138. löggjafarþing — 125. fundur,  18. maí 2010.

störf þingsins.

[13:52]
Horfa

Skúli Helgason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég kveð mér hljóðs undir þessum lið til að ræða kaup fyrirtækisins Magma Energy á hlut Geysis Green Energy í orkufyrirtækinu HS Orku. Það er nauðsynlegt að hafa í huga í þessu máli að hér er í reynd erlendur aðili að kaupa hlut annars erlends aðila því að Geysir Green Energy er, eins og við vitum, að mestu í eigu erlendra kröfuhafa eftir söluna á Íslandsbanka síðasta haust.

Umræðan um þetta mál er á nokkrum villigötum því að einstakir aðilar halda því fram að með þessum gjörningi sé verið að selja auðlindir þjóðarinnar. Sem betur fer er það ekki svo enda væri það lögbrot. Samfylkingin hafði forgöngu um það árið 2008 að setja lög sem tryggja að auðlindir séu í opinberri eigu, að þjóðin eigi auðlindirnar. Sú lagasetning var reyndar nauðsynleg vegna þeirrar ákvörðunar ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks árið 2007 að einkavæða Hitaveitu Suðurnesja. Auðlindirnar sem HS Orka hefur þegar samið um nýtingu á eru að fullu í eigu Reykjanesbæjar. Lögin heimila ekki framsal auðlinda í hendur einkaaðila en hins vegar er einkaaðilum heimilt að gera samninga um nýtingarrétt á auðlindinni í gegnum orkufyrirtækin. Ég er reyndar þeirrar skoðunar að það sé afar brýnt og nauðsynlegt að stytta verulega nýtingarréttartíma orkufyrirtækjanna þannig að hann verði ekki 65 ár, eins og heimild er fyrir í lögunum, heldur 35–40 ár. Þessu þarf klárlega að breyta og ég tel brýnt í því máli sem við ræðum hér að Reykjanesbær og HS Orka setjist að nýju að samningaborði, taki upp hinn gamla samning, sem að mínu mati var fráleitur, þar sem samið var um nýtingarrétt til 65 ára með vilyrði um framlengingu í önnur 65 ár til viðbótar. Það á ekki að leyfast að veita vilyrði um framlengingu á slíkum nýtingarrétti fyrir fram því að skilyrði fyrir framlengingu eiga og hljóta að vera þau að umgengni um auðlindina sé til fyrirmyndar.

Ég skora á forsvarsmenn Reykjanesbæjar að svara án tafar kalli iðnaðarráðherra um að taka upp þennan samning og gera þessa mikilvægu breytingu.