138. löggjafarþing — 125. fundur,  18. maí 2010.

vátryggingastarfsemi.

229. mál
[14:14]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Frú forseti. Í þessari grein er tiltekið að bundin frum- eða endurtryggingafélög skuli vera hlutafélög á Íslandi. Eins og kom fram í umræðunni í gær tel ég að við séum að feta sama stíg og við höfum fetað undanfarna áratugi í að reyna að tryggja að hér séu starfandi félög sem hafi almannahagsmuni fyrst og fremst að leiðarljósi, séu í sameign og byggi á samvinnuhugsjóninni. Ég tel að þetta sé vanhugsuð breyting. Ástæðan fyrir því að ég greiði hins vegar ekki atkvæði gegn tillögunni er sú að ég er með breytingartillögu við þetta frumvarp þar sem ég óska eftir því að settur verði á stofn hópur sem muni vinna að pólitískri stefnumörkun um það hvernig við getum tryggt raunverulega fjölbreytni á vátryggingamarkaði þar sem við erum með sterk einkafyrirtæki sem byggja á þessari almannaheillahugsun (Forseti hringir.) og þá undir styrku eftirliti og aðhaldi frá ríkisvaldinu.