138. löggjafarþing — 125. fundur,  18. maí 2010.

vátryggingastarfsemi.

229. mál
[14:26]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Frú forseti. Í 54. gr. er fjallað um hæfisreglur fyrir stjórnarmenn í vátryggingafélögum og framkvæmdastjóra ásamt öðru. Það má taka undir mjög margt varðandi þau skilyrði og hæfniskröfur sem þar er gerð grein fyrir varðandi stjórnarmenn og framkvæmdastjóra. Það segir hins vegar í 4. mgr. 54. gr. að stjórnarmenn og framkvæmdastjórar skuli vera fjárhagslega sjálfstæðir, sem er eðlilegt, og hafa lokið háskólaprófi sem nýtist í starfi. Ég er þeirrar skoðunar að það sé eðlilegt að eigendur vátryggingafélaga fái frelsi til að velja þá sem þeir treysta burt séð frá því hvort þeir eru með háskólapróf eða ekki til að stýra félögunum. Ég tel að það sé ekki við hæfi að þeir sem ekki hafa lokið háskólaprófi þurfi að leita sérstaklega eftir undanþágu (Forseti hringir.) til Fjármálaeftirlitsins til að geta gegnt slíkum störfum. Ég er á móti því að fólk sé dregið í dilka (Forseti hringir.) með þessum hætti.