú er talað um að hækka eigi orkuverð af því að þetta sé kanadískur auðhringur. (Gripið fram í: Hann sagði það.) Ef hv. þingmaður hefði hlustað á alla fréttina í gær hefði þingmaðurinn átt að vera ánægður vegna þess að forstjóri fyrirtækisins tilkynnti einmitt að orkuverð til stóriðju væri of lágt og ég veit ekki betur en hv. þingmenn Vinstri grænna hafi talað hæst um að verið sé að gefa stóriðjufyrirtækjunum orku. Hann talaði jafnframt um að ekki stæði til að hækka orkuverð á heimilin á Suðurnesjum og mér sem Suðurnesjamanni misbýður sá hræðsluáróður. Þar að auki er HS Orka með u.þ.b. 10% af raforkumarkaðnum. Ef við Suðurnesjamenn verðum fyrir því að það hækki meira á okkur þá er raforkan á samkeppnismarkaði, þá getum við hringt eitt símtal og skipt um raforkuveitanda. Við skulum ekki vera að gera úlfalda úr mýflugu í þessu máli. Staðreyndin er sú að það er tryggt með lögum að orkuauðlindirnar eru í almannaeigu.

Samfylkingin á þingi virðist vera þessu sammála. Það er hins vegar athyglisvert að í pólitískum popúlisma suður með sjó eru frambjóðendur Samfylkingar til sveitarstjórna eitthvað að sprikla á sömu slóðum (Forseti hringir.) og Vinstri grænir. En gleymum ekki staðreyndum og förum rétt með. (Gripið fram í: Það var … frá 2007.)