138. löggjafarþing — 125. fundur,  18. maí 2010.

vátryggingastarfsemi.

229. mál
[14:15]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (Vg):

Frú forseti. Við erum að fella á brott heimild til að stofna gagnkvæm vátryggingafélög. Aðstæður eru þannig núna að það eru engin gagnkvæm vátryggingafélög í rekstri. Reglur um gjaldþol og afnám einkaréttar ollu þeim miklu vandræðum. Með þessu afnámi erum við samt sem áður ekki að koma í veg fyrir það að einhver félagasamtök geti boðið félagsmönnum sínum upp á þann kost að stofna vátryggingafélög. Meiri hlutinn telur brýnt að löggjöf um vátryggingastarfsemi verði endurskoðuð um leið og einhver áhugi á að stofna gagnkvæm vátryggingafélög kemur í ljós.

Efnahags- og viðskiptaráðuneytið er mjög upptekið núna við að herða reglur um fjármálageirann og þar sem enginn áhugi er á því að stofnsetja gagnkvæm vátryggingafélög teljum við ekki (Forseti hringir.) að tíma ráðuneytisins sé vel varið í að setja þessa löggjöf núna.