138. löggjafarþing — 125. fundur,  18. maí 2010.

vátryggingastarfsemi.

229. mál
[14:30]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Hér er verið að greiða atkvæði um grein um kaupaukakerfi og starfslokasamninga. Það vita allir að kaupaukakerfi voru komin út í tóma vitleysu svo að ekki sé dýpra í árinni tekið og sjálfsagt að taka sérstaklega á þeim málum. Á sama hátt voru þess dæmi að starfslokasamningar væru misnotaðir. En hér er löggjafinn hins vegar að ganga, og það er í þessari sömu grein, mjög langt í því að þrengja heimildir til eðlilegra starfslokasamninga sem hafa fyrst og fremst komið til vegna þess að verið er að koma til móts við fólk sem hefur unnið í áratugi hjá ákveðnu félagi, í þessu tilfelli vátryggingafélagi.

Við ræddum þetta í þinginu og vonumst til að þetta verði skoðað sérstaklega þegar málið fer til nefndar á milli umræðna.